12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Jón Baldvinsson:

Mjer heyrðist nú hæstv. atvrh. ekki vera alveg viss um nema þessar skýrslur kynnu að hafa verið grafnar. En þó að þær sjeu ekki grafnar fyrir þinginu og því sendar ársskýrslur, þá er það ekkert aðalatriði. Aðalatriðið er, að það sje birt á hverjum tíma, hvernig markaðshorfurnar eru þar syðra. Ef það er ekki gert, þá er aðeins fáum mönnum gefið tækifæri á að kynna sjer skýrslurnar á kostnað annara landsmanna. Það má vel vera, að frá einhverju kunni að vera skýrt, sem ekki þykir hentugt að birta, en um markaðshorfurnar þurfa allir að vita. Þó skýrslurnar liggi í stjórnarráðinu, veit hæstv. atvrh., að ekki nota þær nema fáir menn þar. Þá talaði hæstv. atvrh. um það, að þeir, sem þessi mál varða, gætu fengið að sjá skýrslurnar. En hverja varðar þetta þá? Auðvitað alla landsmenn. Það er alveg eins og þetta væri gert fyrir fáeina menn, og svo varðaði aðra ekkert um það.

Annars geta þessar upplýsingar, sem hæstv. atvrh. hefir gefið, ekki teygt menn til þess að greiða frv. atkv., þó að þörf sje kannske fyrir manninn. Jeg skal ekki neita því, að svo kunni að vera. En nú bjóða bankarnir að greiða hluta launanna. Gæti þá ekki komið til mála, að þeir greiddu þau öll? Hæstv. ráðherra talaði um, að þetta væri nauðsynlegt starf. En maðurinn má þá ekki aðeins verða fulltrúi fárra manna.

Í sambandi við þessi lög mætti minna á deilur, sem orðið hafa á fyrri þingum, er ákveðnir menn hafa með lögum verið settir í embætti. Hjer vita allir, að átt er við ákveðinn mann, sem þetta starf er ætlað. Svo var einnig um Guðmund Finnbogason, og sama máli er að gegna um grískudósentsembættið. En svo þegar á að fara að hrófla við þessum mönnum, þá kemur þetta sama, — sem raunar hefir nokkuð til síns máls, — að þetta sjeu svik við mennina.