18.04.1925
Neðri deild: 59. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Bjarni Jónsson:

Jeg þarf ekki að deila mjög á háttv. 1. þm. Árn. (MT), því hann hefir sýnt fullan skilning á því, hve utanríkismálin eru merkileg mál og hættuleg. Jeg gæti auðvitað þráttað við hann um gagnið af hverri einstakri sendiför, sem mjer virtist hv. þm. (MT) líta nokkuð svart á, en jeg vil ekki tefja með því tíma þingsins.

Viðvíkjandi 2. gr. frv. hefi jeg áður lýst yfir því, að jeg tel hana raunar óframbærilega. En jeg býst samt við því að greiða frv. atkv. mitt, vegna þess, að eins og þingið er nú samansett, þá er engin von til þess að meiri hluti fáist með rjettum skilningi á þessu atriði. En jeg lít svo á, eins og hv. þm. (MT), að það sje ósæmilegt að láta einstakar stofnanir greiða kaup til manna, sem beinlínis eru og eiga að vera embættismenn ríkisins. En þar sem þessi sendimaður á að gæta hagsmuna landsins og skoða má bankana sem landsmenn, þá vil jeg ekki leggja á móti þessu. Hinsvegar er jeg ekki samdóma hv. þm. (MT) um það hlutfall, sem vera ætti milli bankanna í þessu efni. Landsbankinn er nú alveg eins mikill útgerðarbanki og Íslandsbanki, og varðar þetta mál hann engu minna.

En hvað snertir meðferðina á bönkunum í þessu máli, sem hv. þm. (MT) talaði um, þá er það satt, að ekki er hægt að heimta fje af Íslandsbanka og ekki rjett að heimta það af Landsbankanum. En jeg lít á það sem malum necessarium — illa nauðsyn.

En aftur er jeg algerlega mótfallinn till. hans um það, að sá maður, sem þetta starf fær, megi ekki hafa gegnt neinu slíku starfi áður. Þó þessi maður hefði verið konsúll áður fyrir eitthvert ríki, þá á það alls ekki að gera hann óhæfan til þess að verða starfsmaður Íslands, hvorki í því landi nje öðru. Það mætti fremur halda því fram, að hann stæði betur að vígi um að gera Íslandi gagn í því landi, sem hann hefði áður gert greiða og þekkir eitthvað til manna og mála. En jeg lít svo á, að þetta geri hvorki til nje frá, hvort maðurinn hafi gegnt einhverju slíku starfi eða ekki, og mundu fáir menn fást til að gegna störfum fyrir ríkið, ef svo strangt ætti að líta á fortíðina. En hitt er sjálfsagt, að hann sje ekki hvorttveggja í einu, starfsmaður annars ríkis og fulltrúi Íslands, og tel jeg víst, að stjórnin geri svo ráð fyrir í erindisbrjefi hans. Jeg man svo langt, að jeg var sendur út í lönd sem sendiherra og verslunarerindreki, og raunar alt í öllu. En jeg hafði erindisbrjef, sem bannaði mjer að fara með verslun, hvort heldur fyrir sjálfan mig eða í annara umboði, og einnig störf fyrir önnur ríki. Alt var þetta tekið fram í erindisbrjefinu; og það er líka nægilegt, að það standi. þar, og þarf því ekki að gera þessa breytingu við frv. Þetta er sjálfsagt, og jeg býst við því, að hæstv. stjórn muni lýsa því yfir, að hún ætli og hafi altaf ætlað að koma þessu þannig fyrir.

Loks vil jeg geta þess, að sá maður, sem till. hv. 1. þm. Árn. (MT) eru stílaðar gegn, hefir reynst hinn nýtasti og ágætur embættiámaður. Og gæti jeg fengið vitnisburð þeirra manna, sem notið hafa starfa hans, því til sönnunar, að hann hafi unnið mikið gagn. Mun svo enn verða.