27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Frsm. meiri hl. (Sigurður Eggerz):

Hv. frsm. minni hl. (JJ) mintist á þann mann, sem gert er ráð fyrir, að fái þetta embætti, og dró í efa, að hann væri fær um að gegna því. Jeg játa, að jeg hefi ekki þekkingu til að dæma um, hver sje fær og hver ekki í þessa stöðu, en það er einn hæstirjettur í þessu máli, og það er háskólinn sjálfur, og hann hefir dæmt, að dr. Alexander Jóhannesson sje fær um þetta. Jeg verð að segja, að þessi dómur vegur svo þungt í mínum augum, að jeg er ekki í Vafa um, að hann hefði ekki mælt með honum, ef það hefði ekki verið víst, að hann væri fær til starfsins.

Hv. 5. landsk. talaði um, að dr. A. J. væri sjálfur að olnboga sig áfram. En jeg vil geta þess, að þó að hann fengi ekki þessa stöðu við háskólann, yrðu engir erfiðleikar fyrir hann að draga fram lífið, því að hann er mjög duglegur maður einnig á öðrum sviðum. En það, sem gerir, að hann vill gjarnan fá þessa stöðu, er það, að hann er búinn að verja mörgum árum af æfi sinni til að rannsaka þessa fræðigrein, og þá er skiljanlegt, að hann vilji gjarnan halda áfram á þeirri braut.

Jeg álít því, að hjer í hv. deild þurfi ekki að deila um það, hvort maðurinn hafi hæfileika eða ekki; um það er dómur kominn frá háskólanum, og mjer virðist háskólinn hafa sýnt það á ótal sviðum, að hann á fullkomlega skilið, að álit hans verði tekið til greina í slíku máli sem þessu.

Hv. 5. landsk. hneykslaðist á því, að haldið var fram af meiri hl., að engin kensla í íslensku hefði farið fram síðan á nýári, og leit svo á, að við tækjum íslenska tungu í of þröngum skilningi. En um þetta atriði hefi jeg umsögn manna, sem vit hafa á því.

Jeg hjelt því fram í gær, að ekki kæmi til mála að hafa tímakennara til að kenna íslenska tungu við háskólann og rökstuddi það þannig, að enginn, sem kastaði höndunum til þess og hefði ekki sjerstaklega lagt það fyrir sig sem lífsstarf, væri fær um að kenna á þann hátt, sem háskólanum sæmdi, og jeg er sannfærður um, að jeg hefi farið rjett með. Það þarf mikið til þess að geta kent íslensku á vísindalegan hátt. Hv. þm. vildi hrinda þessu, með því að benda á, að tímakensla færi fram við háskólann í öðrum greinum. Það er rjett, að bæði Ólafur Þorsteinsson, Thoroddsen, Bernhöft tannlæknir og Jón Hj. Sigurðsson hjeraðslæknir eru tímakennarar við háskólann. En svo stendur á með þessa menn, að þeir kenna það, sem þeir eru sjerfræðingar í, og svo vill til um hjeraðslækninn, sem kennir lyfjafræði, að þegar í Kaupmannahöfn þótti hann sýna sjerstaka hæfileika í þá átt og kennarar hans litu svo á, að hann væri mikið efni í vísindamann. Það er óhugsandi að gera það að skilyrði fyrir hjeraðslækni hjer að vera jafnframt háskólakennari. Það er bara sjerstök tilviljun, að hægt er að njóta aðstoðar hans, og það sýnir óeigingirni núverandi hjeraðslæknis að taka þessa kenslu að sjer fyrir svo litla borgun. Jeg held það sje ekki ofsögum sagt, að hann er afburðamaður á sínu sviði.

Jeg vil bæta því við, sem jeg hefi oft lagt áherslu á, að það á að vanda sjerstaklega til kenslu í íslenskri tungu, sem skipar öndvegið við háskólann.

Að lokum vil jeg leyfa mjer að vísa til þess, sem stendur í áliti meiri hl. mentmn. Vildi jeg svo óska, að mönnum skildist, að við verðum að verja þetta andlega vígi okkar og megum ekki gleyma, að við höfum skyldur gagnvart háskólanum, sem við verðum að rækja, ef vel á að fara.