28.03.1925
Neðri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

1. mál, fjárlög 1926

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að lengja mikið þessar umræður, en vegna þess að háttv. samgmn. hefir nú gert gleggri grein fyrir gerðum sínum og tillögum en orðið var, er jeg talaði síðast, þá verð jeg að segja hjer nokkur orð enn.

Mjer hefði þótt vænt um, ef háttv. samgöngumálanefndarmenn hefðu sjeð sjer fært að ætla nokkurt fje til skipaferða til Stokkseyrar og Eyrarbakka, og þó heldur til Eyrarbakka, því að þótt hafnleysið sje þar máske nokkuð líkt og á Stokkseyri, er þó landtaka þar öllu skárri, þegar á alt er litið. Skip koma þarna alls ekki önnur en þau, sem verslanir þar einstaka sinnum hafa fengið til flutninga þangað að vorinu, og verða þau stundum að hverfa frá vegna þess, hve þarna er brimasamt. Flutningar allir verða því að gerast með smábátum eða þá landveg til og frá Reykjavík. En hjer er alveg eins ástatt og í eystri sýslunum, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Munurinn er hverfandi, ef nokkur er. Skip koma hingað ekki oftar en þar eystra og afgreiðsla þeirra er hjer engu hægari, og þó er veitt fje til að koma vörum á land í eystri sýslunum, Rangárvalla- og Vestur- Skaftafellssýslum. En þar sem ekki verða eftir nema ca. 1200 kr. til samgangna á sjó á þessu svæði samkv. till. samgmn., vænti jeg þó, að hæstv. atvrh. (MG) taki fult tillit til þeirra ástæðna, sem jeg nú hefi gert grein fyrir, og veiti það, sem framast er unt til þess, að bátaferðum verði haldið uppi til Eyrarbakka, og þó að þær geti ekki komið að fullum notum, eru þær betri en ekki neitt, eins og nú á sjer stað. Háttv. samgmn. virðist hafa gleymt því, að á þessu svæði, Eyrarbakka til Stokkseyrar, er sama hafnleysið og austur frá, en þó landtaka sje þarna sæmileg, þegar gott er veður, gegnir þó alveg sama um þessa staði, ef nokkur ókyrð er í sjó, og vænti jeg því, að hæstv. atvrh. (MG) taki tillit til þessara óska minna, eftir því sem hann frekast sjer sjer fært.

En úr því að jeg stóð upp á annað borð, ætla jeg að minnast nokkrum orðum á Biskupstungnabrautina.

Háttv. frsm. fjvn. (ÞórJ) gat um ástæður vegamálastjóra fyrir því, að þessi braut var ekki tekin upp í fjárlögin að þessu sinni, og bætti við, af hvaða ástæðum fjvn. hefði ekki viljað veita fje til þessa vegar. En jeg get ekki fallist á þessar ástæður, svo framarlega, að hægt er að verja nokkru fje til vegabóta yfir höfuð. Jeg efast um, að nokkursstaðar annarstaðar á landinu sje meiri þörf fyrir flutningabraut en einmitt í efri hluta Árnessýslu, vegna þess hve þessi hjeruð eru í mikilli fjarlægð frá sjó og langt til allra aðdrátta, og svo bætir það ekki úr, er sækja þarf yfir vont vatnsfall, eins og til háttar í Tungunum. Vitaskuld skiftir það ekki miklu máli, þó að sagt sje, að vegurinn komist ekki langt fyrir þetta fje, en það litla, sem veginum þokar áfram á ári hverju, kemur allri sveitinni að gagni, og er það mikil bót í máli. Jeg efast um, að hægt sje að segja það sama um aðrar brautir, sem lagt er til, að veitt verði fje til, og skal jeg þó ekki telja það úr. Það er víst, að mikil samgönguþörf er einnig í öðrum hjeruðum, en minna má þó ekki vera en að satt sje sagt til um allar ástæður, og mega því þessi hjeruð í Árnessýslu njóta sanngirni á móts við önnur hjeruð. Jeg vænti því, að háttv. þingdeild fallist á þessa brtt. mína, þó ekki sje farið fram á meira fje en þetta.

Jeg veit ekki, hvort hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) er hjer inni í svipinn, en til hans vildi jeg beina nokkrum orðum. Þegar hann talaði fyrir brtt. sinni á þskj. 235 II, um styrk til læknis í Reykjavík til að gegna læknisstörfum í Kjós, sagði hann, að fjarlægðin ofan úr Kjós til Hafnarfjarðar væri svo mikil, að ekki væri tiltök að vitja læknis til Hafnarfjarðar. Vitanlega er þetta erfitt og langt að vetrarlagi, en er þó ekki samanberandi við ýmsa þá örðugleika, sem menn eiga við að búa í mörgum sveitum annarstaðar á landinu. Jeg er ekki að mæla því bót, að þetta þurfi að vera svona, en ef það er ókleift að vitja læknis til Hafnarfjarðar ofan úr Kjós, — hvað ætli mætti þá segja um það að sækja lækni ofan af Hólsfjöllum að Brekku í Fljótsdal eða úr Öræfum til Hornafjarðar ? Nei, það sem gerir mesta erfiðleikana þarna, er líklegast það, að læknirinn í Hafnarfirði er ófær til að ferðast á hestbaki. Það ber hann engin skepna, eftir því sem hv. 1. þm. G.-K. segir. Þess vegna er sanngjarnt, að þessi sami læknir sýni einhverja tilhliðrunarsemi í greiðslu á launum sínum, þannig, að eitthvað af þeim færi til að launa þann lækni, sem fenginn verður til þess að annast læknisstörf í þessari sveit. En þó verður að fara í þetta með allri sanngirni, þar eð þetta getur reynst fullhættuleg braut, sem þá skapaði fordæmi annarstaðar. Það er auðvitað hægara að leita læknis til Reykjavíkur ofan úr Kjós en til Hafnarfjarðar. Hitt nær vitanlega engri átt, að hægara sje að vitja læknisins til Akraness en til Hafnarfjarðar. Jeg vildi aðeins benda á, að þetta er allhæpin braut, sem hv. 1. þm. G-.K (ÁF) ætlast til, að verði farin, ef veita skal slíkan styrk. Það gæti skapað fordæmi, og svo vil jeg að síðustu spyrja háttv. þm., hvort Kjósarmenn eigi þá víst að fá nokkurn lækni í Reykjavík til að sinna þessum ferðum, þó að þessi brtt. háttv. 1. þm. G.-K. yrði samþykt.