29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Klemens Jónsson:

Hæstv. atvrh. (MG) fann að því við 2. umr., að þetta mál hefði komið heldur seint fram, og var það af rökum sagt, en nú virðist eiga að flýta málinu alt of mikið, svo að menn fá engan tíma til að átta sig á því, því hefðu litlar umr. orðið um 1. málið á dagskrá í dag, þá hefði hæglega getað farið svo, að þetta mál hefði verið tekið til umræðu áður en brtt. við það komu á fundinn.

Jeg get ekki neitað því, að mjer sárnaði mjög, hvernig þetta mál fór við 2. umr. Það var búið að leggja mikla vinnu í það í 7–8 ár og reynt að fá hagkvæm lög út úr því, en svo er þetta margra ára starf eyðilagt með einni brtt., sem sennilega er lítt yfirveguð. Það er auðsjeð, að það er ekki til neins að vera að samþykkja lög, sem enginn maður getur notað. Þingið verður að sjá um, að menn, bæði innlendir og útlendir, geti notað sjer þau. Meðal annars eru það sjerstaklega ákvæði um sjerleyfistímann. Hann verður að vera svo langur, að mönnum sje fært að hagnýta sjer það. Fyrst þótti mönnum ekki hyggilegt að hafa hann lengri en 55 ár. Það var „minimum“. Síðar komst hann upp í 65 ár og loks upp í 75 ár. Með þeirri meðferð, sem þetta mál fjekk á þingi 1923 í hv. Ed., var það svo úr garði gert, að það var vissa fyrir því, að menn gætu hagnýtt sjer lögin, og eins var það útilokað, að hagsmunir ríkisins yrðu á nokkurn hátt fyrir borð bornir. Nú er þetta tímatakmark fært niður, ekki niður í 65 ár, heldur niður í 50 ár. Með þessu er málið gersamlega orðið að engu. Það er alveg sama, hvort það nær fram að ganga eða ekki, úr því að þetta ákvæði er komið inn í lögin. Nú eru ennþá komnar fram brtt. við frv. Þær tvær brtt. frá háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) eru ekki til skemda á frv., en ekki til sjerlegra bóta heldur, því að það er alls ekki rjett, sem háttv. þm. (SvÓ) sagði, að lögin væru bygð á „kommunisma“. Þá liggur það í sjálfu sjer, að ekki geta aðrir fengið slíkt sjerleyfi heldur en þeir, sem hafa rjettarheimildir í þessa átt, en hinsvegar er það enginn skaði, þótt tekið sje fram, að það skuli vera umráðamaður vatnsrjettindanna. Jeg hefi ekkert að athuga við seinustu brtt. Það er ekki ósanngjarnt, að Alþingi eigi að ráða um það, hvort leyft skuli framsal til útlendra manna eða ekki. En það er brtt. frá hv. þm. Str. (TrÞ), sem fer ennþá meira í þá átt að gera þessi lög að engu. Það var álitið rjett og sjálfsagt, að stjórnin hefði fulla heimild til þess að veita sjerleyfi þar, sem ekki er að ræða um meira en 25 þús. eðlishestöfl. Það er alkunnugt, að það er umsvifamikið að þurfa að leita til Alþingis, einkum þegar það er háð annaðhvert ár, sem vel getur komið fyrir, að verði aftur. Það getur því orðið erfitt að fara til Alþingis, þegar um svona mál er að ræða. Hinsvegar þótti mjer líklegt, að þessu yrði ekki breytt, því að 25 þús. hestöfl eru ekki mikið. Nú er komin fram enn uppástunga, á þá leið, að lækkað sje niður í 15 þús. Hf. flm. (TrÞ) skoraði á hv. deild að duga sjer með þessa till., en jeg skora fastlega á hv. deild að fella hana, því hún er í þá átt að skemma lögin, þótt ekki sje hún eins skemmileg og niðurfærsla sjerleyfistímans. Jeg skil ekki þetta stöðuga viðkvæði. Það er eins og hv. þm. sjeu hræddir við að láta stjórn landsins hafa nokkuð með málið að gera; það er eins og þeir vilji áskilja alt undan stjórninni og undir sjálfa sig. Jeg skil ekki í slíkri tortryggni við sína eigin stjórn, og auk þess hafa þær ekki verið svo eilífar hjer á landi, að menn þurfi að vera svo hræddir við áhrif þeirra, svo að ef sú er ástæðan, þá er hún harla lítils virði. En það, sem gerir það athugavert að fara með hvert smámál inn á þing, er það, að það verður aðeins til þess, að það kemst pólitík í málið, svo að leyfið verður veitt, ef umsækjandinn er stjórnarflokksmaður, en ef hann er andstæður meiri hl., þá fær hann það ekki. Við vitum, að það þarf ekki mikið til þess, að pólitíkin hlaupi inn í málin á þinginu, hvað þá smámál, eins og þessi. Ef brtt. hv. þm. Str. (TrÞ) verður samþykt, þá held jeg, að það sje alveg áreiðanlegt, að fossar okkar fái að halda áfram að syngja eins og þeir hafa gert í síðastliðin þúsund ár, og árnar að renna jafnt hindrunarlaust til sjávar eins og áður.