29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Bjarni Jónsson:

Mjer er það óskiljanlegt, hvernig hv. 2. þm. Rang. (KIJ) fer að tala um skemdir á þessum lögum, sem orðið hafi við 2. umr., því að það eru mikilsverðar umbætur, sem gerðar voru. Hugsum oss t. d., ef setja ætti í lögin, að orkuver mætti reka í 75 ár. Hafa menn tekið eftir því, hvað það er langur tími? Vita menn t. d., að einkaleyfistími Íslandsbanka er ekki nema 30 ár? Hvað halda menn nú að hefði orðið, ef hann hefði haft þetta leyfi í 75 ár? Hvernig halda menn að lífið hefði orðið, ef hann hefði notað þann rjett sinn út í æsar? Hann hefir að vísu afsalað sjer þessum rjetti, en það er bankans dygð að þakka, en ekki löggjafarvaldsins, og hefði hann ekki viljað gera það, þá hefði maður átt að ýmsu leyti bágt með slíkan leyfishafa. Nú þarf maður ekki að ímynda sjer, að þótt Íslandsbanki hafi verið reglulega þægur leyfishafi, að hver maður, sem ætti vatnsvirki hjer á landi, ljeti ríkið fá það þegar þess væri óskað, og í raun og veru eru 50 ár alt of langur tími til að fá að virkja fyrirtækið. Innlausnartíminn ætti að byrja eftir 25–30 ár og sjerleyfistíminn að vera á enda eftir 40 ár, sem er í rauninni það lengsta takmark, sem maður getur hugsað sjer fyrir slíkum leyfum.

Þá kom annað atriði í ræðu hv. þm. (KIJ), sem mig furðaði stórum. Hann taldi brtt. þá, er hv. þm. Str. (TrÞ) bar fram, að í staðinn fyrir 25 þús. komi 15 þús., skemdir á frv., og hann sagði beint í ræðu sinni, að 25 þús. hestöfl væri smáfyrirtæki. Í þessu efni vil jeg taka dæmi. Vatnsorkan í efri hluta Sogsins er áætluð 15 þús. hestöfl, og hefði Reykjavík, í stað þess að gera ófullnægjandi stöð við Elliðaárnar, virkjað efri hluta Sogsins, þá væri það enginn óvitlaus maður, sem hefði látið sjer detta í hug að virkja meira en svo sem 7 þús. hestöfl, og mundi það hafa nægt höfuðborg landsins um langan tíma, og þó orðið fleirum að gagni.

Jeg vil líka benda á það, að ef um stórt vatnsfall er að ræða, t. d. sem hefði 100 þús. eðlishestöfl, og svo kæmi jeg við annan bakkann og fengi leyfi til að virkja fyrir 25 þús., og hinumegin kæmi vinur minn, sem fengi að virkja 25000 hestöfl þeim megin. Þá er þetta orðin álitleg hestorkutala. En við gætum þó ekki fengið eftir till. hv. þm. Str. nema 30 þús. báðir saman.

Hv. 2. þm. Rang. furðaði sig á þessu vantrausti, sem kæmi fram á stjórn landsins við það, að þingið áskildi sjer úrskurðarrjett um veitingu sjerleyfa til virkjunar í stórum stíl. Það er ekkert vantraust. Jeg held því fram, að Alþingi eigi ekki að sleppa úr höndum sjer því valdi, sem það hefir, nema nauðsyn krefji, og að það eigi að hafa sem mest tögl og hagldir í þessum málum, hver svo sem stjórnin er. Það er eins og Einar Þveræingur sagði, þegar rætt var við hann, hvort Íslendingar skyldu ganga á hönd Noregskonungi: Þótt þessi konungur kunni að vera góður, kunna aðrir að vera ljelegir. En þótt hv. 2. þm. Rang. (KIJ) væri ánægður með að láta þetta í hendur þessarar stjórnar, þá getur okkur farið sem Einari, að við vildum ekki fela það á hendur annari. Jeg held, að það sje af ýmsum ástæðum rjettara að treysta betur þinginu en stjórninni til að afgreiða þetta mál, og þar að auki er það velgerningur við allar stjórnir, sem hjer eftir sitja í landinu, að láta þær ekki hafa allan veg og vanda. Skal jeg taka það sem dæmi, að stjórnin verði fyrir miklum aðsóknum af vinum sínum, sem vilja fá að virkja svo sem 25 þús. hestöfl. Þá er betra fyrir hana að geta sagt: Þið skuluð eiga um það við þingið. Þá er það og betra, ef stjórnin er veik og menn koma og hóta henni. Þá á hún miklu verra með að verjast, ef um litla upphæð er að ræða, sem óskað er eftir.

En um söng fossanna, sem hv. 2. þm. Rang. (KIJ) var að kvíða fyrir að þjóðin þyrfti að búa við framvegis sem hingað til, er það að segja, að hann hefir aldrei þótt ljótur nje leiðinlegur og að varna þeim söngsins hefir aldrei þótt nauðsyn til bera, og það afl, sem er í fossunum, hefi jeg skilið svo, að ætti að nota handa þjóðinni sjálfri, en ekki að kasta því í hendur einhverjum fjepúkum eða leppum þeirra. Látum því fossana syngja, þangað til landsmenn geta farið að nota þá sjálfir, og í því er jeg sammála hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) að viðhafa alla varúð í því efni. Og þá kem jeg að síðari till. hans um það, að sama þurfi að gilda um framsal eins og um leyfið sjálft. Það kann að vera, að það liggi í lögunum sjálfum, eins og þau eru orðuð, en þó spillir ekki til, að það sje skýrara orðað, og þess vegna tel jeg, að þessi síðari till. hv. þm. (SvÓ) sje vel hugsuð. Þar á móti hygg jeg, að vanhugsuð sje till. hans undir I., þar sem hann segir, að umráðamönnum sje eigi heimilt án leyfis ríkisstjórnarinnar að virkja fallvatn, ef það hefir meira en 500 eðlishestöfl. Jeg hygg, að hv. þm. (SvÓ) hafi ekki athugað, hvað umráðamaður er, því að það getur vel verið, að hann sje búinn að leigja notarjett sinn öðrum. Hjer er þá um tvo menn að ræða, og þótt umráðamanninum sje með þessu bannað að virkja, þá er það ekki þar með bannað þeim manni, sem hann hefir leigt vatnsrjettindin, því að það er annar maður, og þess vegna fer hv. þm. hjer fram á það, sem hann ekki vildi, að takmarka þetta bann, en hann hefir ekki varað sig á merkingunni í orðinu umráðamaður. Þess vegna held jeg, að hv. þm. (SvÓ) ætti að taka þessa till. sína aftur, af því að hún nær ekki því, sem hann ætlaðist til.