07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

23. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Jakob Möller):

Út af því, að hœstv. atvrh. (MG) var eitthvað að bera kvíðboga fyrir því, að hv. Ed. myndi ekki taka vel við frv., ef það kæmi til hennar þannig breytt, held jeg, að jeg geti sagt hæstv. ráðherra (MG) það, að háttv. Ed. muni ekki vera það nokkurt kappsmál að fá þessa undanþáguheimild inn í lögin. Hitt var alveg rjett, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði um meðferð þessa máls hjer á þingi. Það virðast vera hálfgerð vandræði með frv. sem þetta, því að þegar þau koma frá stjórninni eins og „fagmennirnir“ vilja þau vera láta, þá koma til hagsmunir ýmsra manna hjer á þingi, sem rekast á, og svo er frv. breytt, svo að þessum hagsmunum sje borgið, án tillits til „faglegra“ krafna. Jeg verð að segja, að það er illa farið, að svo gengur, því að jeg verð að halda því fram, að það er ábyrgðarhluti fyrir þingið að ganga á móti tillögum þeirra manna í þessum málum, sem hafa í flestum tilfellum margfalt vit á málunum á við flesta háttv. þm. Það vita allir, að það getur oltið á miklu, að skipstjórar sjeu færir um að stjórna þeim skipum, sem þeir eru settir fyrir. Og út af því, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði, að það væri ekki hægt að benda á dæmi um, að slys hafi orðið af því, að skipstjórinn hafi ekki verið nógu vel að sjer, vil jeg segja, að það er engu ljettara að sanna, að slys hafi ekki orðið af því, og þar að auki held jeg, að hægt sje að benda á ýms slys, t. d. ásiglingar, fyrir handvömm, og þegar slys verða á sjó, vita þeir, sem í landi eru, mjög lítið um það, hvað hefir ráðið úrslitunum í hverju tilfelli. En það er betra fyrir löggjafann að hafa vaðið fyrir neðan sig og breyta ekki á móti vilja „fagmannanna“ í þessu. Og hv. þm. N.-Ísf. benti á atriði, er hefir haft mikil áhrif í þessu máli. Hann mintist einmitt á hagsmunina, sem í veði væru, af því að lærðu skipstjórarnir væru ókunnugir línuveiðum, og þá er líka ákaflega hætt við því, að ef útgerðarmaður á að velja um menn, að hann velji þann manninn, sem vel er að sjer um veiðiaðferðina, en meti hitt minna, hvort hann er vel fær um að stjórna skipinu, ef í harðbakka slær. Jeg verð að segja það, að þó að hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) segi fulla vissu fyrir því, að þeir sjeu nýtir skipstjórar, ef þeir geti fengið meðmæli þeirra manna, sem þeir hafa áður farið með skip fyrir, þá sje það samt mjög hæpið, að þeir sjeu færir til að fá slíka undanþágu. Fyrst og fremst er það, að útgerðarmenn hafa ekki þekkingu til að dæma um það, hvort þeir sjeu nógu fróðir til þess að taka við stjórn skipsins, en hitt vita þeir, hvort þeir eru færir um að sjá um veiðarnar, eða hvort þeir eru aflasælir, og það er hætt við því, að þeir líti oft og einatt mest á það, enda ættu þeir líka, ef þeir í raun og veru eru færir um að stjórna skipum, sem þeir vegna prófleysis verða að fá undanþágu til að stýra, að vera færir um að taka þetta próf, og virðist það ekki vera svo mikil krafa, sem gerð er til þeirra, þótt þeir ættu að taka það, þar sem hinsvegar er vafalaust til allmikils að vinna.