18.02.1925
Neðri deild: 10. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Jakob Möller:

Þetta er að nokkru leyti svar til hæstv. fjrh. (JÞ), þar sem hann sagði, að það væri nokkuð eindregin skoðun formælenda landbúnaðarins, að ræktunarsjóðurinn ætti að vera aðskilinn ríkisveðbankanum. Einmitt tillögur þeirra manna, sem frv. er bygt á, sýna, að þið er beinlínis ætlast til, að þessar stofnanir renni í eitt, þegar ríkisveðbankinn kemst á fót. Hæstv. fjrh. getur því ekki stutt ummæli sín við þeirra tillögur.

Þá sagði hæstv. fjrh., að þetta mál hefði verið lagt fyrir sjerfræðing þann, sem mest var bygt á í till. til þingsins 1921. Það var lagt fyrir marga sjerfræðinga víðsvegar um lönd; hverrar þjóðar þessi maður er eða hversu ábyggilegur, skal jeg ekkert um segja, meðan jeg ekki veit, hver hann er. Þó hann hafi ruglast frá sínum till. 1921, get jeg ekki sagt, að það styrki mitt traust á honum, þó það styrki traust hæstv. fjrh.

Það skiftir líka máli, hvernig þetta mál hefir verið borið upp fyrir sjerfræðingnum. Hafi það verið borið þannig upp, að ekki væri um annað að ræða en að koma upp smástofnun, og spurt, hvort slíkt væri ófært eða ekki, er nokkurn veginn gefið, hvernig svarið verður. Öðru máli er að gegna, ef spurt var um, hvort ráðlegt væri að hafa eina stofnun eða tvær, og gengið út frá, að hægt væri að gera hvort sem vera skyldi. Geri jeg ekki ráð fyrir, að það hafi verið þannig lagt fyrir sjerfræðinginn.

Hæstv. fjrh. sagði, að ekkert væri til fyrirstöðu, að ríkisveðbankinn gæti tekið til starfa. Hvers vegna er hann þá ekki látinn taka til starfa? Því mun verða svarað sem áður, að engir sjeu peningar; en það getur átt eins við um þessa stofnun.

Þá neitaði hæstv. fjrh. því, að samkepni myndi leiða af tveim stofnunum. Um það þýðir ekkert að deila, að þar sem kostur er á vaxtabrjefum, sem gefa hærri vexti en önnur, kaupa menn þau frekar, og sú stofnun hlýtur því að verða ofan á. Þegar brjef eru gefin út til að afla peninga til arðvænlegri fyrirtækja en önnur, þola þau hærri vexti.

Hæstv. fjrh. vildi draga í efa, að landbúnaðurinn fengi að njóta síns rjettar fyllilega móti öðrum atvinnuvegum, ef stofnunin væri ein, og tók um það dæmi um 300 kr. og 3000 kr. lán. Jeg vil leyfa mjer að vitna til reynslunnar í því efni; veit jeg, að hjer á þingi eru menn, sem geta borið um það, að hann hefir notið fullkomins jafnrjettis hjá veðdeild Landsbankans. Og þegar um var að ræða lánbeiðnir út á húsaveð og jarðarveð, er óhætt að segja, að jarðarveðin hafi gengið fyrir. Að 300 kr. láninu mundi síður sint, er hellber fjarstæða. Þar að auki má hafa eftirlit með þessari stofnun, svo að landbúnaðurinn verði ekki látinn sitja á hakanum. Hann getur haft sína fulltrúa til að gæta þess. Man jeg ekki betur en að tryggingarákvæði sjeu í ríkisveðbankalögunum um það, að landbúnaðurinn gangi fyrir um lánveitingar.

Jeg get þakkað háttv. þm. Str. (TrÞ) fyrir orð hans um það, að hann vildi ekki koma ríkisveðbankanum fyrir kattarnef, en mjög er hætt við, að til þess leiði með frv.