18.02.1925
Neðri deild: 10. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Hæstv. fjrh (JÞ) fór að tala um vináttusamband í sambandi við þetta mál. Jeg vil því skýrt láta það í ljós, að jeg hygg ekki á neitt vináttusamband við hæstv. fjrh. um þetta mál. Í fyrra barðist hann á móti búnaðarlánadeildarfrv. með hnúum og hnefum. Og þegar átti að stofna búnaðarlánadeildina samkv. ákvæðum þingsins, ljet hæstv. fjrh. ekki stofna hana. Og nú, þegar nefnd skipuð af Búnaðarfjelagi Íslands semur frv. um þessi mál, sker hæstv. fjrh. þau atriði úr, sem samkunda fulltrúa bændanna leggur megináherslu á í einu hljóði. Jeg verð að segja, að á þessum grundvelli hygg jeg ekki á vináttusamband við hæstv. fjrh. Hinsvegar er mjer ljúft að minna á það, að á síðasta þingi studdi hv. 3. þm. Reykv. (JakM) mjög drengilega frv. um búnaðarlánadeildina. Að fulltrúar bænda hafi staðið bak við það atriði, að þessi sjóður mætti sameinast ríkisveðbankanum, það er hægt að sýna hæstv. fjrh. svart á hvítu. í einu hljóði hafa fulltrúar bænda á búnaðarþinginu samþykt frv. eins og nefnd Búnaðarfjelagsins gekk frá því, og í því frv. er þetta ákvæði. Jeg efast ekki um, að hæstv. fjrh. segir rjett frá, að hann hafi talað við tvo menn úr nefndinni, — en svona var stefnan eindregin í búnaðarþinginu, og það er skjallega sannanlegt.