10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Baldvinsson:

Jeg þarf ekki að tala langt mál út af brtt., sem jeg flyt á þskj. 297,III, ásamt tveim öðrum hv. þm., um samningu á efnisyfirliti yfir Stjórnartíðindin. Það hefir verið tekið svo vel undir það að framkvæma þetta verk, sem við höfum lagt til að veitt yrði fje til, og jeg vil taka till. aftur, þar eð hæstv. forsrh. hefir lýst því yfir, að hægt yrði að byrja á þessu ári á verkinu og taka til þess nokkuð af því fje, sem ætlað er til útgáfu á Stjórnartíðindunum. Og þess vegna, þar sem hæstv. forsrh. hefir sagt, að þetta verði gert, sje jeg ekki ástæðu til þess að halda við þessa brtt. og tek hana því aftur.

Jeg hefi beint ýmsum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra (JM. MG og JÞ), og er það rjett, að jeg krafðist þess ekki, að þeir svöruðu þegar í stað, en þó undir þessari umræðu. Annars er hægt að fara aðra leið til þess að fá svar við þessum spurningum. (Atvrh. MG: Jeg er búinn að svara hv. þm. undir fjögur augu). Já, jeg kem að því síðar. (TrÞ: Undir fjögur augu?! — Fjrh. JÞ: Jeg svara seinna). Hæstv. fjrh. segist svara seinna, en hæstv. atvrh. segist hafa gert það undir fjögur augu, og þótt hann hafi sagt ástæður sínar, þá álít jeg, að þær eigi að koma í þingtíðindunum. Auðvitað getur hæstv. stjórn neitað að svara, af því að það heyri ekki þessum umr. til; en vita má hún þó, að þm. geta altaf borið fram sjerstakar fyrirspurnir um þau mál, er þeir vilja fá upplýst, og býst jeg ekki við að þeir komist hjá að svara, ef sú leið verður farin. En ef þeir ætla að afsaka sig með því, að þetta sje 3. umr. fjárlagafrv. og þar eigi ekki þessar umr. heima, þá vil jeg aðeins geta þess, að núverandi hæstv. fjrh. (JÞ) hefir áður hjer á þingi sjálfur hafið nokkuð almennar umræður, svo sem vant er að gera á eldhúsdeginum. Jeg vil fá skýr svör og get ekki tekið gild nein persónuleg svör, og jeg álít, að fyrirspurnir mínar eigi að koma til umr. nú við fjárlagaumr. En ef hæstv. atvrh. telur þær óskyldar umr. um fjárlagafrv., sem jeg játa að þær eru hvað efni þeirra snertir, þá getur gefist tilefni til þeirra síðar, og get jeg þá borið þær fram, og sömuleiðis gæti komið til mála að bera þær fram sjerstaklega í fyrirspurnarformi.

Jeg býst við, að hæstv. fjrh. gefi úrlausn við seinni kafla fjárlagafrv., og er mjer engri þökk í því að fá úrlausn við þennan kafla, því að jeg á ekki eftir að fá að tala aftur við þennan kafla, og úr því að þeim er þökk í því að verða ekki að svara fyrri en við seinni hluta 3. umr., þá skal jeg ekkert hafa á móti því. Get jeg þá staðið upp og gert þær aths., sem mjer þykir þurfa.

Jeg þyrfti nú raunar ekki að segja meira, úr því að jeg ljet niður falla að sinni umr. um fyrirspurnir mínar, en það hafa tveir hv. þm. gefið mjer tilefni til að gera aths. við ræður þeirra, og eru það hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og hv. þm. Ak. (BL). Jeg ætla fyrst að minnast á hv. þm. Ak. Hann mintist á það í gær með almennum orðum, að hann harmaði það, að lækkun á tollum hefði ekki orðið meiri en raun er á orðin. Hann sagði, að sú von, sem menn hefðu gert sjer um tolllækkun á þessu þingi, væri alveg að hverfa. Jeg verð nú að segja það, að mjer finst þetta koma alveg úr hörðustu átt, þar sem þessi ummæli koma frá þessum háttv. þm. Hann á nú einmitt sæti í hv. fjhn., sem tollmálin alveg sjerstaklega heyra undir, og hafði því ágæta aðstöðu til þess að beita sjer fyrir því að fá tollana afnumda. Jeg ætla, að honum hafi verið alvara, að gengisviðaukinn hyrfi, en þegar frv. um afnám gengisviðaukans var borið fram, þá greiddi þessi sami hv. þm. atkv. á móti því. Hann vildi ekki einu sinni ganga svo langt í því að afnema tolla. Þess vegna er það, að vonin um að tollarnir verði afnumdir er horfin með öllu, honum sjálfum að kenna. Jeg segi þetta að gefnu tilefni, því þessi hv. þm. hefir áður sagt á opinberum fundi, að hann væri því fylgjandi, að tollar yrðu afnumdir.

Út af því, sem þessi hv. þm. sagði, að það væri að vísu nokkur upphæð, sem ljett væri af almenningi með breytingunni á gengisviðaukanum, vil jeg segja nokkur orð.

Sú ljetting á gengisviðauka, sem ráðgerð er, kemur ekki fram sem veruleg lækkun á hinum feiknamiklu sköttum á almenningi. Meðan gengisviðauka og verðtolli á nauðsynjavörum er viðhaldið, er ekki um slíkt að ræða. En því, að bæta úr þessu með afnámi hinna þyngstu tolla, hafa fjárhagsnefndarmenn með hv. þm. Ak. verið á móti. Hv. þm. hældi nú mjög núverandi hæstv. stjórn og kallaði hana góða og ágæta, eins og hann komst að orði. En þó kom svo síðar, að hann áleit, að þessi sama hæstv. stjórn hefði búið til óvarleg fjárlög. Það virðist vera næsta lítið samræmi í þessu, því að í því að segja, að stjórnin hafi samið óvarleg fjárlög, felst mjög þung ásökun, einkum þegar þess er gætt, að þetta er sagt af stuðningsmanni hæstv. stjórnar. Jeg vildi aðeins benda á þetta, af því að það sýnir meðal annars vel, hve fylgi hæstv. stjórnar fer þverrandi hjá fylgismönnum hennar.

Jeg ætla þá næst að víkja nokkrum orðum að hv. þm. N.-Ísf. Hann kom eins og skollinn úr sauðarleggnum og fór að hamast á verkakaupi og gekk svo langt, að hann hafði í hótunum um verkbann, ef vinnulaun verkamanna yrðu ekki lækkuð. Jeg vildi nú benda á það, hvað sem þessum stóryrðum hv. þm. líður, að enginn getur sagt það með sanni, að vinnulaun hafi ekki lækkað, því að þau hafa lækkað mikið. (JAJ: Já, þar sent forsprakkarnir í Reykjavík ná ekki til). Það er nú aðeins eitt fjelag, sem samningar hafa ekki tekist við. Jeg vil líka benda á það, að það er engin sanngirni að ætlast til þess, að vinnulaun lækki niður í það, sem þau voru 1914. Aðstaðan er nú að mörgu leyti svo ólík, að það er algerlega rangt að ætlast til, að alt fari í sama horfið og þá var. Sumir stærstu opinberir útgjaldaliðir landsmanna hafa ekkert lækkað, og það er ekki talin ástæða til þess að þeir geri það. T. d. vil jeg benda hv. þm. á það, að kostnaður við samgöngur á sjó mun nú nema um 350 þús. kr. Í 13. gr. fjárl. eru veittar 295 þús. til þessa, og þar við má bata fjárveitingu, sem er alveg víst, að verður greidd, sem sje 60 þús. kr. til Eimskipafjelags Íslands, en 1914 var þessi upphæð ekki nema liðugar 100 þús. kr. (Atvrh. MG: Það eru bara miklu meiri samgöngur nú en þá; það er ástæðan). Það er nú mjög vafasamt, hvort samgöngurnar eru nokkuð meiri nú en þær voru fyrir ófriðinn, en kostnaðurinn við þær heimtar hærri tölur eins og við alt annað.

Jeg álít sem sje, að engin ástæða sje til að ætlast til þess, að vinnulaun lækki niður í það, sem þau voru 1914, og mjer er kunnugt um, að margir atvinnurekendur hafa gengið inn á það, að sanngjarnt væri, að launin 1914 væru hækkuð um 50% og síðan bygt á því sem grundvelli. Það mun t. d. hafa verið lagt til grundvallar í samningum prentara við prentsmiðjueigendur.

Jeg álít svo ekki, að þörf sje á að segja meira um þetta að sinni. Jeg á ekki rjett á að taka aftur til máls við þennan hluta þessa kafla fjárlaganna, en ef einhver hv. þm. kemur fram með andmæli, mun jeg svara þeim við umr. um síðari hlutann.