10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg hefði þurft að bera hönd fyrir höfuð samgmn., en jeg nenni ekki að elta ólar við hv. frsm. fjvn. (ÞórJ). Hann hefir ekki fengist til þess að svara fyr en á 11. stundu. Það er næsta hart, að hv. fjvn. skuli ekki fást til þess að gefa svör við erindum annara nefnda. Við 2. umr. bað hún (fjvn.) samgmn. að taka till. sínar aftur, til þess að henni gæfist kostur á að athuga þær nánar. Svo þegar 3. umr. kemur, minnist frsm. fjvn. ekkert á þær. Það er fyrst þegar búið er að vekja samvisku fjvn. með snörpum umræðum, að tekst að toga út úr henni svarið á 11. stundu, og svarið er þá óákveðið eða stundum hnútur. Það er mála sannast, að hafi samgmn. verið mönnum til skemtunar, þá hefir hv. fjvn. verið mönnum til lítillar ánægju eða uppbyggingar hjer í deildinni að þessu sinni.

Háttv. frsm. sagði, að samgmn. „vildi skifta eins og krakki“. Mjer hefir nú skilist svo á hv. frsm., að það væri fremur vegna þess, að hún deildi innbyrðis, að þdm. hefðu af henni nokkra skemtun. Jeg ber það ekki af nefndinni, að menn halda þar fast á skoðun sinni og deila um málin, en aðaleinkenni fjvn. er vatnsgrautarpólitík nirfilsháttar og samábyrgðar. Jeg kann ekki við, að talið sje sem rekstrarstyrkur fje, sem varið er til að endurbæta báta. Jeg kann ekki við slíka grautargerð. Það er alveg eins og talinn hefði verið l924 með strandferðakostnaði byggingarkostnaður „Esju“. Og ef svo skipið hefði verið selt árið eftir, þá hefði fje það, er inn kom við söluna, verið kallað ágóði af strandferðum. Þetta myndi nú einhver að álíta kynlega „posteringu“. Það er misskilningur hjá hv. frsm. fjvn., að jeg hafi sagt, að önnur kjördæmi en kjördæmi fjárveitinganefndarmanna hafi ekki fengið nema 13 þús. krónur til verklegra framkvæmda. Jeg sagði, að fjvn. Nd. hefði lagt til, að öðrum hjeruðum yrðu veittar rúmar 13 þús. kr. í þessu skyni. Þá segir hann, að ekki sje hægt að leggja síma þann, sem jeg fer fram á að lagður verði, vegna hálendis. Þetta sýnir aðeins, hve djúpt hv. fjvn. legst í athugunum sínum á till., er snerta önnur kjördæmi. Jeg get nú fullvissað hv. frsm. um það, að það eru hvergi fjöll á þessari leið. Á einum stað er háls eitthvað um 30–60 metra yfir sjávarborð, og þar er nú sími, en þar vil jeg fá aukaþráð. Annars mun þessi nýja lína um Snæfjallaströnd hvergi liggja meir en 10 metra yfir sjávarborð. Þetta eru nú allir örðugleikarnir. Þá sagði hann, að reisa mætti einar 7 loftskeytastöðvar fyrir þessa upphæð. Það kann vel að vera. En verður það ríkissjóði nokkuð ódýrara í framtíðinni? Jeg held, að það verði ekki nema í bili. Það er fullyrt, að rekstrarkostnaður einnar lítillar loftskeytastöðvar sje um á þús. kr. á ári, en rekstur svona landssímastöðvar er ekki nema 2–3 hundruð krónur. En ef háttv. fjvn. ætlar sjer að fara inn á þá braut að byggja loftskeytastöðvar, þá ætti hún að gera það sem fyrst, en vera þá ekki að hrúga inn í símalögin 10–12 nýjum símalínum. Það er líka lítið samræmi í því að hrúga nýjum símalínum inn í fjárlögin, en vera svo í öðru orðinu að gera ráð fyrir loftskeytastöðvum. Hv. frsm. fjvn. gat um það, að veittar hefðu verið 70 þús. kr. til Ísafjarðarkaupstaðar. Það er rjett. En mælti hv. fjvn. með því? Jeg minnist þess ekki. Annars má hv. frsm. vera vel kunnugt um það, að tekjuhalli fjárlaganna hækkar ekki við þessa fjárveitingu og að fyrv. stjórn var búin að binda fjárveitingarvaldið til þess að leggja fram fjeð, og hjer er aðeins að ræða um eftirgjöf á láni.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) undraðist það, að jeg áleit vera kominn tíma til þess að lækka verkakaupið. Hann hjelt því fram, af því að styrkur til flóabáta og strandferða væri hærri nú en áður, þá ætti verkakaup að hækka líka. Hvílík rök! Af því tvítugfalt meira er varið til samgangna nú en fyrir 40 árum, þá á verkakaupið að vera nú 20 sinnum hærra en þá. Eigum við ekki að halda okkur við verðlagið innanlands í kaupgjaldsákvörðunum? Ef miða á við kaup annara stjetta, er þá ekki rjettast að bera kaupgjaldið saman við laun starfsmanna ríkisins? Þau hafa hvergi verið ferfölduð. Við getum tekið til dæmis formann efnarannsóknarstofu ríkisins. Hann hafði 1914 3600 kr. í árslaun. Nú hefir hann 5600 kr. Hvað á þá verkakaupið að vera nú, ef það hefir verið 30 aurar um klst. 1914? Kaup starfsmanna ríkisins er of lágt, samanborið við innlent verðlag, svo jeg get fallist á að verkafólk fái hærra hlutfall en þeir.