10.03.1926
Neðri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

56. mál, vélgæsla á gufuskipum

Frsm. (Sigurjón Jónsson):

Viðvíkjandi þessari litlu brtt. frá sjútvn. skal jeg taka það fram, að við nánari íhugun á lögunum frá 1915 sá nefndin, að fyrir gæti komið, að nauðsynlegt væri að fá rýmkaða heimild stjórnarinnar til undanþágu. Jeg gat þess við 1. umr., að lögin frá 1915 væru miðuð við það, að togararnir hefðu vjelar undir 700 hestöflum. En nú hefir þetta breyst á síðari árum þannig, að nokkrir togarar eru komnir með vjelar yfir 700 hestöfl, og síðast ekki alls fyrir löngu slíkir togarar bæst í hópinn. Á þessa togara með 800 hestafla vjelar fara svo einhverjir af betri vjelmeisturunum, sem hafa verið á togurunum með hinar minni vjelar, en þá vantar skilyrðin til þess að geta tekið við þeirri stöðu. Þá vantar að hafa verið undirmeistarar á skipum með yfir 700 hestafla vjelar. En til þess hafa þeir aldrei haft nein tækifæri. En 11. gr. laganna frá 1915 setur það sem skilyrði, að þeir hafi verið undirmeistarar á slíkum skipum. Því hefir sjútvn. skotið inn þeirri sjálfsögðu breytingu, að heimild sú, er stjórninni er fengin, nái einnig til þeirrar greinar. Jeg skal taka það fram, að sjútvn. gengur að því sem sjálfsögðu, að stjórnin gæti allrar varkárni í slíkum undanþágum og ráðfæri sig við hina vjelfræðilegu ráðunauta um þessi efni.