25.03.1926
Neðri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

36. mál, forkaupsréttur á jörðum

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Jeg þarf ekki að vera langorður um frv. þetta, en vil byrja með að biðja hv. flm. afsökunar á því, hve málið hefir verið lengi hjá landbn. Jeg get þó fullvissað þá mætu menn um það, að nefndin hefir ekki viljað með drætti þeim, sem orðið hefir á afgreiðslu málsins, tefja fyrir því að neinu leyti; síður en svo. En nefndin fann merg þess meiri eftir því, sem lengra leið frá fyrsta yfirlestri.

Og þó að nefndin viðurkendi strax rjettmæti frv., virtist henni þó full þörf á að tryggja betur þau ákvæði, sem miða til þess, að jarðir haldist sem lengst í sömu ætt. Eða með öðrum orðum tryggja að nokkru þann óðalsrjett, sem að vísu er til í löggjöf landsins frá gamalli tíð, en virðist svo horfinn úr vitund þjóðarinnar, að hans gætir alls ekki í löggjöfinni.

Það á ekki stað langt aftur í tíma, að leiguliðum væri gerður kostur á forkaupsrjetti þessum. Það mun vera að finna í lögum frá 1905, sem svo voru endurskoðuð og aukin 1919, og það eru þau lög sem þetta frv. fer fram á að breyta.

Augu manna hafa nú alment opnast fyrir því á síðari árum, að það sje tryggara fyrir afkomu landbúnaðarins og landsins yfir höfuð, að sem flestar jarðir sjeu í sjálfsábúð og sem flestir, sem að ræktun landsins vinna, sjeu sjálfseignarbændur. Það hafa margir litið svo á og viðurkent, að þegar bóndi sæti á sjálfs sín eign ætti hann 10 hvatir í staðinn fyrir eina til þess að hlynna að jörðinni og bæta á einn eða annan hátt, vitandi það, að þar væri hann að búa í hendurnar á niðjum sínum. Það segir sig sjálft — og það þarf ekki að vera af trassaskap gert, þó dragist úr hömlu fyrir leiguliðanum að rækta jörðina — að menn eru svo gerðir, að þeim þykir vænna um það, sem þeir vinna fyrir sig og niðja sína, heldur en landsdrottin sinn, hversu góður og rjettsýnn, sem hann annars kann að vera. Enda ætti að vera svo með jarðir farið og sú ræktarsemi sýnd þeim, að skoðast megi þær sem helgir ættargripir, er allir hlúi að og verndi, í staðinn fyrir það að láta sjer á sama standa, hvernig um þær fer, og leyfa bröskurum og öðrum óaldarlýð að leika með þær eftir sínum geðþótta.

Að vísu skal jeg viðurkenna, að þeir menn eru til og þær skoðanir hafa víða stungið upp höfðinu, sem halda því fram, að forkaupsrjettarlögin hefðu illu heilli verið sett og hefðu aldrei átt að komu. En sú skoðun grundvallast á því, að þá hefðu þjóðjarðirnar aldrei átt að seljast, en halda áfram að vera í eign landsins. Það má vel vera, að því skoðun eigi einhvern rjett á sjer, að landið sjálft eigi allar jarðirnar og gerist landadrottinn bænda. En þá um leið yrði að fást trygging fyrir því að landið mundi bændum jafngóður landsdrottinn og þeir eru sjálfum sjer, eða m. ö. o. að búa svo um hnútana, að ræktun landsins tapaði engu við það, að jarðirnar hyrfu úr sjálfsábúð. Jafnframt þyrfti að tryggja það, að svo veri um búið, að niðjar eða afkomendur hvers leiguliða ættu forgangsrjett til ábúðar hverrar jarðar mann fram af manni. Hefði frá öndverðu verið vel um búið hvað þetta snertir, þá hefði að mínu áliti verið mun minni nauðsyn til að selja ábúendum hinar svokölluðu þjóðjarðir.

En þetta efni liggur ekki fyrir, og fer jeg því ekki lengra út í það. Hitt get jeg sagt fyrir mitt leyti, að jeg er þeirrar skoðunar, að jörðunum sje betra að vera einstakra manna eign, og þó um það sjeu deildar meiningar, fer því fjarri, að jeg ætli að taka mjer dómsvald í hendur gagnvart þeim mönnum, sem hugsa öðruvísi í þessu efni en jeg. Jeg geng þess alls ekki dulinn, að hinn svokallaði forkaupsrjettur hefir verið misnotaður af sumum. En svo er um alla löggjöf, að með henni má ýmislegt ilt vinna, vilji menn misnota hana. Hitt hygg jeg fremur, að forkaupsrjettarlögin hafi í fleiri tilfellum orðið landi og lýð til blessunar, sem betur fer, enda var til þess ætlast í öndverðu.

Eins og jeg drap á í upphafi, er þessu frv. ætlað að tryggja það, að jarðir komist ekki í aðrar hendur en þær, sem rjett þykir, miðað við óðalsrjettinn, sem jeg mintist á. Nefndin hefir lagt mikla rækt við málið og kynt sjer það eftir föngum og aflað sjer ýmsra upplýsinga því viðkomandi, er hún taldi, að að gagni mættu verða. Hefir hún komist að raun um, að óðalsrjettinn beri að tryggja betur en frv. fer fram á, og leggur því til, að það verði samþykt með þeim, viðauka, sem um getur í nál. á þskj. 166.

Ef litið er á brtt. á þskj. 209, þá fer hún fram á að fella nokkurn hluta aftan af viðaukatillögu nefndarinnar, en um hana ætla jeg ekki að tala að svo stöddu, bíða heldur þangað til hv. flm. (ÞórJ og SvÓ) hafa mælt fyrir henni. Jeg get heldur ekki sagt neitt um afstöðu hv. samnefndarmanna minna til hennar, en þeir sýna hana væntanlega við atkvgr.

Hinsvegar vil jeg taka fram, að viðaukatill. nefndarinnar er ekki fram borin til þess að spilla fyrir málinu, nema síður sje. Hún er fremur fram komin af velvilja til málsins, og óhætt þess vegna að samþykkja hana.

Að fara frekar inn á óðalsrjettinn sje jeg ekki ástæðu til að sinni. Hinsvegar væri kannske ekki úr vegi, að öll þessi löggjöf væri athuguð og reynt að koma henni í þann búning, sem betur hæfði þeim tíma, sem við lifum á, því eflaust má segja, að sumt, sem talið er að vera í gildi í þessu efni, sje orðið harla úrelt og eigi heima langt að baki.

Fleira ætla jeg ekki að segja. Nefndinni þykir vænt um, að frv. þetta er fram komið og leggur eindregið til, að það nái fram að ganga. Og þó viðaukatill. á þskj. 166 falli, er nefndin á einu máli um það að fylgja frv. út úr þessari hv. deild.