07.04.1926
Efri deild: 44. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

36. mál, forkaupsréttur á jörðum

Frsm. (Gunnar Ólafsson):

Frv. þetta á þskj. 218 fer í þá átt að breyta lögum nr. 40 frá 1919, um forkaupsrjett á jörðum. Í þeim lögum er þannig ákveðið, að þegar jarðeign er bygð eða seld, þá hefir ábúandi undantekningarlaust forkaupsrjett að henni. Skyldmenni koma þar ekki til greina. Þetta þykir ekki vera rjettlátt, og þess vegna er þetta frv. fram komið, með það fyrir augum að gefa þeim, sem nánastir standa, kost á að eignast jörðina, ef þeir vilja: börnum, kjörbörnum, systkinum, foreldrum o. s. frv.

Nefndin lítur svo á, að það sje í alla staði rjettlátt, að það fólk, sem frv. ræðir um, hafi forkaupsrjettinn svo að óðalið geti haldist í ættinni.

Hv. Nd. hefir fallist á þetta frv. og var nefndin einhuga um það álit hennar, að frv. væri til bóta. Tilgangurinn er sá, eins og jeg tók fram, að tryggja ættingjum forkaupsrjettinn. Og verði frv. samþykt, þá er þeim tilgangi náð.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að tala neitt frekar um þetta mál. Það sýnist svo ofur skýrt og liggja beint fyrir, og jeg geri ráð fyrir, að hv. deild sje því yfirleitt meðmælt.