10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

1. mál, fjárlög 1927

Pjetur Þórðarson:

Jeg á brtt. á þskj. 297, þá LX. í röðinni. Jeg flutti hana við 2. umr., en tók hana þá aftur, eins og hv. þdm. mun reka minni til. Jeg gerði þá grein fyrir henni allítarlega, en ef miðað er við gildi málefnisins, þá kannast jeg við, að hún hafi verið gerð af veikum mætti, því að jeg er ekki nógu fróður um þau atriði, er hún fjallar um.

Jeg vil minnast á það, að Jón Helgason, sem hefir fengist við ýmsar uppgötvanir í raforkunotkun og varið til þess fje og mikilli fyrirhöfn, er fjelítill maður til þess að framkvæma hugmyndir sínar. Eins og jeg gat um fyr, hefir hann sett upp rafvjel, er hann hyggur, og mjög líklegt er, að geti orðið að verulegum og almennum notum, ef honum tækist að fá nógu traustan þrýstiloftsgeymi. Hann er sjálfur öruggur um, að það megi gera þann geymi úr járnbentri steinsteypu. Annars veit jeg ekki gleggri deili á þessu.

Þegar jeg beindi orðum mínum í þessu efni til hæstv. fjrh. (JÞ) um daginn, hjelt jeg, að hann væri líklegastur allra hjer í hv. deild til að geta gefið upplýsingar um mannvirki úr steinsteypu og bjóst við, að jeg fengi þær upplýsingar, sem byggja mætti á. Í stað þess fjekk jeg ekki annað frá honum að heyra en að þetta hylki yrði svo dýrt, að frágangssök væri að búa það til, og að slíkt hylki væri óhugsandi að gera úr öðru efni en þumlungsþykkum stálplötum. Það liggur í augum uppi, að hjer á landi er vitanlega ekki hægt að búa til nein slík vindhylki úr stáli. Ef maðurinn getur ekki notað steinsteypu, held jeg, að það sje frágangssök að eiga nokkuð við þetta. En maðurinn hefir sjálfur svo góða trú á þessu, að hann leggur líklega alla sína krafta og sinn síðasta eyri í tilraunina, án hjálpar af opinberu fje, verði þess ekki fyr eða síðar kostur. Jeg finn mig þó knúðan til að reyna að rjetta þessum uppfinningamanni hjálparhönd, þó að ekki hafi blásið byrlega fyrir þessari till. við 2. umr. Jeg vil jafnvel heldur, að hið háa Alþingi felli till. en að það segi ekkert, því að þá veit jeg, að jeg hefi gert skyldu mína. Jeg geri ráð fyrir, að hugsjónir mannsins komist einhverntíma fram, þótt þetta þing beri ekki gæfu til að hjálpa honum til að sjá verklegan árangur af þeim og hans virðingarverðu starfsemi. Í trausti þess, að jeg sjái nú nægilega margar hendur rjettar upp til að styðja hinn íslenska anda og orku, sleppi jeg frekari orðalengingum að sinni.