19.04.1926
Efri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg gat þess við 2. umr., að borgarstjóri hefði átt tal við nefndina um frv. og hann látið í ljós, að varhugavert væri frá hans sjónarmiði að afnema lögin frá 1921, þótt hann hinsvegar væri ekki mótfallinn því að afnema hin lögin.

Innihald þessara laga frá 1921 kemur best fram og aðallega í 1. gr. þeirra, sem jeg ætla nú, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp. Þessi 1. gr. hljóðar svo:

„Bæjarstjórn Reykjavíkur skal heimilt að setja reglugerð um leigu á húsnæði til íbúðar, hámark húsaleigu og annað til tryggingar því, að bæjarbúar geti notið þess húsnæðis, sem til er eða verður í bænum.“

Þetta, sem hjer stendur og telja má, að ætti að vera innihald hinnar væntanlegu reglugerðar, er jafnstrangt eins og húsaleigulögin sjálf, svo að ef það er álit manna, að lögin sjeu ströng eða hættuleg fyrir velferð bæjarmanna, leiðir af sjálfu sjer, að reglugerðin, er hefir sömu ákvæðin að geyma, hlýtur þá líka að álítast hættuleg.

Frá þessu sjónarmiði sjeð var nefndin þeirrar skoðunar, eins og hv. Nd., að jafnnauðsynlegt væri að nema þessi lög (frá 1921) úr gildi eins og hin lögin um húsaleigu í Reykjavík, og ekki síður fyrir það, að ákvæðin í lögunum frá 1927 um það, hvað í reglugerðinni kæmi til að standa, eru nokkuð óljós, svo að almenningur veit varla, hvað vofað getur yfir í þessu efni, ef þau lög fengju að standa.

Þetta alt hefir nefndin tekið til nánari athugunar og komist að þeirri niðurstöðu, að rjett sje, að sama gangi yfir öll þessi húsaleigulög, þar eð sama efni sje í þeim öllum. Ef sjálf húsaleigulögin megi álítast til óþurftar velferð manna yfirleitt, þá hljóti hið sama að gilda um 1. gr. laganna frá 192l. Hinsvegar hefir engin framkvæmd orðið á þessari 1. gr. Bæjarstjórn mun aldrei hafa samið þá reglugerð, er stjórnin hefir viljað samþykkja. En hún getur komið enn, þessi reglugerð, ef lögin standa áfram, og þá eru sömu vandræðin eða óánægjan fyrir dyrum.

Skoðun nefndarinnar hefir heldur ekki svo lítinn stuðning í því, að málið horfir svo við, eftir frásögn borgarstjóra, að meiri hluti bæjarstjórnar er með því að afnema þessi lög frá 1921 eins og hin, þrátt fyrir þá skoðun hans, er jeg mintist á í upphafi ræðu minnar.

Í frv. er líka svo ákveðið, að enginn megi segja upp húsnæði leigjenda sinna fyr en 14. maí 1927. Af því leiðir, að þá verður búið að halda þing aftur. Ef bæjarstjórn skyldi við nánari athugun á næsta hausti sjá sig um hönd og komast að þeirri niðurstöðu, að sjerstök vandræði væru fyrir höndum, þá gæti hún snúið sjer til næsta þings með nýtt frv., sem trygði þetta betur. Þegar um svo mikinn tíma er að ræða, sem upp á má hlaupa, sje jeg enga hættu við það að afnema lögin. Og þó aldrei nema liði fram yfir 14. maí 1927 án þess að óvænt vandræði bæru að höndum, þá væri innan handar fyrir bæjarstjórn hvenær sem er að snúa sjer til stjórnarinnar og fá hana til þess að gefa út bráðabirgðalög til að firra yfirvofandi bersýnilegum vandræðum í þessu efni. Þykir mjer sennilegt, að stjórnin mundi jafnfús á að gefa út bráðabirgðalög í þessu efni eins og að staðfesta reglugerð, sem bygðist á ákvæðum 1. gr. laganna frá 1921.

Jeg þykist því ekki þurfa að hafa fleiri orð um þetta, en vænti, að hv. deild skilji, hvað liggur til grundvallar því, að nefndin hefir komist að þessari niðurstöðu. Hinsvegar álít jeg, að ef breyta á frv. frá því, sem það er nú, þá sje ekki að vita, hvernig hv. Nd. taki því. Það kom einmitt fram í þeirri háttv. deild að láta lögin frá 1921 standa, en var felt með 13:13 atkv. Ómögulegt að ráða í það, hvernig háttv. Nd. tæki í þetta, ef frv. væri hjer breytt í þá átt að láta lögin frá 1921 haldast. Ef hún feldi svo aftur úr þá viðbót, sem við hefðum sett hjer inn í frv., þá er enn óviðkunnanlegra orðið fyrir þessa hv. deild að ganga að frv. í sömu mynd og það hefir nú heldur en að gera það nú þegar. Þess vegna virðist mjer langrjettast að samþykkja nú frv. eins og það liggur fyrir.