10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

48. mál, líkhús

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Nefndin hefir gefið út allítarlegt nál. á þskj. 275 um þetta mál, og get jeg þess vegna verið stuttorðari um það og látið mjer nægja að vísa til nál. um flest atriði þessu máli viðvíkjandi. Málið er fremur einfalt, en þó hefir nefndin gert sjer mikið far um að athuga það vel og gaumgæfilega, m. a. hefir nefndin snúið sjer til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og fengið það svar þaðan, að ráðuneytið hafi ekkert við frv. að athuga. Hinsvegar er það tekið fram í nál. á þskj. 275, að frv. er ekki nógu ljóst orðað um niðurjöfnun kostnaðar o. fl., og miðar brtt. nefndarinnar á sama þskj. að því að taka af allan vafa um, hvernig beri að skilja ákvæði frv. Þá verður það ótvírætt, að gjöldunum skal jafnað niður á safnaðarmenn. samkvæmt því, sem segir í lögum frá 1901 um kirkjugarða og viðhald þeirra, þannig, að helmingnum skal jafnað niður eftir efnum og ástæðum, en hinn helmingurinn verður lagður á sem nefskattur á hvern gjaldþegn safnaðarins. Nú er því svo varið, að sum ákvæði þessara laga frá 1901 eru í ósamræmi við lögin frá 1909 um sóknargjöld. Stjórnarráðið hefir ekkert haft á móti því, að þessi ákvæði, sem jeg nefndi áðan, væru tekin úr lögunum frá 1901 upp í þetta frv., enda þótt það hefði verið felt burt úr sóknargjaldalögunum frá 1909. Með þessu ákvæði eru í raun og veru endurlífguð þessi atriði um niðurjöfnun kostnaðar úr lögunum frá 1941, og þótt aðeins sje til þeirra vitnað, en þau ekki tekin upp, þá er litið svo á af forsætisráðherra (JM), er um þetta hefir verið spurður, að þetta sje fulltryggilegt.

Jeg tel frv. vera þarft löggjafaratriði að því leyti, sem það getur stuðlað að því, að jarðarfarakostnaður gæti minkað að verulegum mun. Það er raunalegt að vita til þess, hversu þessi kostnaður er oft tilfinnanlegur fátæku fólki, sem þó leitar allra bragða til að fá staðist hann. En þetta er mjög viðkvæmt mál og erfitt viðfangs; allir vilja leggja hið ítrasta á sig til þess að jarðarför þeirra nánustu geti orðið sem myndarlegust. En ef komin væri kapella í kirkjugarðinum ásamt líkgeymsluklefa, gæti þetta mikið breyst til batnaðar, og ekki síst er þar væri líka lítið samkomuherbergi, sem kveðjuathafnir gætu farið fram í. Hjer í bæ eru mikil vandræði að því, að lík eru oft geymd langan tíma í heimahúsum, og það alloft í mjög ljelegum húsakynnum og þröngum; en það er óforsvaranlegt, að lík þurfi að geyma í íbúðarherbergjum, t. d. þar sem börn eru. Ef þessu fengist breytt við að líkhús yrði reist, væri það mikil framför. Það hefir að vísu verið litið svo á, að heimilt væri að reisa líkhús án sjerstakrar löggjafar þar um, en á safnaðarfundum í Reykjavík hafa komið fram mótmæli gegn þessari skoðun. — að það væri engin heimild til í lögum til að leggja á og jafna niður gjöldum á safnaðarmeðlimi í þessu augnamiði. Þess vegna er frv., ef það verður að lögum, eigi aðeins ætlað að gilda í Reykjavík, heldur um alt land, því víðar getur verið og er víst, að þörf er á líkhúsi en hjer.

Jeg segi að vísu fyrir mig sjálfan, að jeg hefði heldur kosið, að þessum gjöldum hefði verið jafnað niður eftir efnum og ástæðum, en jeg geri þó ekki að deiluatriði, að þessi meðalvegur er þræddur í frv. Hinsvegar er til þess ætlast samkv. brtt. nefndarinnar, að innheimta þessara gjalda fari eftir sömu reglum og innheimta sóknargjalda samkv. lögunum frá 1909, og að gjöld þessi megi taka lögtaki. Þá bætti nefndin, samkv. brtt. 2 á þskj. 275, nýrri grein við frv. — um að lög þessi skuli þegar öðlast gildi. Annars hefðu lögin ekki komið til framkvæmda fyr en 3 mánuðum eftir birtingu þeirra í Stjórnartíðindunum, en þá mundi vera orðið of seint til að kalla saman safnaðarfundi á þessu ári. En jeg tel það betra, því fyr sem þessi lög geta komist til framkvæmda.

Hitt leggur nefndin áherslu á, að ekki verði ráðist í neinar dýrar eða viðhafnarmiklar byggingar, heldur verði reynt að byggja sem einfaldast og ódýrast, sem hægt er að komast af með og sómasamlegt verður talið. Enda er ekki hægt að leggja í neinn kostnað nema með samþykki safnaðarfundar, og þar sem hjer í Reykjavík eru tveir söfnuðir, sem báðir verða að samþykkja þetta áður en verkið verður hafið, er það gott aðhald gegn því, að ekki verði ráðist í neitt, sem ekki er vel viðráðanlegt.

Jeg orðlengi þetta svo ekki frekar, en vænti þess aðeins, að háttv . deild veiti þessu frv. og brtt. nefndarinnar samþykki sitt og skjóta afgreiðslu.