26.03.1926
Neðri deild: 41. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

78. mál, notkun bifreiða

Árni Jónsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 200, og þar sem hjer er um nýmæli að ræða, þykir mjer hlýða að fara um hana nokkrum orðum. Það, sem hjer er farið fram á, er, að leiddar verði í lög svokallaðar áhættutryggingar (Ansvarsforsikring). Slíkar tryggingar eru til þess að tryggja menn fyrir skaðabótum, sem þeir kunna að verða dæmdir til að greiða, ef þeir valdi tjóni á eignum annars manns eða lífi hans og limum. Skaðabæturnar geta verið svo háar, að mönnum sje ókleift að greiða þær, og þá er engin trygging fengin fyrir þann, sem fyrir skaðanum verður. Hvað viðvíkur bifreiðum er mikil þörf á því, að hjer komist á slíkar tryggingar, ekki einungis fyrir þá, sem sjálfir aka sinni bifreið, heldur einnig fyrir þá, sem bera ábyrgð á öðrum mönnum, sem með bifreiðar fara.

Auðvitað nær tryggingin ekki til þeirra, sem í glæpsamlegum tilgangi verða valdir að tjóni. Það heyrir undir hegningarlögin og kemur ekkert þessu við.

Eins og menn sjá, er gert ráð fyrir, að upphæðin verði fyrir bifreiðar 15 þús. kr. og bifhjól 7500 kr. Jeg vil geta þess, að þessi ákvæði eru tekin úr dönskum lögum sama efnis, aðeins eru upphæðirnar aðrar hjer.

Noregi eru ekki enn neinar skyldutryggingar á bifreiðum, en það verður að „deponera“ hjá lögreglustjóra 1000 kr. Því hefir nú verið breytt í 20 þús. kr., svo að í framkvæmdinni er þetta í raun og veru alveg það sama.

Menn kunna nú að bera því við, að það sje erfitt að ákveða iðgjöld í byrjun, því hjer eru ekki til neinar áreiðanlegar skýrslur um bifreiðaslys og umferð, og þetta er að vissu leyti rjett. En það er mótbára, sem má hafa á móti öllum tryggingum í byrjun, og mun reynslan færa þetta í viðunanlegt horf smám saman Jeg hefi hjer fyrir framan mig lista yfir iðgjöld í Noregi. Þau eru ekki há, og ætti að mega sníða iðgjöldin hjer að mestu leyti eftir þeim. Svo var að minsta kosti gert um slysatryggingarnar. Upphæðirnar eru þessar:

Fyrir vörubíla og sjálfseignarbíla 2,3‰

fyrir fólksflutningsbíla ......... 3,6‰

fyrir drossíur og kassabíla ...... 4.3‰

Þetta eru ekki háskalegar upphæðir, þegar miðað er við, hver trygging fæst með þessu.

Hvað viðvíkur stofnun svona fjelags hjer, væri æskilegast, að hægt væri að koma því á fót, en það er ekki gott að segja, hvað stóran höfuðstól við þyrftum. Í Danmörku verður að „deponera“ hjá fjármálaráðuneytinu 200 þús. kr. í dönskum verðbrjefum, og þegar miðað er við þann fjölda bifreiða, sem þar er — í Kaupmannahöfn einni eru 14 þús. bifreiðar, en í Reykjavík 314 og í Hafnarfirði 86, en samtals á öllu landinu í kringum 500 — sjáum við, að 50 þús. kr. hluti að vera nægilegur höfuðstóll hjer.

Það væri hugsanlegt, að einhverjir hjeldu því fram, að þessar tryggingar gerðu menn óvarkárari en ella. En á því er lítil hætta. Hjer getur, hvernig sem alt fer, sá, sem slysinu veldur, ekki haft neinn hagnað af því. Fjeð gengur alt til þeirra, sem fyrir slysinu verða. Öðru máli er að gegna með mann, sem á vel trygðan húskofa. Það getur verið freisting fyrir hann að kveikja í kofanum. Auk þessa væri það mikill álitshnekkir fyrir viðkomandi mann og hann mundi varast það.

Þessar áhættutryggingar eru farnar að tíðkast mjög, þó að þetta sje fyrsta sporið, sem stigið hefir verið í þá átt hjer. Einkum eru þær tíðar mjög í Þýskalandi. Á Norðurlöndum eru slík tryggingarfjelög ekki til fyr en eftir síðustu aldamót. Í Noregi var það fyrsta stofnað árið 1907, en nú hafa öll hin stærri vátryggingarfjelög sjerstaka deild fyrir áhættutryggingar. Í þessu sambandi er ekki ástæða til að tala um almenna tryggingu á bifreiðum, því að það er alt annað mál. Mjer er ókunnugt um, hvort þær eru yfirleitt trygðar hjer. En ef áhættutryggingar kæmust á, þykir mjer líklegt, að hinar kæmu líka.

Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þdm. sjái, hvílíkt nauðsynjamál þetta er og samþykki brtt.