18.02.1926
Neðri deild: 9. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

25. mál, sauðfjárbaðanir

Halldór Stefánsson:

Ástæðurnar fyrir lögunum frá 1924 voru þær, að gerlafræðingur ríkisins og dýralæknirinn í Reykjavík töldu, að hægt væri að fá tryggara og betra baðlyf á þennan hátt en annars. Nú er fengin tveggja ára reynsla, og eftir því, sem jeg veit best, er sú reynsla alls ekki viðunandi. Að vísu er ekki hægt að dæma um árangurinn af síðustu böðun fyr en næsta vor, en á Austurlandi eru menn mjög óánægðir með árangurinn af baðinu í fyrra. Fjöldi manna hefir kvartað undan því, að óþrif hefðu verið á fjenu í vor venju fremur, og þykjast ekki geta öðru um kent, en baðlyfinu. Í notkunarreglunum er sagt fyrir, að halda eigi fjenu í baðinu í 3 mínútur. Þó að með því fengist jafngóður árangur eins og á 1 mínútu í sterkara baði, þá má það teljast óhæft. Það lítur helst út fyrir, að hugsunin sje að drekkja óþrifunum í baðinu! Það virðist því vera full ástæða til að breyta því skipulagi, sem nú er, en hitt er álitamál, hvað langt skal ganga í því að leyfa innflutning baðlyfja. Sjálfsagt virðist að leyfa innflutning á fleiri en einni tegund. Eðlilegast teldi jeg að afnema lögin og hverfa aftur til þess skipulags, sem var fyrir 1924.