21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

25. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. 2. minni hl. (Árni Jónsson):

Jeg skal reyna að skýra svo hlutlaust frá, að ekki verði tilefni fyrir hv. frsm. l. minni hl. að standa upp. Það er rjett, að það er ekki ákaflega mikið, sem ber á milli. En þó höfum við ekki getað orðið samferða, þrátt fyrir góða samvinnu í flestöllum málum, sem nefndin hefir haft til meðferðár, og góðan huga á að verða samferða.

Eins og hv. frsm. (JörB) gat um, er þetta mál komið fram fyrir áskoranir, sem borist hafa víðsvegar að af landinu. Jeg held hann hafi nefnt 10 sýslur, þar sem skorað var á þingið að löggilda Coopers duftið. Þetta hefir verið allmikið deilumál; en út í það þarf ekki sjerstaklega að fara nú, því að menn eru kunnugir málavöxtum af því, sem fram hefir farið í blöðunum. Eins er mönnum kunnugt um það, að baðlyf það, sem nú er löggilt af atvinnumálaráðuneytinu, er löggilt eftir ráði dýralæknis í Reykjavík. En nú hefir dýralæknir ekki viljað láta löggilda þetta Coopers baðlyf. Það, sem farið er fram á í þessu frv., er það, að þingið fari upp á sína eigin ábyrgð að löggilda baðlyf, sem dýralæknir hefir ekki hingað til viljað löggilda. Hjer er eiginlega komið að þessu ágreiningsatriði, sem nefndin klofnaði á. Því að okkur 2. minni hluta þótti alt of viðurhlutamikið, að Alþingi færi að löggilda þetta baðlyf, þrátt fyrir þessar áskoranir, sem óneitanlega hafa borist, þvert ofan í tillögu þess eina fagmanns, sem við höfum í þessu efni. Og það er því fremur, sem mönnum kemur ekki saman um þetta yfirleitt. Jeg hefi í höndum skilríki, sem jeg get lesið upp, ef þörf gerist. Það eru vottorð víðsvegar að, sem fara í nokkuð aðra átt en það, sem haldið hefir verið fram hjer. Og þess er skemt að minnast, að það var að minsta kosti einn bóndi í landbn., sem ekki hafði eins mikla trú á Coopers duftinu og háttv. frsm. (JörB), en þvert á móti álítur innlenda baðlyfið miklu betra.

Með þessum till. okkar 2. minni hl. er enginn dómur lagður á nothæfi þessara baðlyfja. En með tilliti til þess, að við gerum ráð fyrir, að frv. það, sem er næst á dagskrá, um útrýmingu fjárkláða, nái fram að ganga, þá höfum við álitið eðlilegast að gefa mönnum það alveg frjálst, hvort þeir vilji nota Hreins baðlyf, kreolín, Coopers baðlyf eða hvað annað baðlyf, eftir að fjárkláðanum einu sinni er útrýmt úr landinu og dýralæknir telur, að ekki þurfi lengur löggildingar við. Menn hafa þá þekkingu á baðlyfjum hjer á landi, að þeim ætti að vera fyllilega trúandi til að nota eingöngu þau, sem sæmileg eru. Mætti þá bera slíka löggildingu saman við það, að löggilda t. d. vissa tegund skeggsápu eða eitthvað því um líkt. Það er engin hætta á, að menn noti ekki sæmileg baðlyf eftir að útrýming hefir farið fram; það er þegar fengin svo mikil reynsla í þeim efnum. Jeg get ímyndað mjer, að Coopers baðlyf yrði mikið notað; því að þótt dýralæknir vilji ekki löggilda það sem kláðabaðlyf, álítur hann það gott þrifabaðlyf.

Hv. frsm. (JörB) var hræddur, um, að innflutningur mundi aukast meira en góðu hófi gegndi, ef ekkert væri eftirlit. Ekki er jeg hræddur um það. Jeg held menn hafi ekki tilhneigingu til að birgja sig svo upp af þessari vöru. Hinsvegar er ekki svo mikil hætta, þótt menn lægju með eitthvað. En þar sem hann sagði, að innflutningur hefði verið 100 tonn á ári, þá getur það verið villandi, þegar ekki fylgir meira um það, hvort það var lögur eða duft. Þyngdarmunurinn er óskaplega mikill.

Yfirleitt er mjög leiðinlegt að þurfa að lögbjóða eftirlit með böðunum; því að það er vitanlega til hagsmuna fyrir hvern einasta bónda að sjá vel um böðun sauðfjár síns. En reynslan hefir sýnt, að eftirlits er full þörf.

Mjer heyrðist háttv. frsm. (JörB) vera að tala um það, að kláði hefði gert vart við sig í Borgarfirði, en gat þess jafnframt, að ekki hefði verið nema einbaðað. Þarna kemur fram sá mikli misskilningur, sem hefir ráðið í þessu máli, nefnilega að til væri baðlyf, sem nægilegt væri að einbaða fje úr. Jeg held jeg fari rjett með það, að það baðlyf sje ófundið enn. Þó hægt sje við fyrstu böðun að drepa sjálfan manninn, þá er ekki hægt að vinna á eggjunum þar með. Annars er óþarfi að fara út í þetta nánar, en ef til vill fremur þegar næsta málið á dagskránni verður tekið fyrir.