07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

92. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Fjárhagsnefnd gat ekki orðið sammála um þetta frumvarp. En svo er ástatt, að svo stutt er síðan nefndin fjekk málið til meðferðar, að minni hlutinn hefir ekki haft tíma til þess að koma fram með þær brtt., sem hann ætlaði að flytja, nje heldur nál.

Í frv. þessu er farið fram á það, að undanþegnar sjeu fasteignagjaldi í bæjarsjóð kirkjur, skólahús o. s. frv. En jeg get ekki fallist á, að slíkt sje rjettmætt, því þetta gjald er í raun og veru rjett að skoða sem gjald fyrir unnin verk, sem bærinn lætur framkvæma í þágu húseigenda. Það er því alt öðru máli um þetta gjald að gegna en fasteignaskatt þann, sem ríkið tekur. Það er beinn skattur, en ekki gjald fyrir unnin verk, og hlýtur því að fara eftir öðrum reglum. Það er því mjög ósanngjarnt af ríkinu að ætlast til þess, að bæjarsjóður sleppi þessu gjaldi að því er kemur til opinberra stofnana. Jeg vil fyrir hönd minni hl. óska þess, að málið verði tekið af dagskrá og sú breyting á því gerð til samkomulags, að fasteignagjaldið skuli að vísu falla niður að því er kirkjur snertir, en ekki af öðrum opinberum byggingum, svo sem frv. fer nú fram á. Þetta býð jeg fyrir hönd minni hl. — ekki af því, að ekki þurfi að vinna ýms verk fyrir kirkjurnar, svo sem sóthreinsun o. fl. En af því mjer er kunnugt um það, að frv. er fram komið einkum vegna gjaldsins af kirkjunum, vil jeg gera þessa tilslökun til samkomulags. En að öðrum kosti verð jeg neyddur til þess að greiða atkv. á móti frv. Þess vegna leyfi jeg mjer enn að fara fram á það, að hæstv. forseti taki málið út af dagskrá, svo að tími vinnist til að koma að breytingartillögu.