07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

92. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það var víst misskilningur hjá hv. 4. þm. Reykv. (MJ), að það hafi verið feld niður gjöld til bæjarins, sem námu 149000 kr. þegar fasteignagjaldið var lögleitt. Það mun hafa verið hitt, að borgarstjóri mun hafa lagt fram áætlun um það, hvað það kostaði, sem bæjarsjóður hefði með höndum viðvíkjandi húseignum í bænum. Væri þetta, þá er þar rjett skýrt frá því húsagjaldi. Það mun upphaflega vera áætlað svo, að það samsvaraði þessum fasteignakostnaði, en þar með er ekkert sagt um það, að það væri sanngjarnt að láta kirkjur og sjúkrahús bera þann kostnað eða taka þátt í honum að tiltölu við sitt verð, á móts við önnur hús, sem við þeirra notkun gefa eigendunum arð. Jeg hygg, að það sje rjett hjá mjer, að það hafi verið af vangá, að þessar breytingar voru ekki teknar inn, og jeg held einmitt, að sú vangá hafi komið fram í þeim upplýsingum, sem hv. allshn. hafði útvegað sjer um hækkun á útgjöldum ríkissjóðs. Jeg held, að þess hafi ekki verið gætt í þeim útreikningi, að þessar opinberu byggingar, sem ekki falla undir fasteignaskatt til ríkisins, mundu falla undir þetta fasteignagjald. Það er að minsta kosti svo um nokkuð af þessum byggingum, og líklega þær, sem bera hæst gjöld. Hitt er ekki, að jeg held, nein ástæða til að óttast, að bærinn losni undan slökkviliðsskyldunni fyrir þetta. Sú skylda er lögð á eftir öðrum lögum. Hvort jeg hefi samið frv., skiftir ekki máli, en hitt er, að jeg hefi gefið fjhn. Ed. þær upplýsingar, sem greinargerð hennar hefir inni að halda, um það, hvað ríkissjóður borgi í fasteignagjald af fasteignum sínum.