28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

29. mál, almannafriður á helgidögum

Frsm. minni hl. (Árni Jónsson):

Jeg fór þess á leit við hæstv. forseta (PO), að hann tæki þetta mál af dagskrá nú. Jeg hafði ekki veitt því eftirtekt, að málið væri á dagskránni, og var því ekki undirbúinn umræður um það. — Eins og menn sjá, hefi jeg ekki skrifað undir nál. á þskj. 196 með hv. meðnefndarmönnum mínum, og er það vegna þess, að jeg hefi sjerstöðu í þessu máli. Mjer finst það þess vegna ekki sanngjarnt af hæstv. forseta að vilja ekki verða við ósk minni um að taka málið út af dagskrá, með því að jeg álít, að ekki sje ástæða til að hraða því svo mjög Hæstv. forseti hefir sjálfur áður sótt það fast að fá mál tekið út af dagskrá. Jeg vil aðeins skjóta þessu til hæstv. forseta til athugunar, þegar hann er kominn í sæti sitt sem þm. Borgf. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) mótmælti því, að málið væri tekið af dagskrá, og er það ekkert undarlegt, þar sem hann er einn af flm. frv. Hinsvegar hefir mjer skilist, að hv. þm. hefði ekki neinn sjerstakan áhuga á því, að málið fengi skjóta afgreiðslu, og bjóst jeg því ekki við, að hann mundi leggja svona mikið kapp á það nú. Hv. þm. (JakM) leiðrjettir þetta, ef það er misskilningur hjá mjer.

Jeg hefi ekki getað orðið hv. samnefndarmönnum mínum samferða í þessu máli, og er það vegna þess, að jeg álít það tilgangslaust að setja lög um þetta efni, vegna þess að þeim verði ekki hlýtt. Hjer er um það að ræða að herða á ákvæðum þeirra laga, sem nú eru í gjldi, og mjer er óhætt að segja, að þau eru alstaðar brotin í öllum greinum á hverjum einasta helgidegi þjóðkirkjunnar. Jeg skal nú sýna háttv. þdm. fram á þetta og taka hverja grein laganna fyrir sig. Í l. gr. eru almenn ákvæði um hávaðasama vinnu o. s. frv., og er þeim vitanlega alls ekki hlýtt. Í 2. gr. segir svo : „Kaup og sala má eigi fram fara á helgidögum þjóðkirkjunnar“ o. s. frv. Mjer er kunnugt um það, að úti um land fer kaup og sala fram á helgidögum ekki síður en aðra daga. Það er heldur ekki að nauðsynjalausu, því að menn hafa oft ekki annan tíma hentugri til þess að fara í kaupstað en helgidagana. Að minsta kosti er það svo um bjargræðistímann. Þá eru í 2. gr. ákvæði um það, að gestgjafar megi ekki selja nje veita áfenga drykki. Það er nú svo, að hjer í bænum er aðeins eitt veitingahús, sem hefir áfengissölu, og jeg veit ekki betur en að hún fari fram jafnt helga daga sem aðra. Í 3. gr. er bannað að halda markaði á helgum dögum. Þessu er auðvitað ekki hlýtt. Jeg var fyrir nokkrum árum í markaðsferð uppi í Borgarfirði, og held jeg, að markaðir hafi alveg eins verið haldnir á sunnudögum. þegar svo stóð á. Jeg geri ráð fyrir, að háttv. þingm. Borgf. (PO) minni það líka. — Í 4. gr. er bannað að halda veislur eða hávaðasama fundi á almennum veitingastöðum fyr en eftir miðaftan. Þetta er líka brotið. Í 5. gr. er bannað að halda almennar skemtanir á helgidögum fyr en eftir miðaftan. Þetta ákvæði er brotið á hverri helgi. Í 6. gr. er bannað að halda sveitar- eða bæjarstjórnarfundi á helgidögum, nema brýna nauðsyn beri til. Það kann að vera, að þessari grein sje að einhverju leyti hlýtt í kaupstöðum, en hvað sveitirnar snertir hygg jeg, að óhætt sje að segja, að flestir hreppsnefndarfundir, sem og aðrir fundir í sveitum, sjeu haldnir á sunnudögum. Þá er 7. gr., og er þar bannað að halda almenna fundi á helgidögum fyr en eftir nón. Þetta er auðvitað altaf brotið um land alt. Það vakti töluverða eftirtekt þetta atriði, þegar farið var að grafa það upp, því að það vissu ekki aðrir en lærðir lögfræðingar, að þetta væri í lögum, og sýnir það vel, hve illa þessi lög hafa komist inn í meðvitund manna. Í 8. gr. er aðeins ákvæði um það, að þau bönn, sem talin eru í undanfarandi grein, nái yfir allan daginn skírdag, föstudaginn langa og fyrri helgidag stórhátíðanna, og er þessi grein áreiðanlega mjög brotin. Í 9. gr. er bannað að halda almennar skemtanir kveldið fyrir helgidag lengur en til miðnættis. Þetta er auðvitað altaf brotið. Í 10. gr. eru ákvæði um það, að brot skuli varða sektum frá 1–200 kr., og er þessu ákvæði auðvitað heldur ekki hlýtt, því að aldrei er sektað.

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, fer í þá átt að herða á ákvæðum þessara laga, sem hvorki er hlýtt eða gætt. Hv. meiri hluti allshn. hefir lagt til, að frv. verði samþ., en jeg get þó sagt það þessum hv. meðnefndarmönnum mínum til hróss, að í nál. komast þeir svo að orði, að skiftar muni verða skoðanir manna um haldkvæmi víðtækra bannákvæða um störf og athafnir manna á helgidögum. Það, sem hjer kemur til greina, er, hvort lögin eru brotin af nauðsyn eða að nauðsynjalausu. Ef þau eru brotin af nauðsyn, þá á að lina ákvæði laganna, ef þeim er breytt. Jeg verð að halda því fram, að öll þau ákvæði, sem jeg nefndi, að undanskildu ákvæðinu um vínsöluna, sjeu brotin meira og minna af nauðsyn. Atvinnuvegum vorum er þannig háttað, að menn verða að nota tímann bæði í sveitum og kaupstöðum eftir föngum. Það ber meira á brotunum í kaupstöðunum, vegna þess að allar athafnir eru háværari þar en til sveita. Jeg ætla ekki að fjölyrða hjer um brtt. hv. þm. Borgf. (PO). Hún er æðilangt fyrir neðan það, að orðum sje eyðandi að henni. Jeg hefi dvalið nokkur ár í landi, þar sem sunnudagshelgin er mest í hávegum höfð, en þar dettur engum manni í hug að leggja hömlur á bifreiðarnar. En í þessari brtt. er farið fram á að banna allar bifreiðaferðir í kaupstöðum, þar sem kirkja er, á tímabilinu frá kl. 11–4. Jeg held, að það þyrfti öfluga varalögreglu með harðsvíruðum foringja, svo sem hv. þm. Borgf. (PO), til þess að sjá um, að þetta ákvæði yrði ekki brotið. Jeg skal játa, að brtt. nefndarinnar eru flestar til bóta, en þótt þær verði samþyktar, mun jeg greiða atkvæði á móti frv., því að jeg tel það fara í öfuga átt. Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) talaði um það hjer í þessari deild á dögunum, að löggjöfin ætti að vera í samræmi við þjóðlífið. Þetta er undirstöðuatriði í allri löggjöf. Ef lögin eru ekki í samræmi við þjóðlífið, þá eru þau ólög, og landið eyðist með ólögum. Nauðsynin brýtur þessi lög, en eftir nauðsyninni á löggjafinn að hegða sjer um þetta efni. Ef þetta frv. verður samþykt, fá menn þá ánægju að fá að brjóta ný lög, í stað þess að þeir hafa áður orðið að sætta sig við að brjóta 25 ára gömul lög.