17.04.1926
Neðri deild: 56. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Sveinn Ólafsson:

Jeg ætla ekki að fara að taka upp alt það, sem mjer þykir annars svara vert í þeim umræðum sem fram hafa farið, en jeg verð að víkja að tveimur hv. ræðumönnum örfáum orðum; fyrst og fremst hæstv. atvrh. (MG) og í öðru lagi háttv. 2. þm. Rang. (KlJ). Hjá þeim báðum kom það fram meira eða minna ljóst, að frá mjer og hv. þm. Str. (TrÞ) andaði kalt til þessa máls. Og um mig var það sjerstaklega tekið fram, að jeg hefði gert tilraun til að tefja fyrir málinu. Mjer finst þetta vera alveg ástæðulausar getsakir og ekki sanngjarnlegt að taka á málinu þannig. Það er eigi aðeins það, að við höfum rjett til að koma fram með okkar athugasemdir; við höfum líka skyldu til þess. Við höfum skyldu til þess að benda á það, sem okkur virðist, að athugavert sje og hættulegt í meðferð þessa máls. Það er ekki af neinum kulda eða óvild til þeirra, sem að þessu máli standa, heldur af eðlilegri varkárni og umhyggjusemi fyrir því, sem er verðmætast og mikilsverðast í okkar augum, sem er hagur okkar eigin þjóðar. Þegar hagsmunir hennar standa andspænis hagsmunum útlendinga, eins og hjer er, þá veit jeg ekki, hvað er frekar okkar skylda en að reyna að gæta hagsmuna okkar eigin þjóðar. Okkur er eðlilega ant um, að viðhöfð sje öll varkárni um samninga, sem gerðir verða við útlendinga, samninga sem binda hendur vorar um tugi ára. Báða háttv. ræðumenn furðaði á því, að jeg skyldi ekki vera tilbúinn þegar að greiða atkvæði um frv. eins og þetta, þar sem jeg um langan tíma hefði starfað í fossanefndinni. En mjer er spurn: Hvernig á maður, þrátt fyrir þann kunnugleika, sem kynni að hafa fengist við að starfa að þessum málum, að ráða í það til dæmis, hvað margt manna muni verða að sækja til útlanda til þessarar virkjunar og iðjurekstrar, þegar því nær öll gögn og upplýsingar vantar frá umsækjanda, — eða hver vill heimta atkvæði þegar um mál, sem jafnilla er undirbúið og óupplýst sem þetta? Það er harla margt, sem upplýsa verður, áður en hægt er að ákveða sig um mál sem þetta. Ástæðu þá, sem hæstv. atvrh. lagði svo mikla áherslu á fyrir því að ganga ætti að frv., að vötnin væru ónotuð og hefðu verið það lengi, þekkjum við allir, en sú ástæða á ekki að ráða hjer úrslitum, því að verði virkjun vatnanna keypt með afarkostum, þá er betra að bíða en að taka þvílíkum boðum. Annars gildir þetta sama um fleiri náttúruöfl, svo sem vindinn, sjávarföll o. fl.; þau eru og verða um langt skeið lítið notuð. Menningu heimsins er ekki lengra komið en það, að bíða verður eftir víðtækri notkun þeirra.

Jeg ætla ekki að deila við þessa hv. þm. um einstök önnur atriði, en vil taka það fram út af orðum hv. 2. þm. Rang., að þó að sjerleyfið sjálft lægi hjer fyrir, gæti það, samkvæmt 7. gr. sjerleyfislaganna, verið fullkomlega þingleg meðferð á málinu, því að það, sem greinin tekur fram, er það, að ræða skuli málið sem lagafrumvörp, þ. e. a. s., að ræða skuli málið þrisvar í hvorri deild. Gæti því verið alt eins þinglegt að hafa fyrir sjer sjálft sjerleyfið eins og heimildarlagafrv., sem bæði er tvírætt og afslept.