12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Sveinn Ólafsson:

Eins og hv. frsm. fjhn. (ÁÁ) hefir getið um, hefir þetta frv. tekið allmiklum breytingum í hv. Ed., og verð jeg að segja, að þær eru ekki til bóta. Jeg tel frv. vera orðið svo óheppilega breytt frá því, sem samþykt var hjer í deildinni, að óumflýjanlegt sje að færa það aftur í þann búning, sem það þá hafði. Þess vegna hefi jeg komið með brtt. á þskj. 584, sem lýtur að því að færa aftur frestinn til byggingar mannvirkjanna vestra úr 9 árum í 7 ár, eins og áður var, og setja aftur inn í frv. þá grein, sem feld var niður í hv. Ed., 9. greinina. og sem lýtur að því að áskilja ríkissjóði tryggingu með 50 þús. kr. fjárframlagi frá umsækjanda gegn vanefndum á sjerleyfisskilyrðum.

Mjer þykir undarlegt, að hv. Ed. skyldi vilja taka út úr frv. einmitt þau ákveðin, sem helst trygðu það, að eitthvað yrði úr framkvæmd þessa virkjunarfyrirtækis og að heimildin yrði ekki misbrúkuð eða notuð eins og skrumauglýsing utanlands. Það er alkunnugt fyrir löngu, að íslensk vatns- og námurjettindi hafa gengið kaupum og sölum í nágrannalöndunum og farið stöðugt hækkandi í verði. Svo mun einnig vera um vatns og námurjettindi þau, sem hjer um ræðir, að þau hafa skift um eigendur nokkrum sinnum og eru nú metin margföldu verði við það, sem áður var. Þess vegna finst mjer ekki eiga við að fara öldungis fyrirvaralaust að gefa út sjerleyfi fyrir þessu fyrirtæki, sem gæti, ef svo vildi verkast, orðið notað eins og auglýsing eða stimpill á vatnsrjettindi eða námurjettindi fjelagsins, ef það þyrfti eða vildi selja þau. Verði hinsvegar eitthvað úr framkvæmdum og alt fari með feldu, þá er engin kvöð á fjelagið lögð, þó heimtuð sje trygging, því að fjeð kæmi þá aftur með vöxtum, er skilyrðum 7. gr. væri fullnægt. Það virðist því benda á, að ekki sje tryggilega um búið fjáröflun til fyrirtækisins, ef það vex fjelaginu í augum að setja þessa lítilfjörlegu tryggingu. Hv. deildarmenn muna eflaust, að hjer var áður feld till. um hærri upphæð, sem jeg vildi láta setja til tryggingar efndum af hendi fjelagsins. Því hefi jeg ekki treyst mjer að koma nú með hærri upphæð en þetta, þótt betur hefið á því farið.

Jeg skal ekki að öðru leyti fara neitt út í það, hvaða bendingar og líkur mjer hafa borist fyrir því, að þetta fyrirtæki verði ekkert annað en augnabliksuppþot; en vissulega þætti mjer miður, ef ekkert yrði hjer úr framkvæmdum og þetta fyrirhugaða sjerleyfi yrði af hendi útlendra fjepúka, sem seilast hjer eftir rjettindum, notað eins og gylling á söluvarningi þeirra, en Alþingi, sem í góðri trú býður fram vilkjörin, sýnd sú lítilsvirðing bótalaust, að gengið yrði fram hjá skilyrðum þess og það látið sitja langtímum yfir ónýtri lagasetningu.