10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

1. mál, fjárlög 1927

Jónas Jónsson:

Jeg hygg, að mín stutta ræða hafi orðið til þess að skýra það, að ekki sje orðinn alt of ítalskur bragur á þinginu, þar sem hæstv. fjrh. játaði, að valdið væri hjá þinginn og hann vildi mælast til samvinnu við það og að það tæki sitt starf alvarlega. En jeg fann ástæðu til að henda á þá hættu, sem nú vofir yfir þingræðinu. Það stóð um eitt skeið þrálát barátta um valdið yfir fjármálunum milli stjórnanna og þinganna í flestum ríkjum Norðurálfunnar, og kunnugir menn tala um nýja bliku, sem nú sje að draga upp fyrir þingræðið, og þess vegna hefi jeg þessi aðvörunarorð í tíma talað.

En þar sem hæstv. ráðherra hefir játað að hafa bilið fjárlagafrv. þannig út, að litlu megi breyta, nema ef til vill færa til eitthvað lítilsháttar, þá vil jeg benda á það, sem hann hefir undirstrikað, að hann virðist hallast að því ennþá, að gera verði svo varlega áætlun, að hún beinlínis verði röng. Sú áætlun, sem höfð er 8 milj., en verður 16 milj., er röng. Það gat að vísu enginn gert ráð fyrir, að tekjurnar myndu hækka svona mikið, en þó var það reiknað í fyrra af einum þingmanni af Norðurlandi, sem sæti á í fjhn., að tekjurnar myndu hækka um 6 milj., og sýnir það að menn geti haft allglögga hugmynd um þetta fyrirfram. Þess vegna verður áætlunin röng, ef menn sækjast eftir því að áætla lægra en raunverulega má, og hefir hæstv. fjrh. haft löngun til þess. En nú hefir hann hætt við alt slíkt og skift um skoðun, sem kemur fram í því, að hann útbjó fjárlagafrv. öðruvísi nú en í fyrra.

En þar sem hæstv. fjrh. bjóst ekki við því, að allur stjórnarflokkurinn stæði með stjórninni, þá er það ekki mitt að ýta flokknum til hans. En jeg áleit það fasta venju um öll lönd, að stjórnarflokkurinn stæði með stjórn sinni, og jeg hygg, að svo sje hjer, og er sendiherramálið gott dæmi um það, því að jeg held, að allur stjórnarflokkurinn í Nd. hafi snúist í eyðsluáttina, hvað sem kann að verða hjer í þessari hv. deild. Svo að samræmið milli höfuðs og lima er í góðu ástandi.

Hæstv. fjrh. sagði, að jeg rökstyddi mál mitt með dæmum víðsvegar að, en þar sem stjórnin hefir útibú víða, á Spáni, í Danmörku og fyrir austan tjörnina, þá getur hann ekki fundið að því, þótt jeg minnist á þá staði, sem þingið verður að leggja fje til.