23.04.1926
Efri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Jónas Jónsson:

Jeg vil undirstrika alt það, sem hv. 1. landsk. (SE) sagði um þetta mál. Það hefir stungið upp höfðinu öðruhvoru og hefir verið að flækjast fyrir þinginu. en óhætt að segja, að flestum þingmönnum hefir staðið stuggur af að ljá því liðsinni sitt. Jeg tel það vel ráðið hjá hv. l. landsk. að vísa málinu til stjórnarinnar. Hún hefir betri aðstöðu til þess að athuga málið og getur rannsakað í næði nú á milli þinga, hvaða afleiðingum mundi mega búast við, ef sett væru lög um stofnun happdrættis.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að gera þetta mál að umtalsefni nú, en aðeins minna á það, sem jeg hefi áður drepið á, að ef hjer á stofna einhverskonar happdrætti, þá mundi jeg telja heppilegast að fara að dæmi Svía um happdrætti í sambandi við fasteignabrjefasölu. En þá yrði ríkið að reka slíkt fyrirtæki. Þeir, sem kaupa þessi fasteignabrjef, hafa oft von um að græða talsvert stóra upphæð, sem að vísu bregst á stundum, en þrátt fyrir það er þó ekki hjer um áhættuspil að ræða, og er heldur ekki fordæmt af neinum frá sjónarmiði þjóðarheiðursins.

En með þessu frv., í því formi sem það er nú, er verið að búa til svikamyllu til þess að ræna fje í öðrum löndum, og það er vafasamt, hvort ekki geti verið varhugavert að leyfa slíkt.