16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

15. mál, útsvör

Þorleifur Jónsson:

Jeg skal nú ekki fara neitt út í þá aths., sem hæstv. atvrh. gerði nú síðast, um ástæðuna fyrir því, að skjóta verði útsvarskærum til yfirskattanefndar, og hann tók það fram, að það væri ekki af því, að stjórnin hefði að neinu vantreyst sýslunefndum. En það er skiftingin á útsvörunum, sem fyrir mjer er aðalatriðið, og jeg býst við, að það verði erfitt að verja það, að hún verði ekki altaf til klúðurs og baga fyrir sveitarstjórnirnar.

Þá vildi hv. frsm. reyna að verja þá brtt., að utansveitarmenn skyldu undanþegnir útsvari. En mjer virðist ákaflega ósanngjarnt, að atvinnusveitin fái engan þátt í ágóða þeirra, sem reka eða stunda þar atvinnu máske hálf eða heil missiri. En jeg tala ekki meira um það, því að jeg lofaði að vera stuttorður. — En það var fyrst og fremst eitt atriði, sem hv. frsm. mintist á, sem gefur mjer tilefni til andsvara. Það var sem sje það, að vermenn, sem stunda sjó á Hornafirði á vetrarvertíðinni, yrðu fyrir mjög þungum búsifjum, með því að borga 1/12 af afla sínum í húsaleigu. Það mun nú vera rjett, að Þórhallur Daníelsson kaupmaður í Hornafirði tekur 1/12 hluta í leigu af vermönnum, ef þeir salta sjálfir afla sinn, en 1/24, ef þeir selja honum hann blautan. En þess er að gæta, að verstöðin er afarfullkomin og bygð á dýrustu tímum, svo að mjög mikið fje liggur í henni. En þrátt fyrir það, þótt leigjandinn hafi fengið umrædda húsaleigu, held jeg, að hann hafi ekki spunnið silki á stöðinni. Jeg hefi ekki heldur heyrt neina umkvörtun um það frá Austfirðingum, sem stunda sjó á Hornafirði, að þeir sjeu óánægðir með leiguna á stöðinni. Þvert á móti er þetta stór hagur fyrir þá, að eiga þarna athvarf, í stað þess að áður urðu þeir að liggja aðgerðarlausir yfir vetrarvertíðina. En það, að Þórhallur Daníelsson rjeðist í þetta stórvirki, hefir orðið til mjög mikils stuðnings fyrir sjávarútvegsmenn á öllum Austfjörðum. Er því leitt, er hann fær slíkar aðdróttanir, sem jeg þóttist heyra á ummælum hv. þm.

Sje jeg ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum og vona, að senn megi ganga til atkvæða.