27.02.1926
Efri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (1885)

21. mál, lokunartími sölubúða

Eggert Pálsson:

Þessi tillaga háttv. 1. landsk. þm. (SE), um að vísa málinu til nefndar, hefir eigi við mikið að styðjast, þar sem málið hefir áður verið hjer í nefnd og þá allrækilega athugað. Verði málinu vísað til nefndar, geri jeg ráð fyrir, að það yrði allshn., þar sem það hefir verið áður, og jeg býst við, að niðurstaða nefndarinnar verði nú í engu frábrugðin þeirri niðurstöðu, sem hún hefir komist að áður. Meiri hl. allshn. er hinn sami nú og hann var á síðasta þingi. Þriðji nefndarmaðurinn er að vísu nýr maður og síst lakari eða ósamvinnuþýðari en sá, sem á undan honum var í allshn. En þótt hann kynni að hafa tilhneigingu til að fylgja þessu frumvarpi, þykist jeg vita, að hann muni ekki geta breytt skoðun okkar hinna nefndarmannanna á því.

Jeg þykist fyrir mitt leyti hafa athugað þetta mál svo vel áður, að jeg sje enga ástæðu til þess að fara að eyða tíma í það enn að nýju. Háttv. 3. landsk. (JJ) er vitanlega líka sá hinn sami nú og hann var á síðasta þingi. Hann vill nú ganga á lagið og vonast eftir að fá nú tækifæri til að leika sama leikinn upp aftur og hann ljek á síðasta þingi, er mál þetta var til umræðu. Hann er þegar byrjaður á að endurtaka sömu ræðurnar nú, sem hann hjelt þá. En jeg hefi aftur á móti enga tilhneigingu til þeirra hluta. Mig langar ekkert til að fylla þingtíðindin tvisvar með sömu ræðunni eftir mig í sama málinu. Þessvegna er jeg á móti því, að málið gangi til nefndar. Rök mín í þessu máli eru hin sömu og áður. — Jeg tel alls eigi rjett að leggja höft á þá menn, sem vilja hafa ofan af fyrir sjer og skylduliði sínu með heiðarlegri vinnu. Það er ekki nema eðlilegt, að þeir, sem halda daglaunamenn til þessa eða annars atvinnurekstrar, verði að hlíta ákveðnum vinnutíma, en hitt þykir mjer hart og óviðfeldið, ef þeir, sem einir starfa að þessu eða öðru verki og enga daglaunamenn hafa í sinni þjónustu, verði endilega að hætta allri vinnu á sama tíma og hinir.

Jeg hefi svo ekki fleira að segja um þetta að sinni, en fari málið til nefndar, kemst jeg auðvitað ekki hjá því að tala eitthvað um það aftur, enda þótt það þá hljóti að verða í svipaða átt og jeg hefi áður talað um það.