31.03.1926
Neðri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (1921)

52. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm minni hl. (Jón Baldvinsson):

Eins og hæstv. atvinnumálaráðherra (MG) mintist á, skaut hann því til nefndarinnar að athuga, hvort ákvæðin í frv. þessu væru samkvæmt því, sem tíðkast á Norðurlöndum. Nefndin hefir ekki haft tök á að rannsaka þetta, en eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi leitað mjer, mun þetta ekki vera í lögum í Danmörku, en þrátt fyrir það, þarf ekkert að vera því til fyrirstöðu, að þetta frv. verði samþykt. Þó gott geti verið að „dependera“ af Dönum í ýmsu, getum við vel verið án þess hvað þetta snertir. Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að hann teldi varasamt að samþ. frv. Jeg get ekki sjeð, að svo sje, þegar búið er að sníða af þá ágalla, sem í því voru. Annars skilst mjer, að það geti ekki verið neitt sjerstakt kappsmál fyrir Reykjavíkurhöfn að fá þetta, því að höfnin hefir strangar reglur til innheimtu að fara eftir, ef hún vill beita þeim. En mjer þykir undarlegt, þegar hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), hv. þm. Ísaf, (SigurjJ) og hv. þm. Borgf. (PO) eru að leggja á móti þessu frv., því að einmitt bátar úr þeirra hjeruðum hafa hagnað af, að það verði samþykt. Einmitt væri þetta þægilegt fyrir mótorbáta. Þeir koma hingað á öllum tímum sólarhrings, og höfnin getur haldið bátunum, þangað til gjaldið er greitt, en þá þarf oft að bíða, þar til búið er að opna banka eða síma á daginn. Ef höfnin notar sinn strangasta rjett, sje jeg ekki annað en að það komi harðast niður á bátunum. Þess vegna er frv. fram borið, að hafnarstjóri álítur, að ef það yrði samþykt, mundi vera fengin liðlegri afgreiðsla fyrir bátana. Auk þess er hjer ekki um neina verulega fjárhæð að ræða, sem gæti rýrt veð í skipunum. Þessi gjöld eru mjög lág og mundu aldrei fara fram úr 25 krónum.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að ekkert væri tekið fram um það í frv., hvar í röðinni þetta lögveð ætti að vera. Auðvitað kæmi það næst á eftir hinum, sem búið er að ákveða. Hv. þm. Borgf. (PO) lagði áherslu á, að allshn. hefði verið á móti frv. í upphafi. Það er rjett, en hv. þm. (PO) veit, að eftir að frv. hefir verið svona breytt, hefir breytst afstaða nokkurra manna. Það er því ákaflega hæpið hjá hv. þm. Borgf. (PO), að meiri hluti nefndarinnar sje á móti því nú.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, mundi ekki vera hjer um nein stór skip að ræða. Togararnir hafa skrifstofur í landi og mundu greiða gjöldin jöfnum höndum. Hvað viðvíkur erlendum skipum, fá þau ekki sína pappíra hjá lögreglustjóra, fyr en þau hafa sýnt kvittun frá hafnargjaldkera. Verði frv. felt, hlýtur höfnin að beita sínum ströngustu reglum viðvíkjandi greiðslu, og getur hún þá ekki sett fyrir sig, þó að skip eða bátar verði fyrir tapi.