01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það eru aðeins fáein orð, sem jeg vildi bæta við það, sem jeg sagði í dag, en sagði ekki þá vegna þess, að sumir hv. fjvn.-menn höfðu leyfi forseta til að vera ekki á fundi.

Mjer finst jeg þurfa að taka aftur töluvert af því lofi, sem jeg bar á hv. fjvn. við 2. umr. fjárl. Það kom sem sje í ljós. þegar til atkvgr. kom að ekki var unt að treysta því, að nefndin stæði saman um nál. sitt eða tillögur. Það gilti ekki nema fyrir suma hv. nefndarmenn, því að við atkvgr. greiddu nokkrir þeirra atkv. á móti mörgum hinum veigamestu lækkunar- og burtfellingartillögum nefndarinnar, sem hin loflegu ummæli mín um nefndina aðallega voru bygð á. Jeg hefi engan rjett til að setja ofan í við hv. nefnd, og jeg ætla heldur ekki að gera það. En það er leiðinlegt og virðist óheppilegt, að eftir hverja umr., skuli fjárl. bera þess merki, að hv. fjvn. getur ekki staðið saman um sínar till. nema á pappírnum. Það er nú svo, að þessar stóru nefndir í báðum deildum geta ráðið ákaflega miklu um örlög fjárl., ef þær vilja og eru vel samstæðar. Það fór svo við 2. umr. hjer í þessari hv. deild, að fjárlagafrv. breyttist í beinu áframhaldi af meðferð þess í Nd., tekjuhallinn hækkaði mikið. — Jeg ætla ekki að segja neitt um einstakar brtt. hv. þm.; það eru heldur ekki nema fáar, sem heyra sjerstaklega undir mig. En jeg ætla að láta í ljós þá ósk mína og von, að fjvn. og þessi hv. deild geti sjer þann orðstír nú við umr. og atkvgr., sem ætlast er til, að þessi deild sjerstaklega geti sjer, sem hin aðgætnari þingdeild, sem jafnan stöðvi, þegar hin deildin sýnist fara ógætilega, og sjerstaklega í fjármálum, ef hún virðist hafa gengið lengra á leið útgjalda en heppilegt er fyrir fjárhag ríkissjóðs og gjaldþol landsmanna.