24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (1977)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Tryggvi Þórhallsson:

Mjer þykir að öllu athuguðu rjett að þakka hv. nefnd að nokkru leyti fyrir afgreiðslu málsins, þótt jeg hefði kosið hana mjög á annan veg. Hún er þó að minsta kosti betri en í fyrra, því að þá dagaði frv. uppi hjá nefndinni. Að vísu verður varla sagt, að afgreiðslan hafi verið mjög fljót nú, því að nú eru 40 dagar síðan frv. fór til nefndar. Þess skal þó getið, að hún hefir afgreitt það frá sjer fyrir nokkrum dögum, enda þótt það hafi eigi komist fyr á dagskrá. En það verður varla sagt, að hv. nefnd hafi verið mjög mjúkhent við frv. mitt, því að nú er víst ekkert orðið eftir nema ein grein og orðið „áburður“, og þó er búið að takmarka það nokkuð.

Hv. landbn. hefir gengið að einu leyti lengra, en um tvent skemra, en jeg. Lengra að því leyti, að hún vill, að með þann áburð, sem á annað borð lendir undir opinberri verslun, verði einkasala. Því fer fjarri, að jeg hafi nokkuð við þetta að athuga, en jeg vildi ekki bera það fram, sakir þess að jeg hjelt, að fyrir meiri hl. þessarar hv. deildar væri það frumboðorð að vera á móti einkasölu, hverju nafni sem nefnist. Jeg er ekki í þeim hóp, sem ekki þolir að heyra einkasölu nefnda, og get um þetta verið sammála nefndinni. Um þetta hefir nefndin farið lengra en jeg. Jeg hugði raunar, að svona marki mætti ná með öðru móti, en geri það þó ekki að ágreiningsatriði.

Þá hefir nefndin í tvennu farið skemra en jeg vildi. Jeg lagði til í fyrra og nú aftur, að ríkið gerði ráðstafanir til, að áburðurinn yrði með sama verði á öllum höfnum landsins, og álit tiltækilegast að gera það svo, að ríkið sæi fyrir flutningnum. Það, sem lá til grundvallar fyrir þessu, var nauðsyn á því, að bændur lærðu að nota áburðinn, eða það sama eins og þeim gekk til, sem fluttu gaddavírslögin forðum. Sá jeg, að fullur skilningur á þessu kom fram í hv. nefnd. En það get jeg alls eigi viðurkent, sem fram kom í orðum háttv. frsm: (JS), að þetta eigi skylt við ölmusugjafir. Þetta er eigi annað en kensla og auglýsing, til þess að koma af stað stórfeldum framförum í ræktun landsins, og er eins fjarskylt betli eins og allar slíkar ráðstafanir. Mjer þykir mjög leitt, að hv. landbn. hefir eigi getað fallist á þessa till. mína. Því að eins og jeg er sannfærður um, að það er gaddavírslögunum mjög að þakka, hve mikið nú er búið að girða af túnum og öðru landi hjerlendis, eins er jeg viss um, að þetta frv., ef að lögum yrði, mundi auka stórkostlega ræktun landsins.

Þá er það og á öðru sviði, sem nefndin fer mjög mikið skemra en jeg gerði í frv. mínu. Jeg vildi, að skipulagið næði til alls áburðar, útlends og innlends, en hv. nefnd vill einskorða það við eina tegund, — að vísu þá þýðingarmestu, — köfnunarefnisáburð. Þarna fer nefndin mun skemra, og þykir mjer það leitt, því að þar með þrengist enn gagnið, sem að þessu hefði orðið. Hygg jeg þessa þrengingu að mörgu leyti óviturlega. Afleiðingin af því, að Búnaðarfjelag Íslands eða hæstv. landstjórn tæki að sjer söluna, yrði eflaust sú, að lestuð yrðu sjerstök skip til að flytja áburðinn hingað. Þá er ljóst, að best hefði verið að geta flutt aðrar tegundir tilbúins áburðar á hina sömu staði um leið. Annars gæti komið fyrir, að menn næðu ekki í nema þessa einu tegund. Og það hygg jeg, að bæði hv. frsm. (JS) og aðrir viti, að getur verið stórhættulegt. Þetta er að vísu besta áburðartegundin, en sje hún notuð einsömul, getur það orðið til þess, að tappa úr jarðveginum ýms efni, sem nauðsynleg eru, og að endingu eyðilagt hann mjög. Getur þá farið svo eftir nokkur ár, að uppskera bregðist gjörsamlega. Þó má vera, að þessi uggur minn sje ástæðulítill.

Um þessi tvö atriði þykir mjer nefndin hafa gengið of skamt, og vildi jeg auðvitað heldur halda fast við mínar till. En mjer er það fullljóst, að hjer á jeg ekki völina milli þess, hvort jeg fái mitt frv. eða hv. nefndar, heldur hvort jeg vil frv. nefndarinnar eða ekki neitt. Þar sem það er þó spor í áttina, mun jeg greiða till. hv. landbn. atkv., því betri er ein kráka í hendi en tvær í skógi.

Geri jeg ekki ráð fyrir að þurfa að segja mikið meira um þetta mál, en vil að lokum geta þess, að hv. landbn. sneri sjer til stjórnar Búnaðarfjelagsins um upplýsingar í þessu máli. Gaf hún hv. nefnd skýrslu í þessu máli, og ennfremur fjekk hún rækilega skýrslu frá einum starfsmanni fjelagsins, sem hefir kynt sjer þetta mál mjög rækilega erlendis, af hálfu stjórnar Búnaðarfjelagsins.

Stjórn Búnaðarfjelagsins taldi sjer skylt að láta í tje þær upplýsingar, sem henni var unt, og gerði sjer far um að segja sem hutlausast frá. Hefir háttv. nefnd fengið þær upplýsingar, sem hún óskaði, og tel jeg víst, að hún muni standa fyrir svörum.