24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (1980)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Jeg skal byrja á því að svara hv. 2. þm. Rang. (KlJ). Honum þótti hörð orð sögð í nál. En alt, sem þar stendur, er bygt á skýrslu Búnaðarfjelagsins og skjölum, sem lágu fyrir nefndinni. Jeg skal ekki neita því, að þetta eru hörð orð, en því miður held jeg, að þar sje ekkert of mælt. Það er talað um í nál., að framkvæmdastjórinn hafi líklega gert þetta viljandi, það þori jeg óhræddur að standa við. Þá er þess og getið, að hann hafi dulið Búnaðarfjelagsstjórnina þessa nær hálft annað misseri. Því viðvíkjandi get jeg vísað til þeirra upplýsinga, sem nefndin hefir fengið. Umboðinu var slept 7. mars 1925, en Búnaðarfjelagsstjórnin fær ekkert að vita um það fyr en 15. desember sama ár. Hún er látin skifta áburðinum milli notendanna, og veit ekki annað en Búnaðarfjelagið hafi umboðið. Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þetta hjer, en er fús á að gefa einstöku þm. upplýsingar um þetta, og þeir geta að sjálfsögðu fengið að sjá skjöl þau og skilríki, sem fyrir nefndinni hafa legið. Að því er snertir orðin í nál., að nefndin gangi út frá því, að Búnaðarfjelagið hafi þeirri framkvæmdastjórn á að skipa, sem treysta megi, hvort beri að skilja þau svo, að þessum manni skuli vikið frá, þá skal jeg geta þess, að nefndin hefir hvorki vald til þess að halda manninum nje reka hann. Það atriði er á valdi stjórnar Búnaðarfjelags Íslands, hún er þar rjettur aðili, og vísast um þetta efni til hennar. Formaður hennar getur svarað því. Jeg skal aðeins geta þess fyrir mína hönd persónulega, að jeg álít, að það geti ekki komið til mála að fela manni, sem slíkt hefir orðið á, framkvæmdastjórn áburðarsölunnar. Aðra framkvæmdastjórn skal jeg ekkert tala um.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að háttv. flm. frv. (TrÞ), þótt þess gerist varla þörf, því að við erum í raun og veru sammála. Hann hefði þó viljað, að nefndin hefði sjeð sjer fært að ganga lengra, aðallega á þann hátt, að ríkissjóður greiddi allan flutningskostnað áburðarins. Hann sagði, að þetta væri bæði kensla og auglýsing. En jeg hygg, að koma mætti þeirri kenslu fyrir á margfalt ódýrari hátt fyrir ríkissjóð. Ef t. d. Búnaðarfjelagið hefði á hendi verklegar leiðbeiningar með að nota tilbúinn áburð. Það gæti og komið til mála, að í afskektari hjeruðum, þar sem tilbúinn áburður er lítið notaður, væri heitið verðlaunum fyrir góða framgöngu í þessum efnum, eða ýta á einhvern annan hátt undir menn að nota hann. Þetta mundi verða ódýrara heldur en ef ríkisjóður greiddi allan flutningskostnaðinn. Auk þess er aðstaðan svo góð í Reykjavík og grend, bæði um verð afurða og margt annað, að það er með öllu ástæðulaust, að ríkissjóður borgi flutningskostnað fyrir búendur þar.

Hæstv. atvrh. (MG) spurðist fyrir um skoðun nefndarinnar, ef tilboð fengist um hæfilegt verð á áburðinum, sem stjórn Búnaðarfjelagsins og atvinnumálaráðuneytið vildi ganga að. Jeg hefi ekki átt tal um þetta við nefndina, en jeg get svarað fyrir mína hönd, að jeg get ekki gert mig ánægðan með það, þótt sæmilegt verð næðist í bili, ef ekki er trygging fyrir því, að það haldist í framtíðinni. Það væri hugsanlegt, að sæmilegt verð næðist fyrir eitt ár eða svo, meðan verið er að losna við ákvæði þessa frv., en svo mundi verða hugsað til að færa sig upp á skaftið á eftir. Jeg álít, að æskilegast sje að ná fulltryggu umboði, svo hægt sje að ráða verði áburðarins og sjá um, að ekki sje okrað á honum.