09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2029)

22. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Hv. frsm. meiri hl. (PO) hefir líklega misskilið mig, þegar jeg talaði um atvinnuvegina í Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfirði. Jeg sagði aðeins, að það hefði verið meiri munur á atvinnuvegum í Gullbringu- og Kjósarsýslu heldur en nú. Hinsvegar hefir þetta altaf verið sjerstakt með Hafnarfjörð. Þar er stórútgerð, mikið af verkafólki, sem hefir annara hagsmuna að gæta heldur en bændur og aðrir smærri atvinnurekendur. Þótt hv. frsm. (PO) benti á, að útgerðin sje sú sama, en í dálítið breyttri mynd, þá verð jeg að segja það, að sá atvinnurekstur er ekki aðallega frá Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þaðan er rekin útgerð frá Reykjavík og Akranesi og miklu víðar að. Jeg ímynda mjer, að sjálfir sýslubúar sjeu færri en þeir aðkomnu um þennan atvinnurekstur. Hinsvegar játaði hv. frsm., að útgerðin hefði minkað og landbúnaður kominn í staðinn.

Jeg sje ekki, að landhelgismálið þurfi neitt að koma þessu máli við, þótt hv. frsm. (PO) drægi það inn í umræðurnar. En þótt við fáum þetta eina skip, þá er langt frá því, að slíkt mál sje komið í það horf, sem við væntum allir. Og það er ekki víst, eins og nú er högum háttað, að upp spretti aftur smábátaútvegur eins og sá, er verið hefir undanfarið. Það breytist altaf í þá átt, að útvegurinn stækkar og stækkar. Þessvegna eru mestar líkur til, að þessi breyting haldi áfram, og það verði einmitt svipaðir atvinnuhættir í báðum þessum sýslum, sem jeg hugsa mjer, að ættu að kjósa sameiginlegan þingmann. Og það eru einnig líkur fyrir því, að Hafnarfjörður haldist eins og er með sínum sjerstöku atvinnuháttum. Jeg býst ekki við, að fjelagið í Viðey fari bráðlega að bæta við togaraflota sinn. Og ýmislegt þarf að gera hjer um nesin áður en togarastöð er sett þar upp. Eftir því sem hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sagðist um útgerðina, þá er ekki líklegt, að hægt sje að ráðast í dýra stöðvarbyggingu, sem þá væri óhjákvæmilegt.

Þá talaði hv. frsm. (PO) um undirbúninginn og kvað hann lítinn. Í því sambandi benti hann á það, sem gerðist fyrir fjórum árum, þegar Húnavatnssýslu var skift. Hv. þm. vildi láta svo líta út, að sá undirbúningur hefði verið mikið betri. Jeg vil leyfa mjer að benda á ræðu þess eina manns, sem hafði á móti þeirri skiftingu, með leyfi hæstv. forseta:

„Mjer virðist sem hv. frsm. og 1. þm. Húnv. styðji þetta frv. með hálfum hug. Það verður heldur ekki annað sagt en að undirbúningnum undir það sje mjög svo ábótavant. Aðeins minst á það á tveim þingmálafundum, sem vjer vitum ekki, hve fjölmennir hafa verið, vantar umsögn sýlsunefndanna og auk þess skiftingin ekki rjettlát, þar sem önnur sýslan er miklu mannfleiri.“

Af þessu virðist mjer, að undirbúningurinn, sem lá fyrir, þegar skifting Húnavatnssýslu fór fram, hafi verið minni en sá undirbúningur, sem hjer liggur fyrir.

Hafi Alþingi þá verið að gera rjett, sem jeg efast ekki um, þá álit jeg, að það geri því aðeins rjett nú, að það samþykki skiftingu Gullbringu- og Kjósarsýslu.

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) fór nokkrum orðum um þetta mál. Kom að því, að kjördæmaskiftingin væri órjettlát, og viðurkendi, að Hafnarfjörður ætti um sárt að binda í þessu efni. Mjer skildist á honum, að hann vildi þó láta alt bíða þangað til kjördæmaskipunin verður endurskoðuð. Þegar maður hefir heyrt menn þing eftir þing halda hrókaræður um það, hvað kjördæmaskiftingin væri óheppileg og órjettlát, en ekkert er gert, þá fer maður að verða vantrúaður á þessa miklu endurskoðun á kjördæmaskiftingunni, sem altaf á að vera væntanleg. Jeg hefi enga trú á, að hún verði framkvæmd á næstunni. Af þeim ástæðum ættu menn því ekki að vera á móti því, ef eitthvað væri hægt að gera til umbóta nú.

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sagði, að ósk um skiftingu hefði aðeins komið fram í Hafnarfirði og af einum manni þar. Það vill nú svo til, að jeg var á þeim fundi, sem hv. þm. talaði um, og mjer og fleirum fanst ekki annað en að það væri almennur vilji fundarins á bak við þennan eina mann. En það er skiljanlegt, að þessi rödd komi fram einmitt á þessum stað. Hversvegna? Það eru Hafnfirðingar, sem búa við rangindin. Eðlilegast að krafan komi frá þeim.

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) virðist vefengja, að það sje eindreginn vilji bæjarfulltrúa, að skifting fari fram. Jeg hefi ekki annað fyrir mjer en þetta plagg, sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefir sent Alþingi, en þar verður ekki sjeður neinn ágreiningur. Hinsvegar held jeg, að jeg megi fullyrða, að ekkert atkv. bæjarstjórnarinnar hafi verið móti þessari till. og hún hafi verið samþykt með öllum samhljóða atkv. Jeg geri minna úr því, hvað bæjarfulltrúarnir hafa sagt út í frá. Á þessari úrslitastund held jeg að þeir hafi ekki látið neitt í ljós, að þeir væru mótfallnir skiftingu.

Þá skal jeg víkja að mannfjöldanum í þessu kjördæmi. Þótt kjósendatalan í Hafnarfirði sje ekki nema 2300 nú sem stendur, þá munu þeir verða mun fleiri að ári. Jeg ímynda mjer, eftir því sem mjer hefir talist til, að kjósendatala í hlutfalli við mannfjölda sje um 50%. Við síðasta manntal í Hafnarfirði voru íbúar 3000. Þá ættu kjósendur þar að vera 1500. Að þeir eru ekki allir komnir á kjörskrá stafar af því, að á síðustu árum hefir fólkið verið að flytjast unnvörpum til bæjarins, og eru margir ekki búnir að ná kosningarrjetti þar ennþá. Jeg hygg, að kjósendatalan ein út af fyrir sig sje villandi, og mætti miklu fremur segja, að kjósendatalan í Hafnarfirði væri 1500, en annarsstaðar 1700, sem svarar nokkuð líkt til heildartölunnar. Og mismunurinn á mannfjölda í bænum og sýslunni er vissulega ekki eins mikill og menn vilja vera láta, alls ekki meiri en í mörgum kjördæmum á landinu. Ekki er nema einn þingmaður fyrir Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, en þar munu vera, að jeg hygg, nær 4000 manns.

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) kom inn á atvinnureksturinn í Hafnarfirði og kvað hann ekki mundu standa eins föstum fótum og atvinnurekstur í sýslunni. Það má nú slá öllu fram, en hinsvegar vonar maður, að atvinnurekstri við sjávarsíðuna hraki ekki svo.

Því ef það verður, þá kemur sennilega mjög alvarlegt ástand, ekki einungis yfir Hafnarfjörð, heldur marga aðra kaupstaði. Jeg sje ekki ástæðu til að ætla, að hann standi ekki föstum fótum. Náttúrlega koma tímabil og tímabil, þegar erfiðar gengur, en menn mega ekki fyrir það missa vonina um það, að atvinnuvegirnir geti staðið sig.

Hv. þm. lýsti því yfir, að hann hefði talað við menn úr sýslunum, og þeir væru allir á einu máli og á móti þessu. Jeg get vel trúað því og þótti það ekki ólíklegt, að íbúar Gullbringu- og Kjósarsýslu vildu ekki sleppa því fyrirkomulagi, sem nú er, sjerstaklega þegar um er að ræða aðeins tvo þingmenn.

En spurningin er sú, hvort ekki sje rjettara að skifta kjördæminu eins og jeg fer fram á heldur en láta það haldast óbreytt. Jeg fyrir mitt leyti er í engum efa um, að skiftingin er rjettlátari.

Þá skildist mjer hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) leggja mikla áherslu á, að frv. þetta væri aðeins borið fram fyrir einn flokk, jafnaðarmenn í Hafnarfirði, sem ekki væru nema 6–8 hundruð manna. Jeg sje ekki, að frv. þurfi að vera rangt fyrir það, og það út af fyrir sig getur engin ástæða verið til að vera á móti því, þar sem líka sýnilegt er, að það fer í rjettlætisáttina.

Þá sagði þessi hv. þm., að hann hefði með gleði greitt atkvæði með frv., sem farið hefði fram á fjölgun þingmanna þannig, að Gullbringu- og Kjósarsýsla hefði fengið 2 þingmenn, en Hafnarfjörður 1, og spurði jafnframt, hversvegna jeg hefði ekki komið fram með slíkt frv. Að jeg kom ekki fram með frv., sem gekk í þá átt, var fyrir þá sök; að jeg hefi heyrt utan að mjer svo megnan andróður gegn fjölgun þingmanna. Jeg vil nú skora á þennan hv. þm. að koma sjálfur fram með slíkt frv.; jeg get strax gefið honum loforð um að fylgja því. Jeg játa sem sje fúslega, að fjölgun þingmanna þannig er fullkomlega rjettlát. En fyrir því flutti jeg frv., að jeg taldi með því náð dálitlu rjettlæti, þó að því væri þar með ekki fullnægt.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) vil jeg segja hið sama og hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), að komi hann fram með frv. eða brtt. við frv. þetta um fjölgun þingmanna í Eyjafjarðarsýslu, þá mun jeg fá málið tekið af dagskrá nú, svo framarlega sem þetta hefir ekki alt verið sagt út í loftið hjá þessum hv. þingmönnum. Þar sem menn þessir eru úr tveimur höfuðflokkum þingsins, má telja víst, að slíkar tillögur næðu fram að ganga, svo framarlega sem þeim er þetta nokkur alvara.