01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

1. mál, fjárlög 1927

Forsætisráðherra (JM):

Jeg hefi raunar engu að svara háttv. 1. landsk. (SE). Jeg hygg, að við sjeum samdóma um skrifstofukostnað sýslumanna og bæjarfógeta. Báðir álítum við fjárveitinguna áætlunarupphæð. En dómsmálaráðherra er alls ekki bundinn við fjárveitingana. Hitt er annað mál, að jeg tel sjálfsagt að fara svo nálægt hinni áætluðu upphæð, sem hægt er. En jeg hygg, eins og jeg sagði fjvn Nd., að upphæð sú, sem bætt hefir verið við, muni verða nokkurnveginn nægileg fyrir skrifstofukostnaðinum. Það er rjett hjá hv. 1. landsk., að sýslumenn taka oft á móti fólki og hafa kostnað af því. En þetta er ekki annað en segja má um alla eða flesta embættismenn utan Reykjavíkur. Þeir hafa meiri og minni kostnað af gestum. En við hitt vil jeg ekki kannast, að sýslumenn og bæjarfógetar sjeu olnbogabörn þjóðarinnar. Jeg býst við, að það verði erfitt að skoða það svo.

Þá kem jeg að háttv. 3. landsk. (JJ). Hann segir, að sendiherrahúsið í Höfn hafi verið ríkiseign. En þetta er fjarri öllum sanni. Það hefir aldrei verið eign ríkisins. En viðvíkjandi uppbótinni, sökum þess að húsið seldist ekki fyrir það verð, sem það upphaflega kostaði, þá er það aðeins tilviljun, sem átti við um öll hús þar í borginni um það leyti. Það var alveg óþarft fyrir þennan hv. þm. (JJ), að vera að taka þykkjuna upp fyrir Jón Krabbe. Allir, sem starfað hafa með þessum manni, viðurkenna ágæti hans. Hefi jeg tekið það fram áður, að jeg teldi hann góðan Íslending, enda þótt hann væri ekki íslenskur þegn. En jeg býst ekki við, að hægt sje að tala við þennan hv. þm. (JJ) um muninn á því að hafa fyrir sendiherra íslenskan þegn eða útlendan, því að hann skilur það ekki. En sem umboðsmaður okkar hefir Jón Krabbe haldið uppi rjetti landsins sem hinn besti Íslendingur. Og í sjálfstæðisbaráttunni stóð hann ætíð okkar megin og gerði þar engu minni kröfur en við hjer heima. — Þá þykist háttv. þm. ekki hafa heyrt um brjef Krabbe, þar sem hann segist ekki geta gegnt sendiherrastöðunni lengur. Ætli ekki? En það þýðir ekki að deila um það við hann.

Enn talar þessi sami þm. um stefnubreytingu. En hann ætti sem minst um hana að tala, því að þá má alveg eins segja, að hún hafi eins komið fram hjá hans eigin flokksmönnum. Því að það hefir sýnt sig, að sumir af hans flokksmönnum í hv. Nd. eru nú með sendiherra. En í sjálfu sjer er ekkert við því að segja, þótt hjer hefði orðið stefnubreyting, því að þegar menn komast að þeirri niðurstöðu, að nauðsynlegt sje að hafa sendiherra, að minsta kosti á einum stað, eiga þeir að vera svo miklir drengir að kannast við það, þótt þeir væru á annari skoðun áður. En það er hverjum manni mikill heiður að fara eftir því, sem hann álítur rjettast og best. Og jeg veit, að hv. 3. landsk. er sannfærður um það í hjarta sínu, að rjett sje að taka upp sendiherraembættið. Háttv. þm. segir, að þessi till. sín sje mesta sparnaðartill., sem nú liggi fyrir. En það er alveg þveröfugt. Það er einmitt hinn mesti ósparnaður að spara þetta. Það hefir borgað sig að hafa sendiherra og það mun sýna sig, að það er beinlínis fjárhagslegur gróði.

Það, sem þessi háttv. þm. sagði um kúgun af hálfu hæstv. fjrh., er bara rugl. Fjrh. var ekki að skipa þinginu neitt; hann skoraði aðeins á það að fella þessa umræddu liði burt. Það er auðvitað alt undir þinginu komið, hvort það vill gera það eða ekki.

Þá segir hv. þm. (JJ), að enginn munur sje á ríkissjóði alment og viðlagasjóði. En annaðhvort talar hv. þm. hjer á móti betri vitund eða hann skilur alls ekki hvað meint er með viðlagasjóði. En við hvorutveggja þessu má búast frá hans hlið. Því að ef ríkissjóður og viðlagasjóður eru hið sama, má fult eins vel álíta, að landhelgissjóður og ríkissjóður sjeu hið sama. Ef þingið vill veita styrk, á það að veita hann úr ríkissjóði.

Þá voru það nokkur orð viðvíkjandi tryggingunni fyrir íshúsin. Mjer er alveg óskiljanlegt, hvað því er til fyrirstöðu, ef ríkissjóður veitir lán til íshúsbyggingar, að veðsetja lánveitanda húsið, þó að ábyrgð frá sýslunefnd fylgi. Þannig lána bankarnir ætíð með veði í fasteignum, enda þótt ábyrgð fylgi. Það verður aðeins til þess, að ábyrgðin verður ljettari á sveitarfjelaginu. Sú trygging, sem lánveitandi hefir, kemur þannig ábyrgðarmanni til góða. Það er því alveg misskilningur, að nokkuð sje athugavert við þetta. (JJ: Það er samt mikið deilumál um þetta milli Húnvetninga og stjórnarinnar). Það er þá aðeins sami misskilningurinn hjá Húnvetningum og hjá hv. 3. landsk. Mjer þykir undarlegt, að þessi misskilningur skyldi koma fram hjá Húnvetningum, en aftur á móti er ekkert undarlegt, þó 3. landsk. skilji þetta ekki, enda er hann þektur að því að skilja hvorki upp nje niður, jafnvel í hinum einföldustu málum.