12.04.1926
Efri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (2067)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Frv. Þetta á þskj. 307 flytur meiri hl. mentmn. að tilhlutun hæstv. kenslumálaráðherra (JM), og get jeg látið mjer nægja að vísa til greinargerðar þeirrar, er frv. fylgir.

Frv. þetta var borið fram á þinginu í fyrra sem stjfrv., og eina breytingin, sem á því hefir verið gerð, er sú, að ríkið taki eigi aðeins að sjer kvennaskólann í Reykjavík, heldur líka Blönduósskólann.

Málið var rætt allmikið og ítarlega á síðasta þingi, og á þessu stigi málsins finst mjer nægja að vísa til umræðnanna um málið þá og greinargerðar þeirrar, sem þá fylgdi frv. En jeg vil hjer með láta ánægju mína í ljósi yfir því, að hæstv. stjórn hefir nú sjeð sjer fært að ganga lengra með því að gera einnig kvennaskólann á Blönduósi að ríkisskóla. Forstöðunefndir beggja skólanna eru ánægðar með frv. eins og það er, og er mjer sjálfri mjög ljúft að mæla með því fyrir hönd mentmn. þessarar hv. deildar.

Eins og jeg gat um í upphafi, ætla jeg ekki að fjölyrða um málið að þessu sinni, en þó vil jeg minnast á 2. gr. þess fáum orðum. Þar er gert ráð fyrir því, að ríkisstjórnin semji reglugerð fyrir skólann í Reykjavík og hafi yfirstjórn hans á hendi. Jeg tel þetta æskilegt, þar sem skólinn er undir handarjaðri stjórnarinnar, en um Blönduósskólann er öðru máli að gegna vegna fjarlægðar, og þarf hann því að njóta eigin skólanefndar eftir sem áður, þótt ríkið taki hann að sjer.

Eins og jeg drap á fyr, voru umræður um málið margbreyttar í fyrra, og tel jeg óþarft að rifja þær hjer upp, enda munu þær flestum þdm. í fersku minni. Mjer finst horfa vænlega fyrir frv. nú, og jeg álít það heillavænlegt, að skólarnir starfi báðir framvegis undir eftirliti ríkisstjórnarinnarað góðri sjermentun kvenna.