12.04.1926
Efri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (2079)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Háttv. 3. landsk. (JJ) hættir oft við að rugla mörgu saman, jafnt þingsköpum sem öðru. Jeg held, að það sje varla rjett, að málið gangi á milli nefnda. Hitt er annað mál, að spyrja mætti hv. fjhn. um hin fjárhagslegu atriði frumvarpsins.

Hvað launin snertir, þá er þeim haldið líkt í frumvarpinu og þau eru nú, að viðbættri dýrtíðaruppbót. Sjeu launin því sæmileg nú, jafnt við Blönduós sem Reykjavíkurskólann, ættu þau að vera rífleg eftir frumvarpinu.

Samanburður þessa háttv. þm. (JJ) um launakjör embættismanna í kaupstöðum og kauptúnum held jeg að hafi ekki verið heppilegur. Háttv. þm. hefði heldur átt að bera saman launakjör kennara í Reykjavík og kennaranna við búnaðarskólana og Eiðaskólann. Það hefði verið dálítið meira vit í því.

Annars held jeg, að svo sje um þetta mál sem fleiri, að það græði ekki á löngum umræðum. Í ræðum þeirra hv. 1. landsk. (SE) og hv. 3. landsk. (JJ) hefir ekki komið neitt nýtt í málinu. Það, sem þessir háttv. þm. eru að blanda hjer inn í stefnuskrá Íhaldsflokksins, þá sýnist mjer það ástæðulaust. Slík mál sem þessi ættu að vera laus við flokkadeilur, en hv. þm. hættir við að koma flokkapólitíkinni að í svo að segja hverju máli.