26.04.1926
Efri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (2094)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Það var talað um það við 2. umr., að húsmæðraskólinn við Akureyri væri mjer viðkomandi. En svo er ekki. Sá skóli heyrir ekki undir mína deild í stjórnarráðinu. Allir reglulegir húsmæðraskólar heyra undir búnaðarmálaráðuneytið, og getur hv. þm. snúið sjer þangað, ef hann óskar upplýsinga um það mál. En þó að skólinn á Blönduósi hafi færst nokkuð í það horf að verða húsmæðraskóli, er hann samt sem áður almennur skóli. Hvað snertir sjóð kvennaskólans í Reykjavík, þá mun hann vera um 20 þús. kr. Enn var spurt um skuldir Blönduósskólans. Þær munu vera um 7 þús. kr. og hvíla á húseigninni þar. Jeg hygg, að þar sje ekki um aðrar skuldir að ræða, en jeg skal þó ekki fullyrða það. En fyrir utan sjóðina, sem nefndir eru í 1. gr., eru og aðrir sjóðir, er snerta nemendur og standa undir stjórn skólanefndar.

Hygg jeg svo, að jeg þurfi ekki að tala neitt frekar í þessu máli.