07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

1. mál, fjárlög 1927

Jakob Möller:

Jeg heyrði því miður ekki, hvað hv. frsm. (ÞórJ) sagði um brtt. mína á þskj. 514, sakir þess, að jeg var þá á fundi í fjhn. — Gagnstætt hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hafði jeg hugsað mjer að vera góða barnið í dag og taka aftur brtt., ef loforð fengist um, að upphæð þessi yrði greidd með einhverju móti. — Hv. þd. mun kunnugt, að hv. þm. Dal. hefir nú verið veikur í nær þrjú ár. Einnig mun hv. þd. kunnugt, að það er álit lækna, að hann geti náð fullri heilsu aftur, ef honum gefst kostur á, að dvelja um hríð í Suðurlöndum. Þessi maður á þá sögu að baki, að Alþingi getur ekki látið ógert að veita honum þessa litlu fjárupphæð, ef vera mætti, að það yrði til þess, að hann fengi bót heilsu sinnar. Þótt ekki sje nefndur nema einn þáttur starfsemi hans, afskifti hans af sjálfstæðismálum þjóðarinnar, þá mun hann af flestum talinn svo mikilsverður, að Alþingi er skylt að láta það sjást í einhverju, að það kunni að meta það starf hans. En nú er það orðið að samkomulagi hjá hv. fjvn. að ganga að fjárlögunum óbreyttum frá hv. Ed. Jeg get því fallist á að taka brtt. mína aftur, ef jeg fæ vilyrði fyrir því, að upphæð þessi verði greidd. Vil jeg því leyfa mjer að spyrja hæstv. stjórn, hvort hún sjái sjer ekki fært að greiða þessa upphæð upp á væntanlegt samþykki í fjáraukalögum fyrir 1926. Ef slík yfirlýsing kemur, tek jeg till. aftur. Annars læt jeg hana koma undir atkv., og verður þá að ráðast, hvernig hv. deild metur skyldur sínar við Bjarna Jónsson frá Vogi.