19.04.1926
Neðri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í C-deild Alþingistíðinda. (2400)

6. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Jeg skal lofa, að vera ekki margorður að þessu sinni, eða að minsta kosti byrja jeg mál mitt með þeim ásetningi, að lengja ekki þessar umr. um of, þrátt fyrir það, að háttv. frsm. minni hl. (ÁÁ) hafi haldið allskörulega ræðu og hafi veitst allfast að frv. og okkur forsvarsmönnum þess. Jeg ætla mjer ekki að fara langt út í það að athuga ræðu hans, þar eð mjer virtist svo sem hann í lok máls síns tæki aftur, eða að minsta kosti drægi mjög úr flestu því, sem hann hafði í upphafi ræðunnar varið mikilli mælsku og andagift til að hlaða upp; þetta reif hann alt niður aftur, áður en hann settist niður.

Háttv. frsm. minni hl. (ÁÁ) fór m. a. mörgum orðum um afleiðingar þess, að latínukensla yrði tekin upp aftur gegnum allan skólann. Afleiðinguna sagði hann verða mundu andlega afturför (reaktion) á ýmsum sviðum, auk ýmislegs fleira ills, sem af þessu leiddi. En í ræðulokin játaði hann þó, sem rjett var, að þetta væri í rauninni fremur lítilvægt atriði. Hann játaði þá, að það, sem meira væri um vert en það, sem kent væri í skólanum, væri skólalífið, sambandið milli kennara og lærisveina og sá andi, sem ríkjandi yrði í skólanum. Þetta væri meira vert en hitt, hvaða námsgreinir væru kendar í skólanum, og var það alveg rjett. En með þessu gerði hann að engu það, sem hann hafði sagt í upphafi ræðu sinnar. Hann lagði áherslu á, að eitthvað hlyti að vera á bak við frv., sem ekki væri enn komið í ljós; málið væri svo fráleitt, og hefði hvað eftir annað verið flutt inn á þing, þrátt fyrir illar undirtektir. Það væri gott að fá að vita, hvað háttv. þm. (ÁÁ) á við með þessum orðum sínum. Hvaða ljónagryfja heldur hann að sje falin á bak við þetta frv. Jeg veit að vísu, að málið hefir tvisvar verið flutt hjer á þingi sem stjórnarfrv., af sama kenslumálaráðherra, og jeg sje ekkert undarlegt við það, eða þó að ýtt hafi verið undir frv. af sama manni, sem hefir borið þetta mál fram og barist fyrir því þing eftir þing.

Hann talaði um vígi latínunnar, sem hefði verið yfirgefið, og þann fítonsanda, sem nú væri hlaupinn í menn til þess að fá skólanum breytt aftur í sitt fyrra horf. Þó sagði hann, að menn væru enn á ný farnir að falla burt frá trúnni á latínuna og meðal þeirra væri t. d. jeg. Það, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni, var þvert öfugt við það, sem háttv. þm. (ÁÁ) segir mig hafa sagt. Jeg sagði, að í fyrstu hefði jeg lagt lítið upp úr þessu atriði, latínunni, en við það að fást meira við málið, hefði jeg komist að þeirri niðurstöðu, að mikið væri áunnið við að fá latínukensluna aukna í skólanum. Þessvegna fer hv. þm. með staðleysur, er hann talar um, að jeg hafi flúið úr því vígi, sem jeg í fyrstu hefði einsett mjer að verja.

Að öðru leyti held jeg, að rifrildi um frv. hafi mjög litla þýðingu úr þessu. það fer mjög fyrir ofan garð og neðan hjá sjálfu málefninu. En mjer virtist ein aðalástæða háttv. þm. móti latínunámi vera ástæða, sem jeg get á engan hátt tekið sem góða vöru, — hann taldi breytingar á skólum alveg nauðsynlegar, annars yrði úr þessum málum eintóm kyrstaða. Það, sem nú þyrfti að breytast, væri latínan; hún þyrfti alveg að hverfa. Ummæli próf. Bjarnar Ólsen um, hvað menn kynnu lítið í latínu, í samanburði við þá fyrirhöfn, sem varið hefði verið til kenslunnar og námsins yfirleitt, hafa öfugt sönnunargildi við það, sem háttv. frsm, minni hl. (ÁÁ) vildi láta þau hafa. Það, sem jeg tel latínunni til gildis, er það, hversu erfið hún er. Menn komast þar í þá eldraun, sem þeir hafa mjög gott af. Það er ekki það eitt, að læra latínu til þess að geta talað hana og skrifað, — til þess eru önnur mál bæði auðveldari og miklu hagnýtari nú orðið, — en það er hitt, sem jeg legg áherslu á, og aðaláhersluna. Æfingin, sem menn fá við að fást við svona erfitt mál, hefir góð áhrif á þroska og skilning nemendanna.

Háttv. frsm. minni hl. (ÁÁ) gerði meira að því en rjett er, af jafngáfuðum manni og hann er, að búa til ýmsar ástæður og grýlur, sem okkur hafa aldrei dottið í hug, og berjast síðan við þær af mestu grimd. T. d. talaði hann um þá lítilsvirðingu, sem kæmi fram hjá okkur meðhaldsmönnum frv. á gagnfræðamentuninni. Hann sagði, að við vildum skifta þjóðinni í tvo flokka, — öðru megin væri sauðsvartur almúginn, með gagnfræðamentunina, sem auðvitað væri fullgóð fyrir þann flokkinn að okkar áliti, — en hinu megin væri hinn tígulegi flokkur hinna gullvægu vísindamanna. Við höfum aldrei sagt neitt, sem gæti rjettlætt þetta. Við höfum aðeins bent á, að skólarnir yrðu að vera með mismunandi sniði og fyrirkomulagi, eftir því hvort þeim væri ætlað að búa — nemendurna undir gagnfræðapróf aðeins, eða stúdentspróf. Hann talaði eitthvað um andlegan skríl, þ. e. gagnfræðinga. Þetta er hugarburður háttv. þm. (ÁÁ). Það hefir aldrei fallið eitt einasta orð frá mjer eða öðrum af samherjum mínum í þessu máli, sem rjettlætti þetta. Hann sagði, að latínan hefði fallið vegna þess, að hún hefði verið hætt að vera lengur hagnýtt mál. Þetta getur vel verið. En það kemur oft fyrir, að góð málefni falla einmilt vegna kosta þeirra. Það er ekki ólíklegt, að latínan hafi fallið vegna þess, hve hún þótti erfið viðfangs, og meiri hluti nemenda átti fult í fangi með að læra það, sem af þeim var krafist í málinu. En ef latínan er annar eins viðsjálsgripur og háttv. frsm. minni hl. (ÁÁ) segir, því á þá að vera að halda í nokkra kenslu í henni í skólunum? Ef það er rjett, sem rektor hefir sagt, að latínukensla sú, sem nú er aðeins í 3 efri bekkjum skólans, komi að talsverðu gagni, því má þá ekki breyta svo til, að gagnið verði ennþá meira, með því að auka kensluna í latínu? Ef latínan er ekki hagnýtt mál, er gagn hennar aðallega fólgið í þeirri þjálfun, sem hún veitir nemendunum við námið yfirleitt, og því kemur ekki til mála að vera andvígur latínukenslu, vegna þess að hún veiti nemendunum góðan styrk og æfingu í því að fást við erfið viðfangsefni.

Háttv. frsm. minni hl. (ÁÁ) sagði, að óskifti skólinn væri illa víggirt vígi, og þyrftu varnirnar umbóta við, ef þær ættu að fá staðist áhlaup. Þó færði hann engin rök fyrir þessu. Jeg hefi fyrir satt, að nefnd, sem skipuð var í Danmörku til að íhuga þessi mál, hafi komist að þeirri niðurstöðu, að meiri tíma þyrfti til undirbúnings undir stúdentspróf í skiftum en óskiftum skóla. Ef skóla væri skift, gerði nefndin ráð fyrir 7 ára námi, en taldi mega komast af með 6 ár í óskiftum skóla. — það er alt annað, hvort hægt er að komast af með níu ára nám í skiftum skóla, heldur en hvort nægilegt sje að hafa tvo þriggja ára skóla. Mjer finst það styrkja það, sem nefndin hefir komist að.

Jeg sagði, að það væri óheppilegt, að neðri bekkirnir væru ljettir, en efri bekkirnir þungir, sjerstaklega 4. bekkur. Hv. þm. reyndi að hnekkja þeirri ástæðu með því að segja, að það mætti ráða bót á þessu með því að byrja á þýsku í 3. bekk. Þetta er náttúrlega rjett. Svo hefir Þorl. H. Bjarnason stungið upp á að byrja líka á latínu í 3. bekk. Og þá fer nú gagnfræðasvipurinn að fara af, þegar ófreskjan er þar inn komin.

Svo er stungið upp á að hafa aðeins bekkjarpróf upp úr 3. bekk. Í Svíþjóð, þar sem námið er svona, þá er skólinn óskiftur. Þá er ekkert eftir annað en að stíga sporið út og samþykkja þetta frv. Einmitt þetta, að gefa eftir, það sýnir, að málstaðurinn er veikur. Það eru miklir örðugleikar á skiftingunni, og menn finna, að hjer þarf að ráða bót við. En það er alls ekki hægt, nema með því að víkja frá þeim grundvelli, sem þessir örðugleikar byggjast á.

Hv. þm neitaði algerlega muninum á gagnfræðanámi og vísindanámi. Hafði hann þar mikið til síns máls, vegna þess að hann var að berjast á móti einhverjum ímynduðum mótmælum, sem jeg hefi aldrei heyrt koma fram. Fór hann náttúrlega ákaflega háðulegum orðum um þessa „sauðsvörtu“ og „forgyltu“, sem væru tveir alveg ólíkir flokkar. Hv. þm. neitaði þessum mismun, en hann færði engin rök með þessu.

Hv. þm. sagði einmitt, að embættismennirnir yrðu að koma út í lífið með gagnfræði frá Háskólanum. Þetta kemur alveg heim við það, sem jeg sagði. Það er bara sá munur, að sá gagnfræðaskóli, sem býr ekki undir neinn annan skóla, en kennir það, sem koma má að gagni í lífinu, hann hefir svo að segja sinn tilgang fólginn í sjálfum sjer, en hinn skólinn býr eiginlega undir það, að geta í Háskólanum numið þær gagnfræðagreinar, sem snerta hans starf í lífinu, og eins og hv. frsm. minni hl. (ÁÁ) sagði, eiga að koma með út í sinn verkahring í lífinu. Sá skóli er bestur til þessa undirbúnings, sem gerir menn hæfasta til þess að geta tekið á móti þessu gagnfræðanámi Háskólans, ef nota má það orð. Og þetta gerir alveg eðlilegan þann mismun þessara tveggja tegunda skóla, sem aldrei verður hægt að skafa alveg út. En það á í sjálfu sjer ekkert skylt við það, að einhver eðlismunur sje á vísindanámi og gagnfræðanámi, og því síður, að annað sje göfugt, en hitt ógöfugt. — Aðalmunurinn er sá, að annar skólinn er gagnfræðaskóli, en hinn býr undir gagnfræðaskóla.

Hv. frsm. minni hl. (ÁÁ) gat ekki annað en komið auga á og viðurkent tvö góð atriði í þessu frv., þótt hann líti það annars litlu velvildarauga, sem sje að auka leikfimiskenslu og að hafa heimavistir. Út frá því komst hann inn á það, að það sje mest virði af öllu, að allur skólabragur geti verið sem allra bestur. Þetta tel jeg rjett. Jeg tel það meira virði, hvernig það er kent, sem kent er, og hvaða gagn það færir nemöndum. Þar fyrir er auðvitað ekki sagt, að það sje öldungis sama, hvað kent er.

Hv. þm. var að gefa þingdeildarmönnum brýningu út af því, að feld var þessi sanngjarna fjárveiting, sem mentamálanefnd óskaði eftir handa tveimur stundakennurum skólans, Jeg ætla síður en svo að draga úr þeirri brýningu. En hv. þm. var að rökstyðja með þessu, hvað afskaplegur kostnaður myndi leiða af breytingunni, því samkv. upplýsingum frá rektor mentaskólans, þyrfti að bæta við 7 föstum kennurum. Þetta er misskilingur. Hv. deild þarf ekki að láta hræða sig frá að samþykkja frv. af þeim ástæðum. Það liggur í augum uppi, að það versta, sem orðið getur, að því er kostnaðinn snertir, er það, að aðsókn verði hin sama og áður. Og þá þarf sama kennarafjölda. það kemur ekki til mála, að fleiri kennara þurfi, þótt breytt sje um námsgreinar. Búast má heldur við, að þeim fækki. Auk þess er ekki farið fram á að skifta nema tveimur efstu bekkjunum, í staðinn fyrir að nú er skift þremur. Þessi misskilningur hv. minni hl. stafar af því, að hann athugar ekki, að þótt skipa eigi fasta kennara til þess að kenna alt, sem kenna á í skólanum, en nú sje það ekki, þá er það bara í orði, en ekki á borði. Það eru sem sje nú þegar fastir kennarar, sem annast alla kensluna við skólann, þótt þeir hafi ekki fengið veitingu. Þeir hafa sömu laun og væru þeir fastir kennarar. Og sje einhver munur í þessu efni, þá er hann óviðkomandi skiftum eða óskiftum skóla, latínuskóla eða latínulausum. Auðvitað þarf að búa jafnvel um kennarana, hvort sem er, og þá þarf þá auðvitað alveg jafnmarga, með hvoru sniðinu sem skólinn er.

Kostnaðaratriðið byggist aðalega á því, hvort aðstreymið eykst eða minkar. það liggur í augum uppi.

Hv. frsm. minni hl. (ÁÁ) var að tala um, hvers vegna ætti að breyta um nafn á skólanum. Jeg gæti eiginlega spurt sjálfan mig sömu spurningar. Þess er í raun og veru engin þörf. Jeg býst við, að nafnbreytingin sje aðeins til að láta það koma í ljós, að skólinn er færður í líkt form og þegar hann bar nafnið „lærður skóli“. Jeg skal játa, að nafnið er nokkuð útlenskuskotið, og er jeg ekki á móti því að kalla hann mentaskóla. Almennur mentaskóli þykir mjer ekki fallegra. En það er hægurinn hjá að koma með till. um nafnbreytingu.

Hv. frsm. sagði, að það væri „reaktion“ að hverfa nú aftur til þess gamla fyrirkomulags. Og sú „reaktion“ átti að vera glötunin sjálf. Það er engin skynsemi í að setja það sem sjálfstæða og algilda reglu, að aldrei megi hverfa aftur til fyrikomulags, sem horfið var frá um stund. Þvert á móti er það eðlilegt. Þegar menn sjá eftir á, að breytingin miðaði ekki til góðs. Þá er ekkert sjálfsagðara en að vera ekki svo hræddur við orð og nöfn, að menn þori ekki að taka upp fyrra fyrirkomulagið, ef þeir eru sannfærðir um, að það sje betra. Í endurlífgun þess eldra getur oft verið fólgin stórkostleg framför. Við þurfum ekki annað en að minna á, að stærsta framfaraaldan, sem hefir yfir Norðurálfuna gengið á síðari öldum, hún er beinlínis runnin frá því, að menn fundu aftur þá fyrri tíma, sem höfðu liðið undir lok í róti þjóðflutninganna. „Renaissancinn“ finnur fornöldina og hverfur til hennar.

Nei, svona grýlu má ekki láta hræða sig. Það þarf í hverju tilfelli að meta það, hvort það gamla sje ekki betra en það, sem búið hefir verið að um stund.

Þótt jeg hafi nú ýmislegt skrifað úr framsöguræðu hv. frsm. minni hl. (ÁÁ), þá held jeg, að jeg sleppi að karpa um það. Jeg nenni ekki að elta ólar við það alt saman, þing eftir þing.

Hæstv. forsrh. (JM) fór vinsamlegum orðum um brtt. meiri hl., og hafði eiginlega ekkert við þær að athuga, nema helst þá, sem fer fram á ívilnun um tímafjölda handa þeim mönnum, sem hafa sjerstaklega mikið af skriflegum úrlausnum. En hann tók rjettilega fram ástæðu okkar, að þetta sje sanngirnisatriði, þó að ekki þurfi að telja það ofraun kennurum, sem hafa miklar stílaleiðrjettingar utan tíma.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) talaði fyrir hönd síns landsfjórðungs og sagði, að stúdentafækkunin mætti ekki byggjast á, að útilokaðir væru stórir partar af landinu. það er svo sem auðvitað. En við höfum fyrir okkur dæmið frá því áður en skólinn varð skiftur, áður en Akureyrarskólinn komst í samband við skólann hjer. Jeg veit ekki, hvort það hefir nokkurn tíma verið rannsakað nákvæmlega, en jeg gæti trúað, að námsmenn hafi verið eins dreifðir þá eins og nú, Heimavistin mun gera mönnum auðveldara að nema hjer, svo að hæfileikamenn geti notið sín, hvort sem þeir eru fátækir eða ríkir. Þá þyrfti námið varla að vera neinum ofraun fjárhagslega. Hitt verður auðvitað bæði hv. þm. og öllum öðrum ofraun, að gefa öllum sömu ástæðu til að verða stúdentar.

Hv. þm. (BSt) taldi líka alveg gagnslaust að samþ. brtt. okkar um það, að menn gætu gengið upp í efri bekki skólans, því að hvergi nokkursstaðar væri hægt að fá hliðstætt nám við nám í skólanum. (BSt: Jeg spurði, hvar það væri hægt.). Það hefir verið bent á þá leið af Jóni Ófeigssyni, að hafa námsskeið við gagnfræðaskólana, þar sem kend væri latína og annað, sem þyrfti. Gamla aðferðin var sú, að læra hjá einstökum mönnum. Jeg veit ekki, á hverju það byggist, að enginn hefir bent á þá leið að taka menn til náms. Enn eru þó til víðsvegar á landinu latínulærðir klerkar, sem vildu sjálfsagt taka pilta til sín til að nema undir skóla. Jeg þekki það vel að nema utanskóla, þar sem jeg las alt utan skóla nema einn vetur. Jeg veit ekki annað en það gæti gengið, eins nú og þá. Hv. þm. sagði, að við lifðum á öðrum tímum. En jeg held, að ekkert hafi breytst í þessu efni.

Jeg hefi verið beðinn að geta um, að von væri á brtt, það er einmitt út af þessu, sem hv. 2. þm. Eyf. (BSt) talaði um, að halda skyldi uppi fullnægjandi kenslu við gagnfræðaskóla Akureyrar, til að búa menn undir lærða skólann. Hv. þm. (BSt) spurði áðan, hvar menn ættu að læra undir skólann. Svarið er: við gagnfræðaskólann á Akureyri. Þó að það kostaði aukatíma, þá er það ekki svo ægilegt, því að milliþinganefndin áleit, að það þyrfti einu ári lengra nám með skiftum skóla en óskiftum, ef menn vilja eitthvað byggja á því, sem hún segir. Svo að það er betra að tefja þá fáu, sem vildu heldur nema við Akureyrarskóla en í Reykjavík, heldur en að tefja alla um eitt ár.

Jeg ætla svo ekki að tefja tímann með því að fjölyrða frekar, en láta þetta nægja að sinni.