10.03.1926
Neðri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í C-deild Alþingistíðinda. (2447)

58. mál, menntaskóli Norður-og Austurlands

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg býst ekki við að þurfa að tala mjög lengi, vegna þess að þetta mál, sem hjer liggur fyrir, hefir áður legið fyrir Alþingi og þá verið um það rætt, og auk þess hafa þau rök, sem mæla með þessu máli, komið fram í ritum, og geri jeg ráð fyrir, að þær ritgerðir hafi flestir hv. þm. lesið. En þó eru nokkur atriði viðvíkjandi málinu, sem jeg þykist þurfa að benda á.

Er þá í fyrsta lagi, eins og öllum er kunnugt, að hjer voru um langan aldur tveir lærðir skólar, nefnilega við biskupsstólana báða, að Hólum og Skálholti. Þessu var breytt um aldamótin 1800, þannig, að þessir skólar voru sameinaðir; en sú ráðstöfun var ein af þeim mörgu breytingum, sem þá voru gerðar. Þá voru lagðar niður gamlar þjóðlegar stofnanir, biskupsstólarnir fornu lagðir niður og Alþingi afnumið. Eins og allir vita, voru þessar ráðstafanir gjörðar af útlendri auðvaldsstjórn, án þess að þjóðin væri kvödd til þeirra mála, og þó að ekki liggi mikil gögn fyrir í því efni, þá hygg jeg þó óhætt að segja, að þessar ráðstafanir hafi verið gerðar gegn vilja þjóðarinnar, að svo miklu leyti, sem þá gat verið um nokkurn þjóðarvilja að ræða.

Hvað skólana snertir, þá var það að vísu svo, að íbúar Skálholtsstiftis hins forna gátu nokkurnveginn við unað, því að þótt skóli þeirra væri færður, þá var hann þó hjá þeim eftir sem áður og komst í allgott horf, einkum eftir að hann var fluttur til Bessastaða. En um Norðlendinga var alt öðru máli að gegna, þar var skólinn lagður niður þvert á móti þeirra eigin vilja. Með andlegri og efnalegri viðreisn þjóðarinnar á öldinni sem leið hófu svo Norðlendingar aftur baráttu fyrir því að fá skóla á Norðurlandi, sem kæmi í staðinn fyrir Hólaskóla hinn forna. Veit jeg vel, að það voru skiftar skoðanir um það, hvernig sá skóli ætti að vera, og að það voru ekki allir, sem heimtuðu beinlínis lærðan skóla, en kröfurnar um skólann bygðust þó að nokkru leyti á því, að Norðlendingar hefðu þennan sögulega rjett til þess að fá hann, sem bætur fyrir Hólaskóla hinn forna. Eftir að Alþingi fjekk löggjafarvald og fjárforræði, þá leið ekki á löngu þangað til að það tók þessa kröfu Norðlendinga til greina að nokkru leyti, með því að Möðruvallaskóli var stofnaður árið 1880. Með stofnun Möðruvallaskólans var grundvöllur lagður að skóla á Norðurlandi, sem væri arftaki Hólaskóla.

Síðan að Möðruvallaskólinn var stofnaður eru nú nærri því 50 ár, og á þessu tímabili hafa orðið tveir allmerkir atburðir í sögu skólans, einskonar tímamót í þróun hans. Fyrri tímamótin eru árið 1904, þegar skólabreytingin var gerð, og gagnfræðaskólinn komst í beint samband við lærða skólann, svo að þeir, sem tóku próf fyrir norðan, gátu komist inn í lærdómsdeildina. Með þessari breytingu er ekki hægt annað að segja en að hann sje orðinn einskonar vísir að lærðum skóla. Síðari tímamótin, sem jeg vildi benda á, og þar sem skref í sömu átt var stigið lengra, var, þegar þessi hv. deild bar gæfu til þess að samþykkja framhaldsnám við gagnfræðaskólann, og nú er svo komið, að það er ekki nema eitt spor óstigið, til þess að ná takmarkinu til fulls, til þess að Norðlendingar fái fullar bætur fyrir Hólaskóla hinn forna. Og þetta frv., sem jeg hefi leyft mjer að flytja, fer fram á það, að þetta spor verði nú stigið.

Jeg fyrir mitt leyti hefði getað unað því, að við svo búið stæði, sem nú er, enn um sinn, og svo mun vera um fleiri Norðlendinga. Jeg hefði getað látið mjer nægja það samband, sem nú er milli mentaskólans og gagnfræðaskólans á Akureyri, með því framhaldsnámi, sem nú er við þann skóla. Hitt get jeg ekki unað við, að þau rjettindi, sem skóli okkar Norðlendinga hefir fengið, verði af honum tekin, en tillaga um það liggur nú beinlínis fyrir. Fyrir þessu háa Alþingi liggur nú frv. um lærða skólann í Reykjavík, og verði það frv. að lögum, þá er um leið slitið sambandi því, sem verið hefir á milli gagnfræðaskólans á Akureyri og mentaskólans í Reykjavík. Þá get jeg ekki annað sjeð en að gagnfræðaskólinn gangi aftur á bak, þá verða þessi tvö skref, sem hafa verið stigin upp á við að því takmarki, sem hann keppir að, sama sem óstigin, hann hefði þá engu meiri rjett en Möðruvallaskólinn gamli, með öðrum orðum: hann yrði þá, hvað rjettindi snertir; settur alveg á sama stað og árið 1880. Öllum fátækum mönnum á Norður- og Austurlandi yrði þá svo að segja gert ókleift að stunda æðra nám. Veit jeg að vísu, að því mundi verða haldið fram, að þetta yrði hægt eftir sem áður, en jeg hygg, að það yrði samt sem áður ekki gert að senda 12–13 ára gömul börn norðan af landi hjer í lærða skólann. Það er svo um það, sem menn eru orðnir vanir við, að það er ekki til neins að segja: Þetta höfðu ekki forfeður ykkar, þið getið komist af án þess eins og þeir. Þegar menn hafa notið einhverra þæginda, og eru svo sviftir þeim alt í einu, þá standa þeir miklu ver að vígi heldur en ef þeir hefðu aldrei notið þeirra. Ef þetta frv. um lærða skólann, sem hjer liggur fyrir, verður samþykt, þá álít jeg, að það sje engin leið að því að bæta Norðlendingum og Austfirðingum þann skaða og rjettindamissi, sem þeir verða fyrir, með öðru móti en því, að gefa Akureyrarskólanum rjett til að útskrifa stúdenta og gera hann þannig úr garði, að hann verði fær um að veita þá fræðslu, sem til þess þarf. Jeg hefi töluvert mikla ástæðu til þess að ætla, að þetta frv. um lærða skólann muni ná fram að ganga á þessu þingi, að minsta kosti er það sýnilegt, að það hefir miklu meira fylgi en í fyrra, t. d. lagði mentmn. Nd. í fyrra öll á móti því, að frv. gengi þá fram, en það mun bráðum sjást, að till. nefndarinnar nú ganga í aðra átt. Þetta frv. mitt um mentaskóla á Norðurlandi ber fyrst og fremst að skoða sem svar frá Norðlendingum við frv. um lærða skólann hjer, og enn fremur sem svar við þeirri afstöðu, sem meiri hl. mentmn. hefir tekið til þess frv., enda flutti jeg ekki þetta frv. fyr en mentmn. hafði tekið sína ákvörðun um frv. um lærða skólann.

Þó að jeg hafi nú farið fljótt yfir sögu, þykist jeg samt hafa sýnt fram á það, svo að ekki verði á móti mælt, að Norðlendingar eigi sögulegan rjett til að fá lærðan skóla hjá sjer. Jeg þykist líka hafa sýnt fram á það, þó að aðrir kunni að hafa gert það betur, að Norðlendingum og Austfirðingum er það líka nauðsynlegt af „praktiskum“ ástæðum að fá skóla á Akureyri, sem útskrifi stúdenta, ef sambandi því, sem nú er við lærða skólann, verður slitið. En auk þess tvenns, sem jeg hefi minst á, má benda á fjöldamargt annað, sem mælir með því, að heppilegra myndi í framtíðinni, að tveir lærðir skólar væru hjer á landi heldur en einn. En jeg skal ekki fara út í það nú, því að sú hlið málsins hefir einkum og sjerstaklega verið rædd hingað til, og því yrði það endurtekning að fara að ræða það. Þó vil jeg benda á eitt atriði, sem tveir síðustu skólameistarar á Akureyri og aðrir mentamenn hafa lagt mikla áherslu á í skrifum sínum. Það er, að það muni verða til mikilla bóta fyrir háskólann okkar, ef mentaskólarnir yrðu tveir, að þangað mundu þá koma hæfari stúdentar, vegna þess, að samkeppnin milli skólanna, um að skila sem bestum nemendum frá sjer, myndi hafa holl og bætandi áhrif á skólalífið, þannig að hvor skólanna myndi leggja sig sem mest og best fram. Svo hefir líka verið bent á það, að Akureyri er ódýrari staður en Reykjavík, en auk þess má líka með töluvert miklum rjetti halda því fram, að Akureyri sje að ýmsu leyti hollari staður en Reykjavík.

Jeg veit vel, að tvent muni einkum haft á móti þessu frv., það fyrst, að samþykt þess muni leiða af sjer aukinn kostnað, og í öðru lagi, að það leiði af sjer aukinn stúdentafjölda, en það þykir mörgum ekki heppilegt og vilja jafnvel leita ráða til þess að fækka þeim, sem ganga þá leið. Út af þessu vil jeg segja það, að jeg segi ekkert um það beinlínis, hvort af þessu mundi leiða aukinn kostnað í reyndinni, en hitt er mjer ljóst, að það þarf ekki endilega að leiða af því neinn aukinn kostnað, það má framkvæma þetta þannig, að ekki leiði af því aukinn kostnað. Mentaskólanum hjer er nú margskift, og það þyrfti ekki annað en draga hann saman, þannig að báðir skólarnir yrðu í raun og veru ekki stærri en lærði skólinn myndi annars vera. Það getur vel verið, að stúdentar sjeu orðnir of margir í þessu landi, jeg skal ekkert segja um nema svo kunni að vera, og heldur ekki segja um, nema heppilegt kynni að vera að draga eitthvað úr því, að menn gengi þann veg. En hitt er mjer ljóst, að ef eitthvað er gert í því, þá má það ekki vera bygt á því að útiloka menn úr einstökum landshlutum, svo að ekki verði öðrum fært að ná stúdentsprófi en mönnum hjer í grend, og svo sonum og dætrum stórefnamanna út um land. Og jeg get bætt því við, að jeg þekki nokkra unglinga á Norðurlandi, sem eru svo vel gefnir, að jeg teldi það alveg sjálfsagt, að þeir gætu stundað nám, en veit, að það er engin leið að því, nema því að eins að þeir geti stundað nokkurn hluta af náminu fyrir norðan.

Þetta frv. mitt um mentaskóla á Norður- og Austurlandi er sniðið samkvæmt núverandi fyrirkomulagi skólanna; tvískiftingu í gagnfræðadeild og lærdómsdeild, en að þessu sinni ætla jeg ekkert að fara út í það, hvort fyrirkomulagið sje heppilegra, að hafa óskiftan lærðan skóla eða tvískiftan, eins og nú er. Umræður um það finst mjer mega bíða þar til frv. um lærða skólann í Reykjavík kemur hjer til 2. umr. En í þessu sambandi vil jeg slá því fram, að jeg get vel hugsað mjer, að heppilegast væri, ef um tvo skóla er að ræða á annað borð, að annar skólinn væri óskiftur lærður skóli, en hinn tvískiftur, eins og verið hefir; með því móti fengist ábyggileg reynsla um það, hvort fyrirkomulagið væri heppilegra, og jeg get ekki sjeð annað en að það væri vel mögulegt að hafa hjer óskiftan lærðan skóla, en fyrir norðan tvískiftan skóla.

Jeg vona, hvernig sem menn að öðru leyti líta á þetta mál, að hv. deild verði ekki svo æst gegn því, að hún lofi því ekki að fara til nefndar, og mjer finst rjett, að mentmn. fái að athuga þetta mál, og að hún þá athugi það dálítið í sambandi við þá ákvörðun, sem hún þegar hefir tekið um lærða skólann. Jeg vil því enda mál mitt að sinni með þeirri till., að frv. sje vísað til mentmn. að umr. lokinni.