09.04.1926
Efri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í C-deild Alþingistíðinda. (2566)

60. mál, byggingar og landnámssjóður

Flm. (Jónas Jónsson):

Þetta mál hefir legið fyrir þinginu einu sinni fyr. Áður en jeg fer að skýra málið að nýju, vil jeg minnast á, hvernig því hefir verið tekið hjer á þingi og víðar. Þegar jeg bar það fram hjer í fyrra, þá vildi svo undarlega til, að hæstv. fjrh: (JÞ) beitti sjer af alefli á móti því og vildi helst fella það strax. Það var þó ekki gert, heldur var því vísað til nefndar. En flokksbræður hæstv. fjrh. svæfðu það í nefndinni. Jeg hefi því ástæðu til þess að halda, að mörgum í stjórnarflokknum sje illa við málið eða hafi ekki nægan skilning á því. Þessi tregða lýsti sjer einnig í því, að öll stjórnarblöðin lögðust á móti frv. og töldu, þó það mundi vinna sveitum og bændum mikið tjón. Það, sem hjer væri farið fram á, mundi gera mikinn hluta fólksins í sveitinni að sveitarómögum o. s. frv. En þetta er ekki nema önnur hlið málsins. Einn af merkustu mönnum sjálfstæðisflokksins spáði í fyrra, að þetta mundi verða eitt hið mesta hita mál þjóðarinnar eftir 10 ár. En þá hygg jeg, að ekki muni verða langt til framkvæmda, þegar svo er komið. Þetta er að vísu spádómur, en hann er frá reyndum manni og veðurglöggur, og er líklegt, að hann rætist. Jeg hefi orðið var við, að þetta mál hafi vakið mikla eftirtekt víðsvegar um land. En það eru ekki síst hinir yngri bændur, sem hafa skilið það, að í aðalhugmynd frv. liggur hjálp til þess að greiða götu ræktunar í landinu. Jeg varð var við það á ferðum mínum um Norður-, Vestur- og Austurland í sumar, að þetta mál hafði verið mjög afflutt úti um land, svo að jeg varð að minnast á það á öllum fundum. En er jeg hafði skýrt málið á fundunum, og þeir voru yfir 20, hjelt enginn mótspyrnu til streitu.

Það vill nú svo vel til, að síðan mál þetta kom hjer til umræðu, hefir gerst atburður erlendis, sem mun flýta meira fyrir þessu máli en margan grunar. Í Englandi hefir komið fram tillaga um það, að landið leggi fram mikið fje til þess að koma á nýbýlum og bæta þau býli, sem fyrir eru. Áhrifamesti stjórnmálamaður Englendinga, Lloyd George, berst fyrir þessu og telur það vera mesta málið, sem nú liggur fyrir í enskum stjórnmálum. Í sambandi við önnur rök og skýringar vil jeg minnast lítið eitt á það, hvernig málið er sótt og varið í Englandi. Fyrir meira en einni öld gerðist í Englandi líkur atburður, og hjer er að gerast. Það kom upp nýr atvinnuvegur, sem virtist svo arðvænlegur, að fólkið þyrptist úr sveitunum í hinar nýju iðnaðarborgir, sem þá risu upp. Húsin í sveitunum stóðu fyrst auð og hrundu síðan, og má sjá merki þessara rústa víðsvegar um England, því að það hefir ekki verið bygt upp aftur. Löndin urðu bithagi fyrir sauðfje og búpening stórefnamannanna, og gengur sauðfje þar sjálfala á húslausum sljettum sumar og vetur, sem fyr voru þjettbygðar sveitir.

Nú hefir þessi dýrð staðið í meira en öld, sauðirnir hafa gengið á grænum grundum Englands, en fólkið hefir þjappast saman í stórum borgum, sem hafa hundruð þúsunda og miljónir íbúa, og þar sem kolareykinn leggur til himins. En nú er þetta ástand orðið áhyggjuefni margra framsýnna Englendinga. Ef England er einangrað nokkrar vikur, þannig að það fái ekki aðflutninga, þá er hungursneyð skollin á í borgunum. Það er því ekki hvað síst af hernaðarlegum ástæðum, sem margir Englendingar líta með töluverðum ugg á framtíð landsins, þar sem allur þorri fólks er í bæjunum, en sveitirnar standa auðar og eru bithagar fyrir fjenað og skemtistaðir fyrir ríkismennina í borgunum. Nú hefir Lloyd George tekið þetta mál að sjer og gerir ráð fyrir, að frjálslyndi flokkurinn í Englandi beiti sjer fyrir að byggja það land aftur, sem verksmiðjurnar hafa lagt í eyði. Hann hefir ferðast víða um landið og prjedikað þann fagnaðarboðskap, að það eigi að byggja England upp aftur, en það er ennþá svo stutt síðan, að ekki er hægt að sjá, hve lengi hann verður að koma málinu í framkvæmd, en að hans dómi verður að vinna þetta verk, eða að veldi Englendinga verður ekki langlíft, því að það eru ekki dæmi þess, að nein þjóð hafi orðið langlíf menningarþjóð, sem aðeins hefir búið í borgum, en ekki haft sveitirnar á bak við sig.

Jeg hitti í sumar einn af forgöngumönnum húsmannafjelaganna í Danmörku, sem var mjög kunnugur þessu máli í Englandi, og af því að þessi maður stendur svo framarlega í samskonar málum í landi, þar sem þeim er einna best fyrir komið, og af því að hann var svo fróður um þetta, þá vil jeg skýra frá skoðun hans. Hann sagði, að það mundi verða mjög erfitt að koma þessu í framkvæmd, ekki af því, að það væru ekki nógir menn og nóg fje til í Englandi, heldur af því, að það þyrfti að skapa nýja bændastjett. Hún væri horfin. Það væri hægt að skapa borgir, en það væri nálega ómögulegt að skapa aftur bændastjett úr borgarmönnum. Vitnaði hann í reynslu Dana sjálfra í þeim efnum og sagði, að það, sem hefði hjálpað mest í þeirra mikla landnámi, hefði verið það, að sveitirnar hefðu verið nógu sterkar, þegar hafist var handa. Hann sagði enn fremur, að það myndu verða mestu erfiðleikarnir fyrir Englendinga að fá fólkið í borgunum til að flytja í sveitirnar, jafnvel þótt þeim yrði hjálpað til að byggja yfir sig og rækta, og sagði hann, að þeir menn, sem einu sinni væru komnir í borgirnar, færu þaðan trauðlega aftur. Eftir síðustu frjettum af Lloyd George sjest það, að hann hefir stungið upp á því að flytja inn nokkra landnema frá Danmörku, til þess að verða eins konar súrdeig í þessari nýju landnámshreyfingu þar; og hefir hann auðvitað fengið óþökk margra landa sinna fyrir þessar uppástungur, því að Englendingar eru, eins og kunnugt er, ekki mikið gefnir fyrir að læra af öðrum.

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma mun óhætt að fullyrða, að ekki verður langur tími þangað til að íslenska þjóðin verður að fara að sinna þessu máli meira, og er hægt að sjá það af mörgu. Fyrst af því, hvernig sú mótstaða, sem fyrst var gegn þessu máli, hefir linast, og svo af því, að samkvæmt dómi sögunnar getur sá maður ekki talið sig sæmilegan Íslending, sem legst á móti því að láta gera það, sem hjer er um að ræða, en það er að bjarga þjóðinni og menningu landsins frá glötun.

Þó að jeg hafi skýrt þessa hugmynd allítarlega í fyrra, og nokkuð verið um hana rætt og ritað síðan, þá er þó rjett að skýra það, sem hjer liggur fyrir, og það er þá tilgangurinn, að styðja að því, að þungamiðja hins íslenska þjóðlífs haldi áfram að vera í sveitunum. Hefir það verið rökstutt með því, að það væri nauðsynlegt vegna líkamlegs og andlegs heilsufars þjóðarinnar. En ráðið til að koma þessu í framkvæmd er það, að þjóðfjelagið hjálpi til að gera lífvænlegt fyrir þá menn, sem nú eru fyrir í sveitunum, skapa þeim lífvænleg framtíðarskilyrði. Heimilin í sveitunum eiga að fjölga eftir því sem fólkinu fjölgar. Og síðari hluti þessa ráðs er, að þeir, sem mest fjármagn hafa og mestum gróða hafa safnað, leggi á sig nokkrar byrðar til að hrinda þessu máli í framkvæmd. Síðan í fyrra hefi jeg breytt formi frv. nokkuð, en ekki efni þess, því að efninu verður ekki breytt. Annaðhvort verður að framfylgja hugmyndinni eins og hún er, eða þá að grafa hana. Jeg hefi því breytt frv., eins og jeg hefi að nokkru leyti áður tekið fram, jeg hefi gert ráð fyrir gróðaskatti af miklum tekjum og miklum eignum. Er því óhugsandi, ef þessi hugmynd nær fram að ganga, að lána út allar tekjur sjóðsins. það yrði að geyma nokkuð af tekjum góðu áranna til vondu áranna. Þessi breyting er að því aðgengilegri, að gróðamennirnir, sem í fyrra kveinuðu mest undan að borga ræktunarskatt, án tillits til augnabliksgróða, og stóreignamenn eiga ekki, eftir því sem hjer er gert ráð fyrir, að borga nema af raunverulegum eignum. Það eru sjerstök forrjettindi, sem þessir stærri gjaldendur fá hjer, því að þar sem skattar á Íslandi falla nær því jafnþungt á alla, þá verða hinir efnalitlu að borga sína skatta, nálega jafnháa, hvernig sem lætur í ári, og því síður er ástæða til fyrir hina eiginlegu efnamenn að telja sig misrjetti beitta.

Þá er ein formbreyting, sem jeg hefi tekið eftir fordæmi Norðmanna, að í stað þess að lána út höfuðstól sjóðsins, er gert ráð fyrir að borga vexti að nokkru eða öllu leyti af lánum, sem fullnægja vissum skilyrðum gagnvart sjóðnum. Til þess að sýna, hvað Norðmenn hafa gert í þessu efni, vil jeg benda á það, að smábændabankinn í Osló, sem starfar eftir þessari reglu, hefir á nokkrum árum lánað út 150 milj. króna. Mest af þessu fje hefir gengið til þess að stofna nýbýli í Noregi og að nokkru leyti til þess að byggja hús yfir efnalitla menn í kauptúnum, en helst þó í sambandi við ræktun. Og norska ríkið hefir borgað meira og minna af vöxtum þessara lána, einkum í sambandi við nýyrkjuna.

Því hefir verið haldið fram sem höfuðmótbáru gegn þessu frv., að hjer væri verið að fara inn á nýja braut um fjárveitingar til bænda, það ætti nú að fara að styrkja vissan hluta af bændastjettinni með fjárframlögum úr ríkissjóði, og að þetta væri eiginlega brot á landslögum og fordæmislaus ósvinna. En þetta er alveg rangt, það eru mörg fordæmi þess hjá okkar þjóð, að þannig hafi verið mikið hjálpað einstökum mönnum og einstökum stjettum, og er þá fyrst að benda á það, að fyrir eitthvað þremur eða fjórum árum komu útvegsmenn til þingsins og sögðust mundu missa skip sín í hendur útlendra lánardrotna, ef ríkið gengi ekki í ábyrgð fyrir þá. Þetta var gert, og þessum fjelögum var hjálpað mikið. En eins og líka kom í ljós nýlega, varð landið fyrir talsverðu tapi, sem þá er fórn til að viðhalda þessum atvinnuvegi. Það kom líka í ljós í umræðunum um „Káramálið“, að ýmsir þeir menn, t. d. hæstv. fjrh. (JÞ), sem mesta ömun hafa á því að styðja ræktunarmálið með opinberum framlögum, sýndi það í verkinu, að hann taldi það sjálfsagt að styðja atvinnuveg eins og togaraútgerðina með ríkishjálp. Nú alveg nýskeð hafa gerðar verið ráðstafanir til þess að hjálpa miklum hluta togaraútvegsins móti sjerstakri fjárhættu, nefnilega með því að tryggja útveginn að nokkru leyti gegn tapi við gengisbreytingu. Þetta er ábyrgð, sem aldrei hefir verið veitt nokkrum öðrum atvinnuvegi en stórútgerðinni, það er ábyrgð, sem getur komið til að kosta mikið, en er gerð vegna þeirra, sem atvinnu þessa stunda. Nú er það því einkennilegra, að einmitt út- vegsmenn skyldu þurfa þessa hjálp, af því að það hefir verið álitið, að stórútgerðin væri höfuð-atvinnuvegur landsins, og hefir borgað hæst kaup af öllum atvinnuvegum og dregið bæði konur og karla til bæjanna, og það er togaraútgerðin, sem aðallega er orsök þess, að fólkið þyrpist úr sveitunum. Hjer gerir togaraútvegurinn það, sem námurnar og iðnaðurinn gerði í Englandi, þegar sveitirnar þar lögðust í eyði, og það er því ekki neitt óeðlilegt, þó að farið sje fram á það, að ríkið leggi beinlínis fje til ræktunar landsins og í fjölgun heimila, úr því að sá atvinnukeppinautur, sem sýnist standa best að vígi, verður að leita hjálpar til ríkisins.

Þá kem jeg að nýju fordæmi. Þjóðfjelagið hefir orðið að meira eða minna leyti að byggja yfir einstaka menn, sem ekki hafa haft getu til þess sjálfir, og er þá fyrst að minnast á það, að mjög margir þeirra manna, sem mest hafa beitt sjer á móti þessu máli, þeir hafa komið því til leiðar, að ríkið hefir bygt mikla höll yfir sýslumanninn í Borgarnesi. Hún er eitthvert hið stærsta þessháttar hús á landinu, og lagði ríkissjóður mest fje í það með láni með sjerstaklega vægum kjörum. Það þarf ekki að minna á það, að samþyktar eru á hverju þingi heimildir til að byggja yfir lækna og presta þessa lands, því að það er orðið svo alment, að menn eru hættir að kippa sjer upp við það. Það er vart nokkurt prestssetur á landinu eða læknisbústaður í sveit, sem ríkissjóður hefir ekki annaðhvort styrkt bæði með beinu fjárframlagi eða með láni með vildarkjörum. Þjóðfjelagið hefir því við starfsmenn sína gengið inn á þá braut að styrkja þá til þess að byggja yfir sig, og skal jeg ekki lasta það, því það getur oft verið óhjákvæmilegt. En það, sem mjer þykir einkennilegast, er það, að þeir, sem harðast heimta fje í bústaði yfir vissar stjettir landsins, þeir hafa lagst mest á móti því, að hjálpað væri til þess að byggja yfir eða ljetta undir byggingarkostnaðinn hjá öðrum borgurum landsins. Jeg mintist á eitt fordæmi í fyrra, að ríkið lagði þá til berklavarna, eftir skýrslu landlæknis, alls eina miljón króna, til greiðslu fyrir eitthvað 64 sjúklinga, til þess að líkna þeim eða greiða fyrir bata þeirra. Þetta er náttúrlega gott og nauðsynlegt, en það er sama sagan eins og með starfsmenn ríkisins, að þjóðfjelagið tekur þá út úr og styrkir þá með beinum fjárframlögum. Þetta er svo mikil fjárupphæð, að ef varið hefði verið helmingi hennar, eins og jeg fór fram á í fyrra, til ræktunar og bygginga í sveitum, þá mundi það beínlínis hafa dregið úr berklavarnakostnaðinum, því að berklaveikin stafar fyrst og fremst af vöntun á hollu fæði, húsnæði o. fl. Sem sönnun fyrir því, að það sje ekki nein goðgá að ætlast til þess, að ríkissjóður styrki ræktun landsins með beinu fjárframlagi, vil jeg benda á, að hæstv. fjrh. (JÞ) sagði í blaðagrein fyrir nokkrum árum, að munurinn á framsóknar- og íhaldsmönnum væri sá, að framsóknarmenn fengju ekki að koma nærri lands sjóði með sínar þarfir, fyrir íhaldsmönnum, sem ekki vildu greiða skatta. Þó að hæstv. ráðh. (Jþ) hafi ekki nefnt ræktunarmálið, þá nefnir hann hliðstæð dæmi, sem sýnir það, að bændur hafa ekki ennþá gert kröfur til þess að komast á ríkissjóð, eins og þær stjettir, sem hafa látið ríkissjóð byggja yfir sig, eða þær stjettir, sem hafa látið ábyrgjast fyrir sig gengistap og rekstursfje. Síðan í fyrra hefi jeg talað um þetta við einn helsta lögfræðing landsins, sem er mjög nákominn nokkrum þeim mönnum, sem hæst eru settir í Íhaldsflokknum, og sagði sá maður, að hann áliti það svo mikla nauðsyn að rækta landið og fjölga heimilum, að það yrði, eins og hann komst að orði, að kaupa fólkið til þess að vera kyrt í sveitunum. Og það má segja, að kjarninn í frv. sje ekki annað en það, að kaupa fólkið til þess að vera kyrt í sveitunum, ekki eingöngu vegna fólksins sjálfs, heldur vegna þjóðarinnar í heild og framtíðarinnar. En hvað er það þá, sem veldur því, að straumurinn liggur burt úr sveitunum, svo að það þarf að grípa til þess að kaupa fólkið til þess að vera kyrt? Leyndarmál þessa mikla þjóðflutnings er ekki annað en það, að unga fólkið leitar út af einskonar frelsisþrá. Þjóðin vill verða frjáls, hver stjett, hvert kyn og hver einstaklingur. Það er heimtað nýtt frelsi af öðru tæi en það, sem bíður unga fólksins, sem vex upp í sveitunum og staðnæmist þar. Þeir, sem ekki fá jörð, verða vinnuhjú eða kaupahjú hjá bræðrum sínum eða systrum, sem fá ættaróðulin, en það getur ekki nema eitt, eða í mesta lagi tvö af systkynunum á hverjum bæ sest að á föðurleifð sinni. Hinir landlausu verða að sætta sig við mjög háða aðstöðu og nálega altaf án þess, að geta haft nokkurt fjölskyldulíf. Bændunum er ókleift að byggja yfir fjölskyldur þær, sem eru í vist hjá þeim, afleiðingin er sú, að þeir, sem ekki hafa aðgang að jörð í sveit, fara til verstöðvanna að annari atvinnu, þar sem þeir geta haft heimili, þó að fátækleg sjeu. Þetta er allur galdurinn við það, hvers vegna Reykjavík vex meira en hún vill og hvers vegna Vestmannaeyjar og Siglufjörður vaxa meira en leiðandi menn þeirra staða óska eftir. Það er af því, að það fólk, sem fer úr strjálbýlinu upp í sveitunum, leitar þangað, sem það getur lifað fjölskyldulífi, þótt fátækt sje. Þegar búið er að skilja þetta, þá er það auðsætt, að lækningin er ekki annað en það að gera fjölskyldulíf mögulegt fyrir sem flesta menn í sveitunum, en það getur aftur á móti ekki orðið með öðru en því að fjölga býlum í sveit og auka ræktun landsins. Í stuttu máli, með heimilafjölgun. Það er því ekkert annað ráð en að taka tillit til þess, sem bæirnir bjóða, nefnilega sjálfstæð heimili fyrir hverja fjölskyldu.

Jeg hefi orðið var við það, að einstakir menn álíta, að ef þessi hugmynd kæmist í framkvæmd, þá myndu öll stórbýli á Íslandi hverfa, og að þeim hafi staðið stuggur af því, að þá yrði ekki nema tómir kotbændur og einyrkjar í landinu. Jeg hefi tekið það fram áður hjer í hv. deild, að þessi geti ekki orðið afleiðingin. Sumsstaðar á landinu eru skilyrðin þannig, að hægt er að koma við allskonar landbúnaðarvjelum við atvinnureksturinn, t. d. á Hvanneyri, og á slíkum jörðum er auðvelt að hafa stórbúskap. En svo eru aðrar jarðir, þar sem ekki er hægt að reka búskap á sama hátt, Sumar þeirra eru úrvalsjarðir, og væri þeim betur skift í 2–3 býli, til þess að ræktun þeirra geti aukist, heldur en að hafa einyrkja á stórri jörð. Jeg geri ráð fyrir, að stórbýlin haldi áfram, þar sem skilyrði leyfa, þar sem gott er að nota verkvjelar o. s. frv. En nýbýlin koma til sögunnar, þar sem landeigendur sjálfir vilja skifta, af því að þeir geta með því móti betur notað jörðina. Jeg býst nú við því, að margir harmi það, ef stórbýlin hverfa úr sögunni, en þeir munu ekki hafa áttað sig á því, að í þeim löndum, sem best eru ræktuð, hefir stórbýlunum verið að miklu leyti skift í margar smærri jarðir. En áður en jeg vík að því atriði málsins, vil jeg minnast á ýms önnur atriði, sem ætti að gera það að verkum, að þeir, sem mest hafa á móti smábýlabúskapnum og nýræktinni, snúi við blaðinu.

Hæstv. stjórn hefir látið bera fram í Nd. frv. til laga um járnbrautarlagningu. Verði nú lagt út í það dýra fyrirtæki, þá þarf mjög að fjölga fólki í sveitunum eystra. Í þessum sveitum er nú þegar búið að auka ræktun að miklum mun, og á Skeiðum og í Flóa búið að búa undir þá breytingu, sem kemur með járnbrautinni. En bæði Landeyjar og Holtin bíða enn eftir framkvæmdum í þessu efni. Og þær framkvæmdir eru óhugsanlegar nemaþví aðeins, að fólki sje hjálpað til að byggja, enda óhugsandi, að fólk yfirleitt geti staðið sig við að gera nýbýli, nema það fái til þess ódýrt fjármagn.

Jeg hefi hjer eingöngu talað um Suðurlandsundirlendið vegna þess, að um það er nú mikið rætt í sambandi við járnbrautarmálið, og jeg fæ ekki skilið, hvernig hv. 1. þm. Rang. (EP) gat óskað eftir í fyrra að fella þetta frv. frá umræðu, því að það er engu síður nauðsynlegt en járnbrautin sjálf, til þess að þessi hluti landsins geti fært sjer í nyt sín náttúrugæði.

Það er ekki tilætlun mín með stofnun þessa sjóðs að styðja neina sjerstaka landshluta. En í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að síðan í fyrra hafa verið gerðar ráðstafanir um stórfelda ræktun í Vestmannaeyjum, sem flestum mun þó finnast vera fráleitt landnámsland vegna þess, hve þar er grýtt og hrjóstugt. Þó mun hv. þm. Vestm. (JJós) hafa alveg rjett fyrir sjer íþví máli, en hvað mun þá vera um aukna ræktun í öðrum hjeruðum? Það er ekki til sú sýsla á landinu, þar sem landnám geti ekki komið til greina. Nú er svo að segja á hverri jörð beðið eftir fjármagni til þess að hægt sje að hrinda nýræktun á stað, alstaðar eru jarðir, þar sem eins vel gæti lifað 2–3 fjölskyldur, með aukinni ræktun, eins og ein nú.

Mjer hefir stundum orðið það á að kalla þetta mál málanna, því að það er ekki sá afkimi til á landinu, sem ekki hefði gott af því, að býlum fjölgaði og ræktun færðist út.

Það hefir verið tæpt á því áður, að þótt járnbraut kæmi austur yfir fjall, þá yrði að gæta þess, sem hinn danski forkólfur sagði í sumar, að því aðeins væri hægt að stofna nýbýli og rækta landið, að eitthvað sje eftir af bændum og bændaefnum til þess að taka að sjer löndin. En með þessu er aðeins sýnt, að ef þetta mál ætti lengi að bíða, gæti svo farið, að sveitunum hjer á landi blæddi út, líkt og enski stóriðnaðurinn drap sveitabúskapinn þar á 18. öld, og að ekki verði þá auðvelt að fá nýbyggja á sljettur Suðurlands. Og þeir, sem eru velviljaðir hugmyndinni um byggingar- og landnámssjóð, hafa bent á það, að eins og nú er ástatt, þá hrynja bæirnir í sveitunum yfir fólkið, svo að það verður að forðast rústirnar. Fyrsta skilyrðið til þess, að vel geti farið, er að halda við þeim sveitaheimilum, sem nú eru til, og hjálpa fólkinu til þess að endurreisa þær byggingar, sem eru að sligast. Og þessi fyrirhugaði sjóður á ekki síst að mæta þeirri þörf að greiða götu þeirra, er þurfa og vilja byggja yfir sig, en hafa ekki bolmagn til að borga okurvexti af fasteignalánum.

Þá skal jeg gera eina tegund mótmæla gegn frv. þessu að stuttu umtalsefni. Því er haldið fram, að sumir foreldrar vilji ekki, að jarðir þeirra skiftist milli barnanna og að þeim finnist það kvalafull tilhugsun, ef jörð, þar sem stórbú hefir verið — þar sem máske hafa verið 4 vinnumenn og 4 vinnukonur, — eigi að skiftast niður í 3–4 hluta. En mjer hefir orðið á að spyrja: Þykir foreldrum vænna um jörðina — dauðan hlutinn — heldur en um börn sín? Nei, það nær ekki neinni átt. Það er aðeins gömul venja, sem veldur því, að menn kveinka sjer við að skifta jörð í fleiri býli. Skiftingin fer best fram, þegar fleiri systkini deila sameiginlega óðali. En nú er nýr tími, og þetta verður að breytast, svo fremi að jafnmargt fólk eigi að una á hverri jörð eins og áður hefir verið, og þó helst fleira.

Sumir hafa haldið því fram, að frv. væri árás á kauptúnin. Þetta fæ jeg ekki skilið, þar sem líka á að hjálpa við húsabótum og ræktun í nágrenni kaupstaðanna. Og það er eigi aðeins fólk í sveitum, heldur einnig margt kaupstaðarfólk og kauptúnafólk, sem líður ver en skyldi vegna grasnytjaleysis. Í þessu sambandi má benda á Akureyrarbæ, sem hefir tekið til ræktunar landið um kring. Menn hafa þar garða og tún. Akureyri hefir fyrir vikið orðið hollari bær og betur efnum búinn heldur en aðrir kaupstaðir landsins.

Hvergi í frv. er gert ráð fyrir því að lokka fólk til sveitanna á einn eður annan hátt. Og þótt það verði samþykt, geta bæirnir þessvegna haldið sínu heimafólki. Breytingin verður aðeins sú, að minna verður aðstreymi til kaupstaðanna úr sveitunum, eða hverfur að mestu.

Mjer dettur í hug að geta um það í þessu sambandi, að það skrifaði mjer nýlega bóndi í Norðurlandi, sem býr á góðri jörð og hefir búið þar í 20 ár, og jafnan haft 6–7 vinnandi manns í heimili. Í þessu brjefi minnist hann á það, að sjer hafi tekist að fá vinnumann, en segir jafnframt, að það verði sjálfsagt síðasti vinnumaðurinn, sem hann fái í sínum búskap. Svona er ástandið í sveitunum nú. Og samhliða því, að Alþingi gerir ráðstafanir til þess að bjarga sjávarútveginum frá hruni, verður straumurinn til þess atvinnuvegar svo ör, að bændur, sem búið hafa 20 ár, búast ekki við því að geta fengið verkafólk framvegis.

Jeg hefi nú fært rök að því, hvernig málið horfir við. En vegna þeirra, sem heyra eða lesa rök þessi, vil jeg benda á, hver reynslan hefir orðið í þessu efni hjá nágrannaþjóðum okkar, og þegar íslenska þjóðin hefir kynt sjer það, trúi jeg því ekki, að hún geti farið að eins og strúturinn, að stinga höfðinu niður í sandinn og látast ekki sjá.

Út af einni af þessum röksemdum, sem komið hafa fram gegn frv. þessu, sem sje þeirri, að smábýlabúskapur beri sig ekki, skal jeg sanna með nokkrum dæmum úr hagskýrslum Norðurlandaþjóðanna, að þetta er ekki rjett.

Í Finnlandi býr meiri hluti þjóðarinnar í sveit, og þar hafa hagfræðingar athugað, hve mikinn arð bændur hafi af kúm sínum á mismunandi jörðum, miðað við 100 hektara ræktað land á hverri jörð, og er sú skýrsla á þessa leið:

Á stórbýlum . . . . . . . . . . , . . . . .32 kýr

— bændabýlum . . . . . . . . . . . . . 36 –

— smábændabýlum ................... 64 —

— húsmannsbýlum .................. 139 —

Þessi skýrsla sýnir, að í Finnlandi er land smábýlanna mikið betur ræktað heldur en stærri býlin, og sýnir hún þá það um leið, að frá þjóðfjelags sjónarmiði er síður en svo skaði að því, þótt bændabýli sjeu ekki stór.

Þá skal jeg taka annað dæmi frá Prússlandi. Árið 1900 var þar skift í smáhluta nokkrum stórjörðum, þar sem fólki hafði áður farið sífækkandi. Árangurinn af þessu var sá, að 10 árum síðar hafði fólki á þessum slóðum fjölgað um 84%.

Þá skal jeg taka annað dæmi frá Finnlandi. Á árunum 1899–1907 skifti ríkið 13 stórjörðum í 600 býli. Áður en þessi skifting fór fram, bjuggu á þessu svæði tæplega 6000 menn, en árið 1913 voru þar 11 þúsundir manna, og hafði því fólksfjölgunin orðið 84% eins og í Prússlandi.

Þessi dæmi sýna það ljóst, að nýræktin og býlafjölgunin í Finnlandi og Prússlandi hafa margborgað sig fyrir þjóðina.

En til þess nú að gefa hv, deild ítarlegri skýrslu í þessu efni, mun jeg næst sýna, hver er mismunur á „brúttótekjum“ í peningum af hverjum hektara ræktaðs lands í nokkrum löndum árið 1918 og á mismunandi býlum. Eru jarðirnar tölumerktar og er í minstu jarðirnar, sem eru í Sviss 3–4 ha. og í hinum löndunum minni en 10 ha. Í V. flokki eru stærstu býlin, sem eru í Sviss rúml. 30 ha. og í hinum löndunum alt að 100 ha. eða yfir það.

Jarða-

Sviss

Danm.

Svíþj.

Finnland

stærð

frankar

krónur

krónur

mörk

I

1866

1133

998

1413

II

1629

916

752

1307

III

1418

882

728

1022

IV

1396

805

821

944

V

1153

757

612

886

Þessi skýrsla á að sýna það fullkomlega, að eftir því, sem jarðir eru stærri, gefa þær af sjer minni „brúttótekjur“ tiltölulega. Og af þessu sjest enn fremur, að smábúskapur borgar sig betur og hefir meiri þróunarskilyrði heldur en stórbúskapur. Smábýlabúskapurinn hefir þannig skilyrði til þess að gefa meira af sjer en stórbúskapurinn, ef rjett er á haldið.

Þá kem jeg hjer með nýja skýrslu. Er hún um það, hversu mikið smábýlin og stórbýlin gefa af sjer, miðað við ha. af ræktuðu landi. Því hefir sem sje oft verið haldið fram af andstæðingum smábýlanna, að þau stæðu illa að vígi. Skýrslan er frá fjórum löndum, Sviss, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Eru jarðirnar metnar eftir stærð.

Í Sviss gaf hver ha. af ræktuðu landi af sjer 1306 franka á Smábýlunum, en 934 á þeim stærstu; í Danmörku 972 kr. á smábýlunum, en 696 á þeim stærstu; í Svíþjóð minst 838 kr. á smábýlunum, en 644 á þeim stærstu, og loks í Finnlandi gefa smábýlin af sjer 773 mörk, en næststærstu býlin ekki nema 664 mörk. — Er það einkennilegt, að þessi skýrsla er jafnóþægileg fyrir tvær andstæður manna, „sósíalista“ og stóreignamenn. Báðir vilja stórbúskapinn. „Sósíalistar“ vilja, að ríkið eða sveitarfjelögin reki stórfeld ræktunarfyrirtæki, en hinir vilja, að stórbændur og auðmenn eigi stórbýlin. Og frá hvoru sjónarmiðinu sem er, virðist skýrsla þessi vera mjög óþægileg, því að hún sannar, að best fer á því, að hvert heimili fyrir sig vinni upp þann blett, sem sá vinnukraftur kemst yfir, er það hefir yfir að ráða. Hefi jeg með þessu reynt að sanna, hve glæsilegt framtíðarmál það er að fjölga býlunum, einmitt út frá því sjónarmiði einstaklingsbúskaparins og þjóðarbúskaparins í heild sinni. Því að smábýlabúskapurinn virðist gefa mest af sjer.

Næst ætla jeg að sýna, hvernig frændþjóðir vorar hafa gengið fram í ræktunarmálunum nú á síðustu árum, og síðan að líta á ástandið eins og það er hjá okkur.

Reynslan hefir alstaðar sýnt, að smábýlin gefast best, og því er leitast við að smækka býlin og fjölga þeim um leið. Jeg hefi skýrslur um þetta frá Finnlandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð, og ganga þær allar í sömu átt. þær sýna, að straumur samtíðarinnar leitar í þá átt að fjölga býlunum í sveitunum, en hjá okkur fækkar þeim aftur á móti.

Kem jeg þá fyrst að skýrslunni frá Danmörku. Hún er um stærð jarða og býla á þrem árabilum, 1850, 1885 og 1905. — En það þekkja allir, er kannast við sögu Dana, að tímabilið frá 1850 er þeirra blómaöld,

Býlunum, sem um ræðir í skýrslunni, má skifta í þrent: húsamannabýli, bændabýli og stórbýli. Jeg skal geta þess til skýringar, að tala stórbýla 1850 er ekki fyrir hendi, svo á verði bygt.

Skýrslan frá Danmörku hljóðar þá svo:

Árið 1850

Árið 1885

Árið 1905

Jarðastærð

Tala býla

%

Tala býla

%

Tala býla

%

Húsmannabýli

98,168

58,5

151,957

67

183,210

70,5

Bændabýli

67,848

40,4

72,965

32

74,517

28,7

Stórbýli

?

1,1

2,041

0,9

2,093

0,8

Samtals

167,845

226,963

259,820

Í leiguábúð

68,824

41

26,085

11,5

18,859

7,3

Er skýrsla þessi mjög eftirtektarverð. það er auðsjeð fjölgun býlanna og hvernig hinum mismunandi býlum fjölgar. Sjest einnig, hvernig stórbýlin hafa haldið sjer nokkurn veginn. Síðustu árin hefir þó saxast mikið á þau. Samt er í Danmörku meira af stórbýlum en í hinum Norðurlöndunum. Þá er og eftirtektarvert, hve húsmannabýlunum hefir fjölgað, og hve vel þau hafa þrifist. Samhliða því er og önnur breyting, sem einnig er merkileg og stefnir til bóta, það er fjölgun sjálfseignarbænda. Straumur tímans stefnir ákveðið í þá átt að fjölga býlunum og um leið að auka tölu sjálfseignarmanna. Verður þess ekki langt að bíða, að nálega allir bændur í Danmörku verða sjálfseignarbændur.

Til þess að sýna enn gleggra, hve mikil fjölgun býlanna var í Danmörku, ætla jeg að taka hjer hin einstöku tímabil. 1850–1885 fjölgaði þeim um 60 þús. eða um 1700 árlega, 1885–1905 fjölgaði þeim um 32 þúsund eða um 1600 árlega, og loks 1905–1919 fjölgaði þeim um 30 þúsund eða um 2 þúsund árlega. Þannig hefir straumur býlafjölgunarinnar verið stöðugur frá 16002000 árlega.

Þegar jeg var ytra í sumar, kynti jeg mjer þetta mál og komst að þeirri niðurstöðu ,að „normalfjölgun“ býla í Danmörku er nú um 2000 árlega. Borið saman við þetta og miðað við fólksfjölda ættum við að fá 70 býli á ári. En jeg mun koma að því seinna, að svo er ekki.

Til frekari skýringar á því, sem jeg hefi sagt hjer um býlafjölgunina í Danmörku, skal jeg geta þess, að mikið af þessu var hreint landnám, land, sem áður var algerlega óræktað og mest á heiðum uppi. En nú býr þar fjöldi fólks, og þrífast þar bæði stórbýli og smábýli.

Býlafjölgunin þar í landi er og hlýtur þó oft að verða á kostnað stórbýlanna. Einnig komu lög 1919, sem verða hættuleg aðalseignunum, er margar voru. Menn víla ekki fyrir sjer að stykkja gömlu óðalsbýlin sundur, en auðvitað borga þeir fult verð fyrir, og þannig fjölga þeir fólkinu í sveitunum.

Þá kem jeg að Noregi. Þaðan liggja nú ekki fyrir nákvæmar skýrslur. Árið 1870 var fjöldi býla þar í landi 248 þús., en 1917 voru þau orðin 295 þús., eða í þessi 47 ár hefir býlunum fjölgað um 47 þús. eða 1000 býli árlega til jafnaðar.

Þá ætla jeg að síðustu að koma með skýrslu um, hvernig býlin skiftast eftir stærð í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Má sjá á því, hvernig þessum fjórum frændþjóðum vorum hefir reynst best að haga landstærðunum, til þess að hafa sem mest upp úr þeim. Í skýrslunni er um 4 stærðir að ræða.

Ár

Tala

Minni en

2 ha

2-20 ha

20–50 ha

50 ha eða meira

Danmörk minni en 2-20 20–50 50 ha.

1919

290000

39,2%

43,7%

13,9%

3,2%

Svíþjóð tal býla 2 ha ha. ha. eða meira

1919

546000

43,6%

49,5%

5,4%

1,5%

Noregur I

1917

248000

68%

30,3%

1,6%

0,1%

Finnland 39,2% 43,7% 13,9% 3,2%

1920

305000

39,4%

52,8%

6,6%

1,2%

43,6 — 49,5— 5,4 1,5–

Sjest á þessu yfirliti, að í Danmörku er mest af stærstu jörðunum, og mikið af miðlungsjörðunum frá 2–20 ha. Í Svíþjóð er enn minna af stórbýlum, og í Noregi er afarlítið af þeim. Í Finnlandi er tala stórbýlanna aftur á móti lík og í Svíþjóð, en minni en í Danmörku.

Þessi skýrsla frá hinum náskyldu og merkilegu þjóðum er sterkur vottur þess, að það er ekki út í bláinn, þegar rætt er um, að þar sje lögð stund á að láta býlin fjölga í sveitinni, þá er í því efni fordæmi meðal nánustu frændþjóðanna.

Hin mikla fjölgun býlanna í þessum fjórum nágrannalöndum hefir ekki komið af sjálfu sjer. Fjöldi fólks hefir unnið að þessu. Og í Danmörku hefir ákveðinn stjórnmálaflokkur starfað að ræktunarmálunum og reynt að hlynna að þeim sem best hann gat.

Hæstv. fjrh. (JÞ) hjelt því fram á þinginu í fyrra, að goðgá væri að styðja býlafjölgunina með framlagi úr landssjóði, Menn ættu að kynna sjer fjárlög Dana. 1925 voru þar veittar 410 þús. kr. til húsmannabýla. Fer sá styrkur mest í byggingar, til þess að ljetta undir með fátækum mönnum og hjálpa þeim til að byrja búskap og stuðla þannig að ræktun landsins. Einnig leggja sveitarfjelögin fram fje, enda þarf mikið til, því að fullgerð húsmannabýli kosta nú um 25 þús. kr. En landnemarnir eiga sjaldan mikið, geta lagt fram 2–3 þús. kr. frá sjálfum sjer. Fá þeir þá lán og styrk úr ríkissjóði og bæjarsjóðum undir eftirliti og samkvæmt sjerstökum reglum.

Jeg veit, að þeir, sem kunnugir eru því, hvernig hagar til hjer á landi, skilja þetta vel. Því að ef bygt er hjer steinhús á meðaljörð fyrir um 20 þús. kr., þá er ekki búandi á slíkri jörð, ef borga þarf húsið, eða svara háum vöxtum af fjárhæðinni. Eigi búskapurinn að vera sæmilegur, má ekki reikna húsið neitt. Einstöku menn leggja efni sin í varanleg hús handa eftirkomendum sínum, en ef gera á mikið í þá átt, er enginn aðili nógu sterkur nema þjóðin öll. Enginn annar getur lyft svo þungri byrði.

Í Noregi, þar sem smábúskapurinn er mjög mikill, má Smábændabankinn í Osló, eins og kunnugt er, lána alt að 9/10 af matsverði nýbýla. Ef jörðin er t. d. metin á 10 þús. kr., getur eigandi hennar fengið 9 þús. kr. lán. En það skilyrði er sett, að engum má lána meira en 10 þús. kr. í þeim banka. Ríkissjóður ábyrgist lánin og borgar af þeim, eftir því, hvernig á stendur og eftir tilteknum reglum. Þessvegna má fullyrða að býlaaukningin, 47 þús. býli á tímabilinu 1870–1917, sje framkvæmd að miklu leyti með beinum styrk frá ríkissjóði og sveitarfjelögum. Þannig er þá nýbýlamálinu komið hjá Norðmönnum, en þar eru skilyrðin líkust og hjer á landi.

En þegar við komum heim frá þessum glæsilegu dæmum frændþjóðanna og minnumst þess um leið, hve mikla áherslu einn hinn gáfaðasti stjórnmálamaður Englands leggur á býlafjölgunina, og hve mikið Norðurlandaþjóðirnar yfirleitt hafa gert í þessum efnum, þá verður ömurlegt að athuga, hvernig ástandið er hjer á landi, Jeg ætla að gefa hjer mjög svo sorglega skýrslu, ekki um fjölgun býla á Íslandi, heldur um fækkun þeirra, þegar allar aðrar mentaþjóðir reyna að fjölga þeim.

Elsta skýrsla um þessi efni er frá 1703. Þá eru 7537 býli hjer á landi. Tæpum 100 árum seinna, 1801, eru þau orðin 7401. 50 árum seinna, 1852, eru þau ekki orðin nema 5621. Nú liða 20 ár, og á þeim tíma fjölgar býlunum um 300. Á næstu 20 árum fjölgar þeim enn, og eru þau 1902 6684 að tölu. En nú tekur þeim að fækka aftur, og 1912 eru þau ekki nema 6547 og loks 1918, er síðasta jarðamat var gert, voru hjer á landi 6112 býli. Á þessum tveim öldum, frá 1700 til vorra daga, hefir þeim þannig fækkað um 1400.

Jeg geri ráð fyrir, að þeir hv. þm, í þessari deild, sem eru mótfallnir þessu frv. mínu, hafi alls ekki gert sjer ljós þau tvö grundvallaratriði, sem frv. byggist á. Þeir vita ekki um þá hnignun, sem hjer hefir orðið og fram kemur í fækkun býla hjer á landi á síðari áratugum; og ekki hafa þeir heldur hugmynd um þær framfarir, sem á sama tíma hafa átt sjer stað á þessu sviði, hjá frændþjóðum vorum erlendis. Jeg hefi gaman af að geta þess, að við flutning þessarar ræðu minnar, sem snertir meira insta kjarna þjóðlífsins en flest önnur mál, sem þingið hefir fjallað um á síðari árum, að þá hafa flest allir þm. úr flokki hæstv. stjórnar og hinn eini fulltrúi „frelsishersins“, sem sæti á hjer í deildinni, verið fjarverandi. Með öðrum orðum, andstæðingar framsóknarmanna í þinginu vilja sýna opinberlega, að þeir hafa óbeit og ótrú á nýbýlahugmyndinni. En um leið sýna þeir óvild, kulda og skilningsleysi hinni þjóðlegu menningu Íslendinga. Jeg segi þetta til þess að sýna fram á, að það er ákveðið samband milli þeirrar hnignunar og aðgerðarleysis, sem hjer hefir ríkt og ríkir enn á þessu sviði hjer á landi og þess, að þeir tveir ráðherrar, sem hjer hafa skifst á um að fara með völd hin síðastliðnu 9 árin, hafa báðir kosið að láta dyrnar geyma sín, meðan verið er að reifa hjer þýðingarmesta mál þjóðarinnar.

Jeg býst við, að þó að andstæðingar mínir hjer í þessari hv. deild hafi löngun til að sýna landnáms- og ræktunarhugmyndinni óvild, þá muni þeir þó smátt og smátt eftir öðrum leiðum en skilningnum verða varir við straum samtíðarinnar. það, sem Lloyd George berst fyrir í Englandi, það sem fremstu menn allra Norðurlandaþjóðanna hafa beitt sjer fyrir áratugum saman, getur varla verið neðan við íhaldsmenn þessarar hv. deildar. það hirðuleysi, sem hjer ríkir um þetta mál hjá oss, er merki um það, að núverandi stjórnendur og forystumenn þjóðar vorrar hafi þegar lifað sitt fegursta, að þeir eru einskonar steingervingar frá liðnu tímabili og eru blindaðir eða hafa algerlega lokað augunum fyrir öllu, er snertir sanna viðreisn þjóðarinnar. Jeg tek þennan svefn íhaldsmanna og hirðuleysi sem átakanlegt dæmi um þá framtíð, sem þessir menn eiga í vændum. Þeirra bíður sú framtíð, sem þeir með svefni sínum og hirðuleysi hafa ætlað að búa ræktun og þjóðmenningu þessa lands.

Skýrslur þær, sem jeg las upp áðan, sýna að í ráðherratíð þessara tveggja manna hefir býlum hjer á landi fækkað meira en á verstu harðindatímum umliðinna alda. Og í þeirri niðurlæging landsins er fólginn dómur um stjórn þess.

Jeg leyfi mjer svo að biðja um, að nafnakall verði viðhaft við atkvgr. um frv.