14.05.1926
Neðri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í C-deild Alþingistíðinda. (2593)

109. mál, landhelgissjóður

Pjetur Ottesen:

Það þarf ekki mörg orð um þetta mál, því það er nokkurn veginn sýnilegt, að það verður ekki útrætt nú. En jeg vildi þó láta það sjást, að jeg er ekki samþykkur því, að farið verði að rýra tekjur landhelgissjóðsins. Með stofnun þessa sjóðs er lagður grundvöllur að því, að komið verði á fót innlendri landhelgisgæslu. Og þótt hjer sje nú orðið um allgildan sjóð að ræða, þá verður að athuga það, að verkefni þessa sjóðs er stórmikið. Því auk þess upprunalega ætlunarverks sjóðsins að koma upp fyrir hann strandvarnarskipinu, þá er búið að taka upp á sjóðinn útgerðarkostnað strandvarnarskipanna að nokkru leyti. Jeg held, að á fjárlögum 1927 sje gert ráð fyrir, að varið verði úr sjóðnum á því ári 135 þús. kr. í þessu skyni, sem vitanlega má búast við, að verði meira.

Svo er þess að gæta, að eftir því sem landhelgisgæslan eykst, minka vitanlega tekjur sjóðsins; því að sá raunverulegi árangur landhelgisgæslunnar lýsir sjer í því, að hægt verði að halda botnvörpungunum utan landhelginnar. Því er það, að því nær sem við komumst því markmiði, að landhelgin sje sæmilega varin, þá minka tekjur sjóðsins af sektum fyrir óleyfilegar botnvörpuveiðar að sama skapi.

Jeg vildi aðeins láta þessi ummæli koma fram og vænti þess, að framvegis komi ekki fram tillögur um að rýra tekjur svo merkilegs sjóðs sem þessa, sem stuðlar að því að hrinda í framkvæmd einu af nauðsynlegustu málum þjóðarinnar.

Við verðum að gæta þess, að það verður alt annað upp á teningnum, þegar Íslendingar sjálfir fara að reka landhelgisgæsluna á vel útbúnum skipum, heldur en verið hefir oft að undanförnu um þá landhelgisgæslu, sem Danir hafa á hendi hjer við land. Þannig var það í vetur, meðan vertíðin stóð sem hæst, þá lá strandvarnarskipið vikum saman hér við hafnarbakkann.