24.04.1926
Efri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í C-deild Alþingistíðinda. (2609)

106. mál, hæstiréttur

Jónas Jónsson:

Jeg vil fyrst minna á það, þó ekki komi þessum umr. beinlínis við, að þar sem hv. 1. landsk. (SE) er að gera lítið úr stjórninni fyrir hennar afrek í þessu máli, þá væri ekki úr vegi, að hann mintist þess, þegar hann bar fram á þingi 1923 frv. um að fækka sýslumönnum og bar fyrir sparnaðarástæður. Frv. þetta kom ekki til minna kasta, því að það kom aldrei hingað í deildina. En jeg held, að jeg mundi hafa getað fylgt hv. 1. landsk. að einhverju leyti að þeim málum. Mjer finst því, að hv. þm. (SE) ætti ekki að tala eins djarflega um þá blessun, sem af því leiðir að hafa marga dómara í hæstarjetti, þegar hann vill fækka dómurum í undirrjetti. Mjer finst engu síður ástæða til þess að vanda til undirdómaranna og banna þeim að vasast í stjórnmálum og bindast sterkum flokksböndum. Og þeir, sem tala um öryggi hæstarjettar, ættu að veita því athygli, hvað af því geti leitt, þegar dómarar demba sjer út í illvígar flokkadeilur og greiða atkvæði á þingum eins og brúður, eftir því sem flokkurinn skipar fyrir. Slíkt miðar ekki til þess að auka traust á rjettarörygginu. Jeg vil benda háttv. 1. landsk. (SE) á það, að það eru þessir dómarar, sem flestir borgarar verða yfirleitt að sætta sig við, vegna þess að þeir hafa ekki ráð á því að nota hæstarjett. Mörg dæmi eru til, sem sýna, hvað þetta getur verið átakanlegt. Jeg skal nefna það, að á Eskifirði kom það fyrir, að hjeraðslæknirinn ætlaði að deyfa tönn í stúlku, en braut nál inni í tanngarðinum og náði henni ekki aftur. Stúlkan varð fárveik, varð tvisvar að fara til Reykjavíkur að leita sjer lækningar við ígerð út frá nálarbrotinu. Móðir stúlkunnar vildi, að læknirinn bætti fyrir vangá sína að einhverju leyti. Hann tímdi því ekki. Hún fór í mál, tapaði því fyrir undirrjetti og hefir ekki efni á að leita til hæstarjettar. Finst mönnum ekki hart, að menn, sem hafa svo rjettmætar kröfur, skuli vegna fá- tæktar verða að sætta sig við dóma, sem almenningsálitið ekki styður.

Það þarf að gera sjer ljóst, að undirdómur er í flestum tilfellum hæstirjettur allrar alþýðu. Jeg furða mig því á því, ef hv. 1. landsk. (SE) lætur sjer nægja að tryggja hæstarjett einan, en tekur ekki undirdómstólana með. Hann verður þó að viðurkenna það, að undirrjettur er hjer yfirleitt miklu ver trygður heldur en í öðrum löndum, þar sem hjer eru ekki kviðdómarar og dómurunum leyfist að blanda sjer inn í allskonar flokkadrátt, sem ekki gerir rjettlætistilfinninguna sem næmasta.

Jeg get ekki sagt, að svar hæstv. forsrh. (JM) væri fullnægjandi, og jeg vildi óska, að hann athugaði betur eina hlið á svari sínu. Jeg bjóst við því, að hann vildi lítið tala um veitingu forstjórastöðu brunabótafjelagsins, sem er alment fordæmd meðal landsfólksins. En sú skýring, sem hæstv. forsrh. kom með, er auk þess alveg röng, því þetta starf er miklu betur launað en hæstarjettarritarastaðan og því betra að skifta, auk þess sem það er viðbúið, að sú staða verði lögð niður. Það var því mjög einfalt fyrir hæstv. forsrh. að skjóta því að hæstv. atvrh. (MG) að veita þessum manni forstjórastöðuna, svo auðvelt væri að leggja ritaraembættið niður. Því mjer dettur ekki í hug að halda, að maðurinn hafi ætlað að gegna báðum þessum embættum fremur en hæstv. forsrh. mundi detta í hug að vera dómari í Reykjavík jafnframt því, sem hann er ráðherra. Þetta sýnir, að hæstv. forsrh. (JM) hefir ekki borið gæfu til þess að spara fje landsins, er hann ljet þannig ganga úr greipum sjer tækifæri til þess að fella þetta embætti niður, sem hvort sem er átti að leggja niður samkvæmt vilja þingsins. Því fremur var þetta tækifæri sjálfsagt og hentugt, sem mjer hefir sagt maður, sem er meiri lögfræðingur en hæstv. forsrh. (JM), að eftir lögunum frá 1924 væri ekki hægt að leggja embættið niður. Jeg verð nú að kenna hæstv. forsrh. (JM) um það, að þessi gloppa er á lögunum. En ef það er nú rjett, að þessi gloppa sje nú á þessu sparnaðarfyrirtæki hæstv. forsrh., þá gafst honum nú tækifæri að setja rögg á sig og bæta úr því.

Viðvíkjandi hinu, að ekki er búið að framkvæma breytinguna á hæstarjetti ennþá, verð jeg að segja, að það sje alveg óafsakanlegt. Því þótt brtt. fjelli á þingi 1924, um að lögin skyldu koma til framkvæmda 1925, þá er vitanlega jafnóafsakanlegt að draga að framkvæma þau, ekki síst er þetta tækifæri gafst, sem jeg hefi nú minst á. Þetta er því alls ekki eins einfalt eins og hæstv. forsrh. vill vera láta. Þá má líka minnast þess, að í lögunum er hæstarjettardómurum heimilað að sleppa embætti, er þeir hafi náð vissum aldri. Þetta ber að skoða sem kurteislega bendingu frá þinginu um það, að það ætlist ekki til þess, að mennirnir gegni embætti lengur. Hæstv. forsrh. (JM) veit líka, að það er víða í löndum, að bæði dómarar og prófessorar verða að fara frá embætti, jafnvel sextugir. Nú bætti hæstv. forsrh. einni leiðinlegri kórvillu í röksemdir sínar, er hann sagði, að þó að maður hefði náð aldurstakmarki, þá gerði það ekkert til, ef hann vildi gegna lengur. Þetta er ekki rjett, því sú breyting, sem verður á mönnum við ellina, er einmitt oft þannig, að þeim förlast andlegir kraftar, án þess þeir finni það sjálfir. Og ef t. d. tveir menn, sem komnir eru yfir þetta aldurstakmark, dæma dóma, þá er eðlilegt, að þeir verði í samræmi við ástand þeirra sjálfra. Það er því fjarstæða að segja, að þetta megi svo vera hvað snertir yfirrjettinn. Því það ætti yfirleitt að banna mönnum, sem gegna vandasömum embættum, að halda áfram, er þeir hafa náð ákveðnu aldurstakmarki. Það er því alveg rangt af hæstv. stjórn, að gera ekki þær ráðstafanir, sem andi laganna heimtar, til þess, að aldrei sitji eldri menn í hæstarjetti en sextugir.

Hv. 1. landsk. (SE) þarf jeg litlu að svara, því að hann kom ekki með neitt nýtt eða sjerstakt tilefni í ræðu sinni. Það er ekki hægt að sjá, að hann álíti neitt annað að rjettarfarinu í landinu heldur en það, að 3 dómendur sjeu í hæstarjetti í stað 5. Jeg held nú, að ef það er virkilega nauðsyn að fjölga þessum dómurum, þá ættu þeir að vera fleiri en 5. Ef slík óáran kæmi í mannfólkið, að það í raun og veru væri talan, sem hjer riði á, þá ættu dómararnir að vera fleiri en 5, en á það get jeg ekki fallist fyr en jeg rek mig á það, að ástandið heimti fjölgunina. Aftur virðist hv. þm. (SE) ekki hafa auga fyrir ástandi undirdómstólanna, hvort ekki geti verið álitamál að nota eigi kviðdóma, nje heldur, hvort ekki muni rjett að banna dómurum að vefjast í stjórn máladeilum. Það kom heldur ekki fram hjá honum, hver hætta geti af því stafað, að dómararnir sjeu hlaðnir allskonar umboðsstörfum svo sem uppboðum, innheimtu og öðru þessháttar viðskiftabraski. Það, sem jeg finn einkum að málsflutningi hv. 1. landsk. (SE), er það, að hann tekur málið fyrir á alt of þröngum grundvelli. Ef það er athugað, hvernig ástatt er um þessi mál hjá nágrannaþjóðunum, þá mun hverjum manni sýnast ástæða til þess að taka fyrir alt dómsmálaskipulagið, og ekki síður lægri dómstigin heldur en þau hærri. Því hefir nú verið hreyft hjer, og má vera, að þeir, sem vilja fjölga dómurum í hæstarjetti, fáist til þess að vera með öðrum rjettaröryggisráðstöfunum, sem aðrar þjóðir hafa skapað sjer. En þó gegnir furðu, er þeir þykjast ekki vita um neitt, sem farið hefir aflaga, eins og t. d. þegar Chr. Berg var dæmdur í fangelsi fyrir sakir, sem engum manni mundi nú detta í hug að dæma menn seka fyrir. Það kemur stundum fyrir, þegar einhver spilling hefir náð að þróast um hríð, þá gengur stormur yfir landið, svo þjóðin segir: hingað, og ekki lengra. Þegar sá stormur vaknar hjer, vegna dómstólaástandsins, þá mun hv. 1. landsk. (SE) fá byr í seglin viðvíkjandi umbótum í hæstarjetti, en þá mun máske þykja engu minni ástæða til að bæta hin lægri dómstig líka.