24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í C-deild Alþingistíðinda. (2627)

81. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg skal svara hv. þm. Str. (TrÞ) nokkrum orðum, þótt athugasemdir hans ættu frekar heima við 2. umr. þessa máls. Í tilsvarandi grein í frv. meiri hl. bankanefndarinnar er gert ráð fyrir því, að sú skipun á stjórn Landsbankans, sem meiri hl. fór fram á, gæti komið til framkvæmda á næstunni. Þær bankastjórastöður, sem nú eru við Landsbankann, hljóta að falla niður og ný skipun að fara fram af þeirri einföldu ástæðu, að frv. gerir ráð fyrir því, að hjer komi einn yfirbankastjóri og tveir undirbankastjórar. Hjer er því eðlilegt framhald af því, sem meiri hl. milliþinganefndarinnar í bankamálum hefir stungið upp á. Það eru aðeins settar reglur um, hvernig fara skuli að, ef nýir menn verða skipaðir af hinu nýja veitingarvaldi, bankaráðinu, í hinar nýju stöður.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að fara inn á það, sem sami háttv. þm. sagði alment um lánveitingar til atvinnuveganna. Það snertir ekki frv. það, sem hjer um ræðir. Þó má minnast á það, sem raunar allir hv. þm. vita, að það er ekki alt fengið með því, að útvega atvinnurekendum lán. Það verða fyrst og fremst að vera fyrir hendi grundvallarskilyrðin fyrir því, að geta notað lánið til arðberandi atvinnureksturs. Það er reynsla til fyrir því hjer, að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að veita bankafje inn í eitt hjerað hjer, og það hefir haft hinar hörmulegustu afleiðingar. Jeg á hjer við Selfoss. Umhverfið þar er nú svo sokkið í skuldir, að það á erfitt með að reisa sig við aftur. Útlánsfjeð hefir ekki borið árangur til viðreisnar atvinnuvegunum, vegna þess að skilyrðin til þess vantaði.

Jeg fer ekki meira út í þetta nú, en það kynni að vera ástæða til þess að minnast á það í sambandi við annað mál, sem hjer er á dagskrá í dag.