03.05.1926
Neðri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í C-deild Alþingistíðinda. (2646)

81. mál, Landsbanki Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg skal ekki lengja umræðurnar mikið. En jeg get ekki komist hjá því, að fara nokkrum orðum um brtt. þá, sem jeg ber fram á þskj. 469, ásamt hv. þm. Str. (TrÞ). Þessi brtt. fer fram á það, að gerð verði á þessu frv. breyting í samræmi við núgildandi bankalög. Á þinginu 1919 var samskonar ákvæði sem þetta sett inn í bankalögin, og síðan hefir þessi rjettur haldist. Jeg get ekki sjeð, að þótt bankinn fái seðlaútgáfurjettinn, þá þurfi að svifta hann þeim rjetti, sem honum var veittur 1919. Sumum kann að virðast, að ef honum er veittur þessi rjettur, þá sje nokkuð gert til þess að auka innlánsstarfsemi hans, en jeg sje ekkert á móti því, að það sje gert. Jeg býst við því, að styrkur bankans sje í því fólginn, að hann hafi mikið fje og geti ráðið peningamálum landsins. Því þarf að hlynna sem best að honum, á þann hátt að hann fái það fje, sem honum er vinningur í að fá. Annars skal jeg ekki fara frekar inn á þetta mál. Jeg býst ekki við því, að menn græði mikið á lengri umræðum. En jeg vænti þess, að háttv. deild sjái sjer skylt að hlynna að þjóðarstofnuninni og samþykki þessa brtt. okkar.