08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í C-deild Alþingistíðinda. (2681)

81. mál, Landsbanki Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hefi beðið með að tala fyrir þeim brtt., sem jeg er viðriðinn í þessu máli. En nú hefir hæstv. fjrh. (JÞ) vikið að þeim. Sú till., sem jeg flyt einn, er undir staflið II. á þskj. 506. Í hinu upphaflega frv. stjórnarinnar var gert ráð fyrir, að hið nýja skipulag um aðalbankastjóra komist á þegar eftir að þessi lög ganga í gildi. Eins og það er orðið nú, á það að koma til framkvæmda, þegar eitt sæti losnar. Mjer finst, að annaðhvort ætti þetta að geta komið strax til framkvæmda, eins og hæstv. stjórn ætlaðist til, eða ekki fyr en núverandi bankastjórar hafa lagt niður störf.

Jeg lít svo á, að þar sem þessir menn hafa staðið hver við annars hlið sem jafnrjettháir, — og sú samvinna hefir farið vel fram, eftir því sem mjer er kunnugt, — þá sje það óeðlilegt og ef til vill líklegt til að koma einhverri óeiningu á milli, að fara að rifta þessu. Annars dreg jeg það yfirleitt í efa, hvort þetta skipulag að hafa einn aðalbankastjóra, en hina undirbankastjóra, sje rjett. Það hefir verið reynt áður og þótti þá ekki gefast sem best. Þetta skipulag var það í raun og veru, þegar bankastjórinn var einn en tveir gæslustjórar. Jeg ætla ekki að fara út í þetta frekar nú, aðeins geta þess, að Alþingi breytti því skipulagi, af því það áleit það ekki heppilegt.

Hv. frsm. meiri hl. (MJ) og hæstv. fjrh. (JÞ) hafa vikið að þeim till., sem við hv. 1. þm. N.-M. (HStef) höfum borið fram á þessu sama þskj. og gengur í sömu átt og till., sem við bárum fram við 2. umr. Jeg hefi enga tilhneigingu til að lengja umr. um það mikið nú. Vitanlega eru það allar sömu ástæðurnar, sem mæla með nú og við 2. umr. frá okkar sjónarmiði. En við fórum ekki eins langt nú. Vil jeg sjerstaklega benda á það, að í síðari till. okkar er svo hógværlega farið í sakirnar, að jeg á bágt með að skilja, að hæstv. fjrh. (JÞ) geti ekki aðhylst hana. En hæstv. ráðherra bætti þeirri ástæðu við, að þetta væri óframkvæmanlegt, því að brjefavextirnir gætu ekki breytst. Jeg efa ekki, að svo mætti fara, að á brjefunum sjálfum stæði, að vextirnir sjeu ½% hærri en sparisjóðsvextir Landsbankans. Vitanlega er hægt að útborga það svo.

Hv. frsm. meiri hl. (MJ) sagði, að við ættum eftir að færa ástæður fyrir þessari till. okkar. Þessu vil jeg mótmæla. Við höfum fært ástæður fyrir því, — og þær þungar og sterkar — hvað landbúnaðurinn yrði hart úti á þessu sviði og hve nauðsynlegt væri að rjetta hluta hans. Og við efumst fullkomlega um, að það verði gert, ef Alþingi sjálft ekki gerir það.

Hæstv. ráðh. (JÞ) kom að því, að rjettast væri að halda því, sem varð að samkomulagi í fyrra í þessu efni. En það voru ýmsir óánægðir með fyrir- komulag Ræktunarsjóðsins. Og jeg vil ekkert tækifæri láta ónotað til að koma fram því máli, sem, þegar á alt er litið, er eitt það nauðsynlegasta fyrir framtíð okkar lands.