08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í C-deild Alþingistíðinda. (2682)

81. mál, Landsbanki Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Það eru aðeins örfá orð út af þeim athugasemdum, sem komið hafa fram gegn ummælum mínum um 3. brtt. hæstv. frjh. (JÞ). Hv. frsm. meiri hl. (MJ) hefir andmælt ummælum mínum, og mjer er sagt, að hv. 2. þm. Rang. (KlJ) hafi tekið í sama strenginn og nú loks hæstv. fjrh. Jeg heyrði nú ekki hv. 2. þm. Rang. (KlJ) og get því ekki með vissu vitað, hvað hann sagði. En mjer er skýrt frá nokkrum atriðum. Býst jeg við, að svar mitt til hæstv. fjrh. geti átt við ummæli hans. Hæstv. fjrh. taldi, að jeg hefði skert með þessari till. hlunnindi þau, sem Landsbankanum væru ætluð. Jeg setti þessa skoðun fram og þóttist rökstyðja hana nokkuð, meðal annars með skírskotun til undanfarinnar reynslu; og jeg fell ekki frá því. Það hefir sýnt sig, að sjóðir, sem áttu eftir sínu eðli að ávaxtast í Landsbankanum, hafa verið ávaxtaðir alt annars staðar. Þetta hefir numið allmiklum fjárhæðum.

Hæstv. ráðherra drap á, að það bæri að líta á fleira en aðeins hagsmuni bankans; það þyrfti jafnframt að líta á hag ríkissjóðsins og hag þessara einstöku sjóða. Það þykist jeg einmitt hafa ekki síst viljað gera með þessari brtt., sem samþ. var hjer við 2. umr.

Það mun nú vilja brenna víðar við en hjá okkur, að menn vilja gjarnast ávaxta þar fje sitt, sem hæstir eru greiddir vextir, án tillits til, hvort staðurinn er öruggur eða ekki. En nú veit jeg ekki til, að neinn munur hafi verið á þeim. vöxtum, sem Landsbankinn greiddi og aðrir, eða mjög smávægilegur. (Fjrh. JÞ: Hvað upplýsti hv. þm. Rang. (KlJ)?). Jeg heyrði það ekki. En jeg hygg, að það hafi aldrei átt sjer stað í seinni tíð. Og jeg býst við, að það sje það tímabil, sem um er að ræða.

Þó að það sje mikils um það vert, að ávaxta fje sitt vel, þá er miklu meira um það vert að fjeð sje geymt á tryggum stað. Nú vil jeg alls ekki segja, að þeir fjármunir, sem ávaxtaðir voru í Íslandsbanka, hafi ekki verið tryggir. Reyndar voru skiftar skoðanir um það um eitt skeið. En það er áreiðanlegt, að þjóðbankinn á að vera sú tryggasta peningastofnun í hverju landi og langt um öruggari en „prívatstofnanir“. Og því er ekki nema sjálfsagt, að löggjöfin sje þannig sett, að opinberir sjóðir sjeu ávaxtaðir þar, sem þeim er best borgið. Jeg hygg það hafi átt sjer stað fyrir nokkru, að fje úr opinberum sjóði hafi glatast, af því að það var geymt á ótryggum stað. Jeg get að vísu ekki nefnt upphæðina, en mjer er sagt, að hún hafi verið allveruleg. (KlJ: Þetta skeði fyrir hundrað árum)! Sá sjóður væri nú orðinn stór og mikill, hefði hann engu tapað. Þó að nokkurt árabil sje síðan, þá getur þetta komið fyrir aftur.

Jeg get því sagt viðvíkjandi því, sem hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að jeg hugsa líka — og fremur en hann — um hag þessara opinberu sjóða með því að vilja láta geyma þá í Landsbankanum, en ekki annarsstaðar. Geta má þess, — sem jeg hefi þó áður tekið fram á þingi — að skipulagi þessara sjóða er þannig háttað, að höfuðstólinn á ekki að skerða; og venjulega er það svo, að leggja á nokkuð mikinn hluta af ávöxtunum við. Þetta er það besta innlánsfje, sem nokkur peningastofnun getur fengið, því að hún þarf ekki að gera ráð fyrir að þurfa að láta það fljótlega af hendi.

Hæstv. ráðherra (JÞ) mintist á, að stjórnin þyrfti að hafa óbundnar hendur, svo að hún gæti ávaxtað þar, sem hæstir vextir fengjust. (Fjrh. JJ?: Ekki sagði jeg það, heldur tryggastir). Jeg hygg það þurfi ekki að standa í vegi, þó að þetta ákvæði sje óbreytt. Mjer finst hæstv. ráðh. gera of mikið úr þessu atriði. En því fremur ætti að vera sjálfsagt að ávaxta þessa opinberu sjóði í Landsbankanum.

Það má líka hugsa sjer það eins og hæstv. fjrh. (JÞ) leggur til, að eitthvað væri fyrir því unnið, að sett yrðu ákvæði í skipulagsskrá sjóðanna, að þeir yrðu ávaxtaðir annarsstaðar. En þá er jeg ekki viss um, að það yrði undir öllum kringumstæðum hættulaust. Og þó menn geri mikið úr frelsi og rjettindum manna til svona ákvarðana, þá finst mjer mega ganga of langt í því efni.

„Búkkaðu fyrir biskupnum, Snjólfur minn.“ Mjer dettur í hug, að svona löguð ákvæði sjeu fremur til að bæta hagsmuni þjóðbankans en hinna einstöku sjóða.