08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í C-deild Alþingistíðinda. (2685)

81. mál, Landsbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg get ekki skrifað undir það með hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að gera beri alt til þess, að auka innlánsfje Landsbankans. Jeg tel það mundi verða til skaða og því verra því meira; stafar honum af því slík áhætta, að hún gæti orðið honum að falli sem seðlabanka. Jeg er hræddur um, ef kreppa kemur — og hún kemur fyr eða síðar — verði sparifje og útlánsstarfsemi til meins fyrir bankann og hættu fyrir landið. Af þeirri ástæðu get jeg ekki greitt atkvæði með því, að skylda bankann til að taka við innstæðufje.

Háttv. frsm. minni hl. (JakM) hefir lýst, hversu óformleg og óviðeigandi ákvæði 68. greinar eru. Þau eru einsdæmi, og slík ákvæði finnast ekki í neinum þeim lögum um seðlabanka, er menn hjer þekkja.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) heldur það sje bankanum mikils virði, að vera skyldaður til að taka við fje opinberra sjóða. Það er vitanlega meiningarlaust að skylda starfsmenn og stjórn að leggja alt handbært fje inn í Landsbankann, ef hann er ekki skyldugur til að taka við því.

Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) hefir skýrt áður, að lögin frá 1919 væru pappírslög. Og þau geta aldrei orðið annað en pappírslög, og þeir, sem mæltu með þeim þá, hafa ekki staðið við þau, ekki fylgt lagabókstafnum. Hv. 2. þm. Árn. (JörB) vill skylda alla sjóði og stofnanir að ávaxta fje sitt í Landsbankanum og bankann þar með að taka við. En í skipulagsskrám sumra sjóða, er menn gefa til eflingar sveitarfjelagi, er svo fyrir mælt, að fje sjóðsins skuli ávaxtað með útlánum gegn tryggum jarðaveðum í því bygðarlagi. Þykir mjer æði hart aðgöngu, að menn, sem gefa fje á þennan hátt, sjeu ekki frjálsir að því að lofa þeirri sveit, er sjóðinn hlýtur, að njóta þæginda af lánum úr sjóðnum.

Frelsi — sagði háttv. þm. — væri oft til bölvunar. Getur verið í einstaka tilfellum. En frelsi í þessa átt, að leyfa mönnum að hafa frjálsar hendur um innstæðufje sitt, getur aldrei leitt til ills. (JörB: Thorkillisjóðurinn tapaði 5/8). Var það af því, að Ríkisbankinn ekki ávaxtaði? Það var vegna þess, að danska ríkið varð gjaldþrota. Eins mundi fara um fje í Landsbankanum, ef íslenska ríkið yrði gjaldþrota.

Nei, háttv. þm. má ekki halda, að það sje eins með peningastofnanir og menn, sem vilja fá lán. Getur vel komið fyrir, að bankinn vilji ekki og geti ekki tekið við innlánum. Helst skildist mjer á hv. þm., að hann vildi ráðstafa öllum innstæðum manna, og skal jeg ekki neita því, að þá væri ófrelsið fullkomið. (JörB: Misskilningur!).