13.02.1926
Neðri deild: 6. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (2769)

18. mál, sæsímasambandið við útlönd o.fl.

Atvinnumálaráðherra (MG):

Landsstjórninni var á síðasta þingi falið að gera samninga um skeytasamband við útlönd frá þeim tíma, er einkaleyfi Mikla norræna ritsímafjelagsins væri á enda, eða frá 1. september 1926, þó þannig, að samningar þessir skyldu lagðir fyrir Alþingi til samþyktar á eftir.

Þessir samningar hafa nú verið gerðir, og er farið fram á, að Alþingi veiti samþykki til þess, að gera megi endanlega samninga.

Saga þessa samningamáls er sú, að á árinu 1924 vissi stjórnin um, að danska stjórnin og Mikla norræna ritsímafjel. áttu í samningum um endurnýjun á leyfi fjelagsins um rekstur sæsímanna í Norðursjónum, en rekstur þessara sæsíma, eða rjettara sagt gjaldið fyrir notkun þeirra, kemur oss mjög við, vegna þess, að öll símskeyti vor til Norðurlanda og víðar verða að fara um þessa sæsíma. Af þessu var það ráð tekið haustið 1924 að senda landssímastjóra utan, til þess að vjer gætum haft hönd í bagga um samninga þessa og jafnframt til þess að grenslast eftir, hvort Mikla norræna ritsímafjelagið mundi vilja ganga að þeim kröfum, sem vjer yrðum að gera til þess að endurnýja sjerleyfi fjelagsins.

Árangurinn af þessari ferð varð sá, að vjer fengum bindandi loforð um, að svo framarlega sem samningar tækjust við fjelagið um Íslandssímann, skyldi ekki hærra gjald tekið fyrir hvert orð í skeytum til og frá Íslandi, er færu um Norðursjávarsímana, en tekið væri á hverjum tíma fyrir hvert orð í skeytum milli Danmerkur og Englands, en hingað til hafði hærra gjald verið tekið fyrir okkar skeyti en danskensk skeyti. Ennfremur var það ákveðið, að ef það yrði ofan á að færa niður símgjöldin milli Danm. og Íslands, svo að þau yrðu ekki hærri en milli Englands og Íslands, skyldi hlutfallsleg lækkun koma á gjaldið fyrir notkun Norðursjávarsímans.

Að öðru leyti strönduðu samningarnir alveg um Íslandssímann, og Mikla norræna ritsímafjel. ljet í veðri vaka, að það mundi alls ekki geta gengið að kröfum vorum, og í samræmi við það ljet fjelagið þess getið í skýrslu sinni fyrir árið 1924 til aðalfundar, að hluthafar mættu búast við, að einkaleyfið um Íslandssímann yrði ekki framlengt.

Eftir þetta strand samninganna 1924 voru svo samningaumleitanir teknar upp aftur síðastliðið haust, og fór þá enn svo, að fjelagið kvaðst ekki geta gengið að kröfunum, en eftir mikið þóf fór þó svo, að fjelagið slakaði til, og komust á samningar, sem samningamenn vorir töldu oss hagkvæma, og liggja þeir nú fyrir hjer til samþyktar eða synjunar.

Þegar um er að ræða skeytasamband við umheiminn, er, eftir því sem nú er komið, um þessar leiðir að velja:

1. Sæsímasamband eingöngu.

2. Sæsímasamband og loftskeytasamband til vara.

3. Sæsímasamband og loftskeytasamband jöfnum höndum.

4. Loftskeytasamband eingöngu.

5. Loftskeytasamband og sæsímasamband til vara.

öllum, sem við samninga fengust af okkar hálfu, kom saman um, að hvorki símasamband eingöngu nje loftskeytasamband eingöngu væri nægilega trygt, en símasambandið þó tryggara. Einnig voru þeir allir sammála um það, eftir nákvæma athugun, að það væri alt of dýrt að halda uppi bæði símasambandi og loftskeytasambandi sem aðalsambandi jöfnum höndum, eða eftir vali sendenda, því að þá þyrfti miklu fleira starfsfólk, og skeytin hlytu að verða dýrari. Aðalsamband loftleiðina og sími til vara mundi einnig verða mjög dýrt vegna mannahalds og viðhalds símans, sem er jafnmikið, hvort sem hann er notaður mikið eða lítið. Langtiltækilegast þótti því símasamband og loftskeytasamband til vara, svo framarlega sem símskeytagjöldin yrðu ekki hærri um símann en loftleiðina. Símasambandið er enn sem komið er tryggara en loftsambandið, og ef hið fyrnefnda yrði ekki dýrara fyrir almenning, væri það hentugra.

Viðleitnin gekk því mjög í þá átt að fá símskeytagjöldin svo langt niður, að loftskeytasambandið gæti ekki orðið ódýrara, og þetta hepnaðist eftir þeim upplýsingum að dæma, sem um þessi efni fengust, enda hafa símagjöldin lækkað um 8½ ctm. pr. orð, eða um 34%, og munar þetta ca. 170000 gullfrönkum á ári eða um 150000 kr. Nokkuð af þessu, eða 4 ctm. fyrir orðið, hverfur þó aftur, vegna þeirrar hækkunar á sendi- og móttökugjöldum, sem alþjóðasímafundurinn í París síðastliðið haust samþykti, en sú hækkun er vitaskuld þessum samningum algerlega óviðkomandi, enda kemur hún til framkvæmda 1. apríl í vetur, en samningarnir ganga í gildi 1. sept. í haust. Með hinum nýju samningum græðist því 8½ ctm., eða sem næst 7½ eyrir á hverju símuðu orði, og þessi sparnaður rennur vitanlega til þeirra, sem símskeytin senda.

Þá kem jeg að hinni hlið málsins, þeirri, sem veit að ríkissjóði eða landssímanum. Þar liggur málið þannig fyrir, að vjer fyrst og fremst losnum við 35000 (danskra) kr. ársgreiðsluna. Í öðru lagi fáum vjer 30000 gullfranka á ári, eða sem næst 30000 kr., sem nokkurskonar sjerleyfisgjald frá fjelaginu. Í þriðja lagi tökum vjer að oss rekstur símastöðvarinnar á Seyðisfirði gegn 65000 gullfranka greiðslu á ári, og telur landssímastjóri, að vjer munum græða á því um 25000 kr. á ári, með því að vjer getum rekið stöðina ódýrar en Mikla norræna. Í fjórða lagi fáum vjer nú umráð yfir veðurskeytum vorum, og getum sennilega haft upp úr þeim um 20000 kr. á ári. Í fimta lagi fáum vjer helming brúttótekjuauka sæsímans, miðað við orðafjölda 1924, og áætlaði landssímastjóri það 37000 kr. á ári að jafnaði, en vitaskuld er þetta aðeins líkindareikningur, en hann styðst við þá aukningu símaviðskiftanna, sem hingað til hefir verið, og hefir verið frá 1924 til þessa tíma. Alls ætti því ríkissjóður að bera úr býtum að jafnaði á ári á hinum umsamda leyfistíma hjer um bil 150000 kr. umfram það, sem verið hefir hingað til, og er það þá sem næst jafnhá upphæð og skeytasendendur fá í lækkuðum símgjöldum. Fyrir ríkissjóð og símanotendur ætti því munurinn að verða um 300000 kr. á ári. Hagnaður ríkissjóðs er þó, eins og jeg tók fram, að sumu leyti ágiskun og verður að meðaltali minni, ef samningunum verður sagt upp við fyrsta tækifæri, og veldur því væntanleg aukning símaviðskiftanna.

Því, sem á hefir unnist við samninga þessa, hefir því verið skift nokkurnveginn jafnt milli ríkissjóðs og símanotenda.

Jeg tók það fram áður, að vjer fengjum 50% eða helming af gjaldi fyrir aukin símaviðskifti frá því sem þau voru 1924. Þetta er þó ekki sagt beinlínis í fylgiskjali 3, sem hjer liggur fyrir prentað, en það leiðir af orðalagi þess, eins og allir munu sjá, því að eins og þetta er orðað í fskj., kemur aukning þessi fram, sumpart sem hærri borgun fyrir rekstur símastöðvarinnar á Seyðisfirði og sumpart sem greiðsla til ríkissjóðsins umfram 30000 gullfranka á ári. En í raun og veru þýðir þetta ekki annað en 50% af tekjuauka af símaviðskiftum, ef gengið er út frá 65000 gullfranka greiðslu til stöðvarinnar á Seyðisfirði og fastri 30000 gullfranka greiðslu til ríkissjóðsins. Hinsvegar leiðir og af þessu, að ef símaviðskiftin minka frá því, sem þau voru 1924, fer líka greiðslan til símastöðvarinnar á Seyðisfirði niður úr 65000 gullfrönkum og greiðslan til ríkissjóðs niður úr 30000 gullfrönkum, en þessi möguleiki er svo fjarliggjandi, að naumast er þörf á að reikna með honum, því að símaviðskiftin hafa stöðugt farið vaxandi, og jeg er ekki í neinum efa um, að þau aukast einmitt talsvert við þá lækkun símagjaldanna, sem verður, ef hinn nýi samningur gengur í gildi.

Í sambandi við, að landssíminn tekur að sjer rekstur stöðvarinnar, standa kaupin á eignum Mikla norræna ritsímafjel. á Seyðisfirði. Verði kaup þessi samþykt, á fjelagið ekki lengur neinar eignir hjer á landi. Verðið á eignunum tel jeg vel aðgengilegt og borgunarskilmála sæmilega góða. Við samningagerðina var gengið út frá, að húsin kostuðu 70000 kr., en símatæki og annað 30000 kr.

Ef samningar þessir verða samþyktir, erum vjer bundnir við þá í 31/3 árs eða til 1. jan. 1930, og síðan má segja þeim upp annaðhvert ár, og verði þeim ekki sagt upp, falla þeir úr gildi í árslok 1934, enda eru þá á enda samningar þeir, sem Mikla norræna hefir gert bæði við Englendinga og Dani, um sæsíma þá, sem liggja til þeirra landa.

Með því að ákveðið hefir verið að hafa 2 umræður um þetta mál, og þessi fyrri umræða á að fara fram eftir sömu reglum og 2. umr. lagafrumvarpa, þá þykir mjer rjett, til þess að hv. deildarmönnum gefist nægilegt tækifæri til þess að ræða einstök atriði, að leggja það til, að þessari umr. verði nú frestað og málinu vísað til hv. samgöngumálanefndar.

Áður en jeg lýk máli mínu, þykir mjer skylt að votta umboðsmanni vorum í Kaupmannahöfn, Jóni Krabbe, og Forberg landssímastjóra bestu þakkir fyrir hlutdeild þeirra í samningunum. Er því meiri ástæða til þess að þakka hinum síðarnefnda, þar sem öllum er vitanlegt, að hann vann að samningunum, þótt hann væri mikið veikur, svo veikur, að flestir mundu hafa talið ófært að fást við mál sem þetta.